2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Líður best í einföldum, látlausum fötum

  Margrét Elíasdóttir starfar sem sérhæfður ritari hjá KSÍ og hefur farið á öll stórmótin með karla- og kvennalandsliðunum.

  Hún stofnaði hlaupahópinn KR-skokk 2012 ásamt þremur öðrum og hefur verið þjálfari þar og hlaupið nokkur maraþon, bæði hér heima og erlendis. Hún segist kjósa þægindi fram yfir útlit nú í seinni tíð, þótt útlitið verði samt að vera í lagi líka.

  Margrét segir einfaldleika einkenna sinn stíl. „Mér líður hvorki vel í litríkum né skræpóttum fötum. Mér líður best í einföldum, látlausum fötum og eftir vinnu er ég alltaf komin í leggings og bol.“

  Hún segist helst versla í Boss. „Mér finnst Boss æðisleg; þar er alltaf hægt að finna góðar gallabuxur og jakka. Eins er ég hrifin af Scotch and Soda; ég á nokkra kjóla þaðan. Svo eru alltaf dásamlegir fylgihlutir í Farmers Market. Ég á það líka alveg til að ná mér í eitthvað í Vila og H&M. Ég hef ekki komist upp á lagið með að kaupa mér föt í netverslunum því ég verð að máta og koma við flíkina.“

  Margrét segist oftast falla fyrir jökkum. „Ég get alltaf fundið mér flotta jakka. Að mínu mati er blazer-jakki skyldueignin í fataskápinn og svartar, plein buxur. Það gengur við öll tækifæri. Annars finnst mér alltaf gaman að kaupa skó og eins finnst mér gaman að finna flotta kjóla. En leiðinlegast er að máta buxur því það er svo fúlt ef þær fara mann ekki.“

  AUGLÝSING


  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Nýjast í fataskápnum?

  „Svartir skór sem ég keypti í Gallerí Sautján og mig var búið að langa í lengi.“

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Uppáhaldsfylgihluturinn?

  „Hálsmenin mín frá Hildi Hafstein; ég er yfir mig hrifin af skartgripunum hennar. Fallegar gjafir frá eiginmanninum sem hann valdi sjálfur og sló alveg í gegn.“

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Uppáhaldsflíkin?

  „Hermannakjóllinn minn úr Boss sem er bæði flottur við hæla og strigaskó. Svo legg ég varla Farmers Market-klútana mína frá mér, þeir eru dásamlega fallegir og hlýir.“

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Furðulegustu kaupin?

  „Þau hafa verið fá og engin sérstaklega minnistæð. Ég keypti mér þó fyrir um tveimur árum síðan litríkan, röndóttan kjól í Álnavörubúðinni í Hveragerði; svolítið mikið úr mínum karakter, en ég hef samt notað hann og fengið jákvæð komment.“

   

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Mesta tilfinningalega gildið?

  „Líklega brúðarkjóllinn minn sem Berglind vinkona mín saumaði og við hönnuðum í sameiningu.“

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is