• Orðrómur

Leyndarmál afa

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég hef oft sagt að konurnar í fjölskyldu minni séu ekkert sérlega heppnar í ástum, það er að ömmu undantekinni. Hún og afi haf átt dásamlegt samband í yfir fimmtíu ár en mamma, móðursystur mínar, ég og systur mínar höfum allar lent í alls konar uppákomum með allavega karla. Nýlega komst ég þó að því að ekki var allt sem sýndist í hjónabandi afa og ömmu.

Mamma var rétt rúmlega tvítug þegar ég fæddist. Hún og pabbi bjuggu saman í tæplega fjögur stormasöm ár. Pabbi minn er að mörgu leyti ágætur en hann hefur aldrei getað verið einni konu trúr og honum fylgja alltaf alls konar fjármálaflækjur. Mamma flutti heim til afa og ömmu með mig eftir að þau slitu samvistum og þar ólst ég upp að stórum hluta. Á heimilinu voru auk okkar móðursystur mínar, Gulla og Nanna. Ein fyrsta skýra minning mín úr bernska er þegar Gulla sat í eldhúsinu hjá ömmu og grét úr sér augun. Þá hafði Andrés, stóra ástin í lífi hennar, sagt henni upp og ákveðið að taka saman við bestu vinkonu hennar.

- Auglýsing -

Gulla hefur síðan verið gift, Kalla, þau skildu vegna drykkjuskapar hans, búið með Stjána en þau skildu vegna þess að í kringum hann var slík og þvílík fjármálaóreiða að engin leið var að sjá fram úr því. Gulla hefur verið einhleyp síðan og ekki á leið í neitt samband, takk, eins og hún segir sjálf. Nanna aftur á móti er enn gift honum Gústa sínum. Hann er hins vegar alkóhólisti og hefur farið í fjórar meðferðir og fallið jafnoft. Nanna er enn ekki búin að gefast upp en iðulega stynur hún að líklega sé best fyrir konur að vera bara einar eins og hún Gulla systir.

Eilíft ósamkomulag

Mamma og stjúpi minn tóku saman fyrir fjórtán árum, ég var þá tólf ára. Ég bjó hjá þeim í þrjú ár en flutti svo heim til afa og ömmu og var hjá þeim þar til ég kláraði menntaskólann. Ástæða þess að ég kaus að flytja var einfaldlega þreyta á eilífu rifrildi inn á heimilinu. Mamma og stjúpi minn hafa ákaflega ólíkar skoðanir á hlutunum og geta bókstaflega ekki setið á sátts höfði. Ég hef oft velt fyrir mér af hverju þau hanga saman. Hann er mjög vanafastur og íhaldssamur í skoðunum. Mamma mín er hins vegar svolítill bóhem í sér og mikil hugsjónakona. Henni finnst ekkert mál að aðlaga sig að hverju sem er. Ég gat alltaf komið heim með gesti þegar mér sýndist og sjálfsagt að leggja einn disk í viðbót á borðið á matmálstímum. Þetta fannst stjúpa mínum mikil truflun. Vinkonur mömmu voru vanar að eiga innhlaup hjá henni hvenær sem er. Þær komu eða hringdu þegar þær vildu. Stjúpi hataði þetta og mörg þeirra rifrildi voru einmitt um hve frjálslega þær gengu um heimili þeirra.

 „Ég flutti heim og var í sárum í nokkra mánuði. Þegar ég var farin að jafna mig kynntist ég Halla. Við smullum saman og mér fannst ég hafa hitt sálufélagann.“

- Auglýsing -

Mamma var einfaldlega vön þessu að heiman frá sér. Amma á ótal vinkonur, úr nágrenninu, gamlar skólasystur og vinnufélaga. Þessar konur voru sumar daglegir gestir hjá ömmu og henni þótti óskaplega gaman að fá fólk í mat og kaffi. Amma bakaði mikið og eitt af hennar áhugamálum var matreiðsla. Ég man vel eftir öllum matarboðunum heima hjá henni og afa. Þau voru í spilaklúbb, amma í saumaklúbb, svo var ferðaklúbburinn, veiðifélagið hans afa og fleiri og fleiri. Allt þetta fólk þurfti að hittast og ráða ráðum sínum og oftast var það gert heima hjá afa og ömmu.

Þegar við mamma bjuggum þar bauð hún heim vinum sínum og þeir voru jafnvelkomnir og allir aðrir. Herbergið mitt var líka alltaf fullt af stelpum, enda fannst vinkonum mínum alltaf mesta fjörið heima hjá okkur. Þar var líka nóg að borða og sjálfsagt að allir fengju sér það sem þá langaði í. Stjúpa fannst þetta hroðalegt heimilishald og hann sagði oft að hann skildi ekki afa að geta búið í þessari umferðamiðstöð. Hann var alin upp við mikla formfestu. Heima hjá honum var ekki talað á matmálstímum. Húsbóndinn hlustaði á útvarpsfréttir og annað heimilisfólk borðaði þegjandi. Aldrei var tekið á móti gestum nema þeir hringdu á undan sér og krakkar fengu ekki að koma inn nema á vissum tímum og voru alltaf sendir heim áður en maturinn kom á borðið.

