Lífið eftir dauðann

Deila

- Auglýsing -

Leiðari úr 21. tölublaði Vikunnar

Missir ástvinar er alltaf sár. Tómleikinn er yfirþyrmandi og smátt og smátt síast inn meðvitundin um hversu endanlegur dauðinn er. Aldrei aftur muntu heyra, sjá eða snerta þennan dásamlega einstakling sem skipti þig svo miklu. Einmitt vegna þess er svo ánægjulegt að sjá fólk rækta minningar um hina látnu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Harpa Stefánsdóttir segir einmitt í forsíðuviðtalinu að þessu sinni að þótt menn trúi ekki á líf eftir dauðann sé hægt að öðlast framhaldslíf í minningum og gjörðum þeirra sem eftir lifa. Þetta er alveg rétt. Margir hlaupa í nafni einhvers nákomins sem kvatt hefur þessa jörð og safna fé til góðgerðamála, sumir stofna minningarsjóði og styrkja aðra til uppbyggingar og enn aðrir samtök eða félög sem vinna að framfaramálum í samfélaginu. Allt er þetta jafngott. Harpa hefur hins vegar kosið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að hvetja fólk til að borða frekar mat úr jurtaríkinu og forðast matarsóun. Hún missti systur sína ung en þær áttu það sameiginlegt að vera miklir dýravinir. Þess vegna veit Harpa að það væri henni að skapi. Nýlega missti hún svo einnig uppeldisföður sinn en vegna þess hve duglegur hann var að fanga minningar á filmu getur hún notið þess að sjá þau bæði á skjánum og á myndum. Það er ómetanlegt.

Margir tala einmitt um að þeir hafi átt erfitt með að losa sig við eigur ástvina eftir að þeir kvöddu. Allt vegna þess að þarna var hluti af þeim. Okkar stafræni heimur gefur færi á að halda í þetta án þess að það fylli skápa og kistur. Það er dásamlegt að fá þannig tækifæri til að endurlifa liðnar stundir. Ég hef oft heyrt fólk tala um að það sjái mikið eftir að hafa ekki tekið sögur afa og ömmu upp á segulband eða hlustað betur á pabba og mömmu þegar þau töluðu um æsku sína og ævi. Nú er svo auðvelt að gera einmitt þetta.

Ég hef oft orðið djúpt snortin af ljóðum, skáldsögum og ævisögum fólks og fundist eins og persónan rísi ljóslifandi upp af blöðunum og komi við sál mína með orðum sínum og gjörðum. Í sumum tilfellum skilja aldir okkur að. Þetta er auðvitað ástæða þess að menn segja að listin sé eilíf. En það er á ábyrgð þeirra sem eftir lifa að tryggja sínum framhaldslíf. Með því að segja sögur af þeim, varðveita verk þeirra eða iðka eitthvað gott í þeirra nafni. Það er verðmætur arfur.

„Harpa hefur hins vegar kosið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að hvetja fólk til að borða frekar mat úr jurtaríkinu og forðast matarsóun. Hún missti systur sína ung en þær áttu það sameiginlegt að vera miklir dýravinir.“

Sjá einnig: Fjarstæða að litla systir gæti dáið

- Advertisement -

Athugasemdir