2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Lífið er allt of stutt og dýrmætt til að hræðast alla skapaða hluti“

  Díana Júlíusdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir ljósmyndir sínar og hlotið fjölda verðlauna þrátt fyrir stuttan starfsaldur í faginu. Hún er náttúrubarn og fékk fjallgöngubakteríuna fyrir sjö árum, ári eftir að hún skildi við mann sinn en þau tóku ákvörðun um að vanda sig við skilnaðinn, barnanna vegna. Díana kýs fremur að ferðast en að kaupa hurðir í húsið sitt og segir lífið of dýrmætt til að velta sér upp úr leiðindum.

  Þessi magnaða kona útskrifaðist sem ljósmyndari frá Ljósmyndaskóla Íslands árið 2018. Hún hefur tekið þátt í ljósmyndahátíðum í Bandaríkjunum og Evrópu og segir það mikla viðurkenningu sem hvetji sig til að halda ótrauð áfram í ljósmynduninni. Díana er með BS-gráðu í ferðamálafræði og hefur starfað sem flugfreyja í rúm tuttugu ár. Árið 2011 ákvað hún að láta gamlan draum rætast og fara að læra ljósmyndun.

  „Þegar ég byrjaði í ljósmyndanáminu árið 2011 hélt ég að ég ætti bara eftir að taka myndir af börnum af því að ég tók svo mikið af myndum af börnunum mínum,“ segir Díana og hlær. „En því fer fjarri að ég sérhæfi mig í barnamyndatökum. Þótt ég kunni vel að taka myndir af börnum og finnist það mjög gaman, þá tek ég frekar myndir sem eru heimildir og segja sögur. Mér finnst gaman að taka myndir af fólki og landslagi og tengja þetta tvennt saman.“

   Lærir af mistökunum

  Díana segist alltaf hafa verið mikið náttúrubarn en árið 2012 fékk hún fjallgöngubakteríuna að eigin sögn. „Í janúar það ár spurði vinkona mín hvort ég væri til í að koma með henni í hópinn 52 fjöll hjá Ferðafélagi Íslands. Markmiðið var að ganga á eitt fjall á viku í heilt ár. Ég sagði við sjálfa mig að ég myndi aldrei ná því markmiði en það merkilega er, að þótt ég hafi ekki náð að ganga á öll 52 fjöllin náði ég þó að ganga á ansi mörg þeirra. Og þarna kynntist ég manneskju sem bjó innra með mér en hafði greinilega verið í löngum dvala. Mér leið rosalega vel í gönguferðunum og naut þess að horfa á fjöll og landslag.“

  AUGLÝSING


  Hún segist alltaf hafa tekið myndavélina með í fjallgöngurnar. „Ég tók reyndar skelfilega ljótar myndir í byrjun. Þær voru bara alveg hræðilegar. Í einum áfanganum í Ljósmyndaskólanum áttum við að sýna myndir sem við höfðum tekið og segja frá þeim. Ég ákvað að nota myndir sem ég hafði tekið í einni fjallgöngunni og allir biðu spenntir eftir því að sjá þær en ég held að fólk hafi bara fengið áfall. Þetta var svo agalega slæmt,“ segir Díana og skellihlær að minningunni. „Ég sem hélt að þetta væri svo flott hjá mér. En ég átti nú sem betur fer eftir að verða betri.“

  Díana gafst ekki upp og hélt áfram að æfa sig í myndatökunum. „Það fæðist enginn fullskapaður listamaður. Maður þarf að æfa sig og leggja á sig mikla vinnu. Þannig nær maður lengra og þroskast. Ég er búin að gera fullt af mistökum,“ segir Díana með áherslu, „sem betur fer segi ég samt, því ég er búin að læra af þeim öllum. Og það er svo merkilegt að manni finnst kannski ekkert ganga upp en svo allt í einu smellur allt. Ég tók mér reyndar nokkurra ára hlé frá náminu en verkefnin héldu áfram að koma til mín og ég ákvað að byrja aftur í skólanum þegar ég fann að ég var tilbúin til að halda áfram.“

   Sýningar hérlendis og erlendis

  Díana hefur haft í nógu að snúast sem ljósmyndari. Hún segist mikið vinna að sínum eigin verkefnum en þó ekki einungis. „Undanfarin ár hef ég tekið að mér portrett-myndatökur og fermingar- og brúðkaupsmyndatökur. Við Óli, sambýlismaður minn, vinnum mikið saman við brúðkaupsmyndatökurnar en hann er líka ljósmyndari. Þá hefur hann jafnvel fylgt brúðgumanum eftir í undirbúningnum og ég brúðinni. Það eru rosalega skemmtileg verkefni. Núna er ég að vinna að verkefni út frá myndum sem ég tók í Bangladess á síðasta ári. Ég vinn mikið í langtímaverkefnum sem ég kem að aftur og aftur. Síðastliðin tvö ár hef ég svo verið að mynda foreldra langveiks barns og ætlunin er að birta þau verk opinberlega í haust.“

  Díana hefur vakið mikla athygli fyrir ljósmyndir sínar.