Framhjáhald aftur og aftur

- Auglýsing -

Eftir stúdentspróf ákvað ég að fara í háskólanám utanlands. Að hluta til var það vegna þess að mig langaði að flytja að heiman, standa á eigin fótum og vissi að það yrði erfiðara hér heima en úti. Það yrði svo auðvelt fyrir mig að hlaupa aftur heim til afa og ömmu ef eitthvað yrði mér erfitt. Ég fann skóla og flutti út. Það var frábær reynsla að svo mörgu leyti og ég lærði ótalmargt. Þar lenti ég hins vegar í fyrstu alvarlegu sorginni. Ég kynntist manni frá Suður-Ameríku og við urðum mjög ástfangin. Ég hélt að þarna væri komin ástin í lífi mínu en þarna lærði ég að ást er ekki nóg. Við vorum rosalega ólík og hann var algjörlega ófær um að skilja sum viðhorf mín. Hann þoldi illa sjálfstæði mitt, enda alinn upp í landi þar sem konur standa mun verr að vígi hvað jafnrétti varðar en hér. Hann hafði líka gengið í gegnum ýmislegt vegna pólitískrar spillingar í heimalandinu. Pabbi hans var handtekinn og settur í fangelsi fyrir að láta í ljós skoðanir sem ekki voru þóknanlegar yfirvöldum. Þar dó hann. Kærasti minn taldi að hann hefði verið myrtur en það var aldrei sannað. Allt þetta hafði gert það að verkum að hann átti í margvíslegum andlegum erfiðleikum sem brutust út í miklum skapsveiflum og stundum ofsaköstum.

Ég reyndi í tæp þrjú ár að lifa með þessu og hjálpa honum en gafst upp að lokum. Þá hafði ég áttað mig á að enginn getur lifað lífi sínu fyrir annan og gefið allt upp á bátinn til að halda honum góðum. Ég flutti heim og var í sárum í nokkra mánuði. Þegar ég var farin að jafna mig kynntist ég Halla. Við smullum saman og mér fannst ég hafa hitt sálufélagann. Mikið var ég fegin eftir fyrri reynslu mína að vera með einhverjum sem virtist nánast vita hvað ég væri að hugsa áður en ég hafði orðað það. Þetta var dásamlegur tími þessir fyrstu ár okkar Halla.

„En ég veit hins vegar núna að ef svo er var amma ekki fyrsta val afa og ef þau hafa verið skrifuð síðar að hann kynntist annarri eldheitri ást í lífinu.“

Við eignuðumst son og tveimur árum seinna annað barn. Allt gekk vel. Bæði vorum við í góðri vinnu og höfðum náð að kaupa okkur fallega íbúð. Það var þess vegna rosalegt áfall þegar ung kona hafði samband við mig og sagði mér að hún hefði átt í ástarsambandi við Halla í nokkra mánuði. Ég gersamlega hrundi og þegar hann kom heim skömmu eftir símtalið sat ég á gólfinu, titrandi og grét. Hann neitaði hins vegar að sambandið hefði verið svona alvarlegt og sagði hana ljúga helmingnum af því sem hún hafði sagt. Þetta hefði verið algjör mistök af hans hálfu í eitt skipti og hann reynt að losna við hana síðan en hún ofsótt hann. Ég var svo brotin að ég var trúði þessu, vildi trúa því og við héldum áfram eins og áður. Eitthvað hafði samt brotnað og ég var tortryggnari en áður. Þess vegna sá ég fljótt merkin þegar Halli var aftur farinn að halda framhjá. Í það sinn fylgdist ég vel með og bar þetta upp á hann og aftur var neitað. Til að gera langa sögu stutta þá endurtók þetta sig þrisvar næstu þrjú ár og í fyrra gafst ég upp og skildi við Halla.

Hlýja og virðing

Ég hef stundum velt fyrir mér hvort afi og amma hafi verið ómögulegar fyrirmyndir fyrir okkur afkomendur þeirra. Samband þeirra var svo gott og þar ríkti mikil hlýja og virðing. Við erum alltaf að reyna að ná þessu en tekst ekki. Að undanförnu hef ég hins vegar verið að velta fyrir hvort við höfum bara séð eitthvert yfirborð. Afi minn lést fyrir nokkrum mánuðum og amma flutti í minni íbúð í kjölfarið. Hún gaf okkur marga muni úr hans eigu og ég fékk skrifborðið hans. Það er eldgamalt var upphaflega í eigu afa hans. Til að koma því inn í herbergið í íbúðinni minni varð að taka það í sundur. Þá fannst leynihólf og í því nokkur bréf. Þau reyndust vera frá Kristínu til afa og augljóst að þau voru ástfangin. Bréfin eru ekki dagsett og ég veit ekki hvort þau eru skrifuð áður en afi og amma kynntust, ég vona það. En ég veit hins vegar núna að ef svo er var amma ekki fyrsta val afa og ef þau hafa verið skrifuð síðar að hann kynntist annarri eldheitri ást í lífinu. Ég hef engum þorað að segja frá þessu, bara geymt það með mér því ég vil ekki eyðileggja ímyndina af hinu fallega hjónabandi afa og ömmu.

Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur í Vikunni. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -