2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Léttar leiðir til að spara

  Stundum getur skipulagning og árvekni skilað miklu.

  Stundum er eins og peningarnir renni í gegnum fingur manns eins og sandur. Bíllinn bilar, þvottavélin gefst endanlega upp og fara þarf með barnið til tannlæknis og þar með er gulltryggt að erfitt verður að láta enda ná saman þau mánaðamót. Þá er gott að eiga varasjóð og það að spara þarf ekki að vera leiðinlegt eða snúast um sjálfsafneitun. Stundum getur skipulagning og árvekni skilað miklu.

  Endurskoðaðu reglulega þá þjónustu sem þú kaupir
  Skoðaðu nettenginguna, símann, tryggingarnar, áskriftir og önnur föst útgjöld. Ertu viss um að þú hafir keypt rétta pakkann? Sumir borga fyrir ótakmarkað niðurhal í símann en nota það sáralítið. Mun ódýrari leið gæti hentað þeim. Tryggingaverndin er heldur ekki alltaf í samræmi við þarfir fjölskyldunnar og hana þarf að endurskoða reglulega og leita tilboða hjá tryggingafélögum. Ofurlítil fyrirhöfn hvað þetta varðar getur skilað miklu.

  Er þinn banki bestur?
  Bankar taka þjónustugjöld og vextir á reikningum eru mismunandi. Farðu yfir valmöguleikana og athugaðu hvort þínir reikningar beri bestu ávöxtun sem völ er á. Ef þjónustugjöld bankans eru há getur borgað sig að skipta. Vertu einnig viss um að þú sért ánægð/ur með þjónustuna og þær ráðleggingar sem starfsfólk bankans veitir.

  Áttu safn sem er mikils virði?
  Flestir hafa gaman af að safna einhverju og oft verða söfn til fyrir hreina tilviljun. Það gæti borgað sig að fara yfir safnið sitt og velta fyrir sér hvort það veiti enn þá ánægju eða hvort söfnunin sé orðin að kvöð eða gömlum vana. Ef svo er má hefja söfnun á einhverju nýju og selja gamla safnið eða hluta af því sé það farið að taka of mikið pláss. Stundum kemur það fólki skemmtilega á óvart hvað má fá út úr slíku. Postulín, frímerki, glervörur, bækur og fleira getur verið verðmætara en virðist við fyrstu sýn.

  AUGLÝSING


  Búðu til tækifærisgjafir í stað þess að kaupa þær
  Flestir hafa einhverja hæfileika og það getur verið einstaklega gaman að búa til gjafir handa vinum og ættingjum. Flestir hafa gaman af að fá handunna muni sem alúð og hugsun hefur verið lögð í og þær gjafir gleðja oft meira en eitthvað sem keypt er í búð.

  Gefðu þér ávallt umhugsunartíma
  Rannsóknir hafa sýnt að flestir sjá mest eftir hvatvíslegum kaupum. Starfsmaðurinn í versluninni er duglegur sölumaður og sannfærir þig um að þetta sé einmitt það sem þig vanti en þegar heim er komið hugsar þú með þér: Æ, ég vildi að ég hefði látið vera að kaupa þetta. Mig vantaði það ekki og langar eiginlega ekkert í það. Næst þegar þú finnur fyrir löngun til að kaupa eitthvað slepptu því og segðu við sjálfa/n þig: Ef mig langar enn í þetta að hálfum mánuði liðnum ætla ég að fara og kaupa annars ekki.

  Gerðu við fötin þín eða breyttu þeim í stað þess að kaupa ný
  Allir verða leiðir á að ganga alltaf í sömu fötunum en það er ótrúlegt hvað litlar breytingar á gömlum flíkum geta gert mikið, t.d. má skipta um hnappa á peysu eða blússu og setja fallega perluhnappa, litríkar tölur eða fallegar krækjur í stað þeirra gömlu og flíkin fær nýjan svip. Að setja belti á gamlan kjól eða nota litríka slæðu við hann getur gert hann eins og nýjan. Oft er líka mjög auðvelt að breyta fötum, stytta, þrengja, sauma á ermar og kraga eða á einhvern annan skapandi hátt búa til fallega flík úr þeirri gömlu.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

   

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is