Lífið eftir dauða ástvinar

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ricky Gervais er þekktur fyrir þáttaraðirnar um The Office. Þar fór hann á kostum og ótalmargir minnast enn þessara þátta sem einna bestu gamanþátta allra tíma. Fyrir ári komu svo úr smiðju hans After Life, dramatískir þættir í léttum dúr þar sem hann skrifar handritið, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið. Þetta eru einstaklega mannlegir og fallegir þættir og fólk sem nýtur þess að tengjast persónum í sjónvarpsþáttum, finnur til með þeim og óskar þeim alls hins besta ættu að kíkja á þá.

Í ár var sýnd ný sería um Tony Johnson. Hann missti konu sína, Lisu, úr brjóstakrabba og syrgir hana einlægt og djúpt. Hjónabandið var einstaklega gott og Tony hefur misst alla lífslöngun. Ef ekki kæmi til tíkin hans, Brandy, hefði hann líklega drepið sig. Hann pínir sig til að vinna, borða og í raun tóra fremur en lifa. Hann finnur einhverja fróun í að vera andstyggilegur við aðra, segja nákvæmlega það sem honum býr í brjósti og hlífa ekki á nokkurn hátt tilfinningum annarra. Smátt og smátt fara þó augu Tonys að opnast fyrir því að fólk hefur ýmsa kosti og að hann hafi hugsanlega engan rétt til að dæma og sýna hroka.

„Sá sem er þunglyndur og sorgmæddur sér oft ekki það sem er beint fyrir framan nefið á honum. Reiðin kraumar einnig undir niðri hjá honum yfir þeirri ósanngirni að hafa verið sviptur dásamlegri ungri manneskju.“

Þarna er mikið um skemmtilega orðaleiki og Tony er bráðfyndinn náungi. Að auki er þetta góð lýsing á eigingirni og sjálfhverfu sorgarinnar. Sá sem er þunglyndur og sorgmæddur sér oft ekki það sem er beint fyrir framan nefið á honum. Reiðin kraumar einnig undir niðri hjá honum yfir þeirri ósanngirni að hafa verið sviptur dásamlegri ungri manneskju. Hann er í raun að hefna sín á heiminum þótt hann viti að fólkið í kringum sig eigi sannarlega enga sök á dauða konu hans. Helst finnur hann fróun í því að horfa á myndbönd sem Lisa gerði handa honum áður en hún dó. Þar sendir hún honum uppörvandi og falleg skilaboð, hvetur hann til að lifa áfram og leyfa góðum kostum hans að njóta sín.

Líknandi máttur vináttu

En Tony er ekki tilbúinn til þess. Að hans mati er auðveldara að deyja en lifa áfram við þennan látlausa sársauka. Líkt og Lisa segir í myndbandi þá er hann góð manneskja og gæðafólk dregur að sér sína líka og nær að skapa vináttu. Vinirnir eru hins vegar margvíslegir og flestir mjög sérsakir. Persónugallerí þessara þátta er í raun einstaklega skrautlegt. Allt frá uppburðarlitum mágs Tonys og ritstjóra bæjarblaðsins þar sem Tony vinnur til hins ömurlega sjálfsupptekna sálfræðings sem þeir eru báðir hjá. Auk þeirra eru þarna vændiskonan með gullhjartað, eiturlyfjafíkillinn sem misst hefur kærustu sína, póstburðarmaðurinn, hinn heilabilaði pabbi Tonys, hjúkrunarkonan hans og ekkjan vitra í kirkjugarðinum. Svo eru það viðtalsefni bæjarblaðsins, ekki beinlínis stórkostleg skúbb eða tímamótasögur.

Báðar seríurnar eru á Netflix en sú efnisveita framleiddi þær. Allir sem hafa gaman af góðu drama, léttleika og vongleði geta notið þess að horfa og láta hrífast með þessum fallegu þáttum.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Lilja Ósk nýr formaður SÍK

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Pegasus var á fimmtudag kjörin formaður stjórnar Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda,...