  Díana hefur haldið sjö sýningar hér heima. „Fyrsta sýningin sem ég tók þátt í var á Ljósmyndasafni Reykjavíkur árið 2013 þar sem mér, ásamt ellefu öðrum ungum samtíma-landslagsljósmyndurum, var boðið að sýna nokkur verk á sýningunni Samtímalandslagið. Sú sýning gekk mjög vel og var upphafið að mínum ljósmyndaferli. Ég hef einnig sýnt í Ramskram-sýningarrýminu í Reykjavík sem er alveg magnað gallerí og eitt af fáum sem sýna eingöngu ljósmyndir. Ég ber mikla virðingu fyrir því. Mér finnst mjög gaman að fá að sýna hérna heima og gaman að sjá að aukin áhersla er lögð á góða ljósmyndun og það er mikill metnaður fyrir henni.“

  Á síðasta ári tók Díana þátt í ljósmyndahátíðinni San Francisco Bay International Photo Show í San Francisco og 5th Biennial of Fine Art & Documentary Photography í Barcelona en báðar hátíðirnar eru mikils virtar. Þar sýndi hún ljósmyndir sem hún tók af fjölskyldunni við Galtavita. „Þarna voru margir stórkostlegir ljósmyndarar að sýna verk sín og það var mikill heiður fyrir mig að vera boðið að taka þátt. Ég er full þakklætis fyrir að fá svona tækifæri.“

  Díana segir að Óli, sambýlismaður hennar, hafi sent mynd eftir hana í alþjóðlega ljósmyndasamkeppni og þá hafi boltinn byrjað að rúlla. „Ég hef fengið Julia Margaret Cameron-verðlaunin sem eru alþjóðleg, þrjú ár í röð, Pollux-verðlaunin tvö ár í röð og svo hef ég unnið til gull- og silfurverðlauna í San Francisco Bay Internatonal Photo Show. Eftir það var mér boðið að taka þátt í samsýningum erlendis svo þetta hefur opnað margar spennandi dyr.“

   Uppgjör á fyrra lífi

  Sem fyrr segir fékk Díana fjallgöngubakteríuna árið 2012 og þegar hún hafði gengið á um það bil tuttugu fjöll var komið að því að ganga á hæsta fjall Íslands, Hvannadalshnúk. „Það var stór áskorun. Ég vissi ekkert hvort ég myndi komast alla leið á toppinn en ég var ákveðin í að gefast alla vega ekki upp á miðri leið. Hópurinn minn komst þó því miður ekki alla leið upp þar sem aðstæður höfðu versnað og því var ákveðið að snúa við. Það vantaði grátlega lítið upp á, bara um það bil áttatíu  metra, en náttúruöflin eru óútreiknanleg. Við fengum alls konar veður og þetta reyndi talsvert á, enda er leiðin upp á Hnúkinn lengsta dagleið sem vitað er um í óbyggðaferðum í Evrópu. Þessi ganga var því mikill sigur fyrir mig persónulega.“

  Díana segir það ekki hafa verið auðvelt að ganga á Hnúkinn með 25 kílóa bakpoka og tvær myndavélar um hálsinn en það hafi verið þess virði. „Kannski hafa einhverjir sem voru með mér í línu verið pirraðir yfir því hvað ég bað oft um að stoppa til að taka myndir,“ segir hún og skellir upp úr. „En Hvannadalshnúkur breytti lífi mínu og það má segja að myndirnar sem ég tók af honum í þessari ferð séu upphafið að mínum ljósmyndaraferli. Þær komu út í bók sem heitir Hnúkurinn og ég gaf út í fyrra.“

  Í bókinni eru 25 ljósmyndir, allar teknar í ferðinni á Hvannadalshnúk, með prósum Sigmundar Ernis Rúnarssonar. „Það má segja að bókin Hnúkurinn sé fortíð mín, nútíð og framtíð. Hún er eiginlega uppgjör á mínu fyrra lífi. Myndirnar bera allar með sér tilfinningar og lýsa aðstæðum en mér finnst gaman að fólk túlki þær á sinn hátt.“

  Myndin Engillinn er ein mynda Díönu sem prýða bókina Hnúkurinn.

  „Skrýtið þetta líf,“ segir Díana hugsi og fær sér sopa af kaffinu. „Þegar ég byrjaði í Ljósmyndaskólanum var ég ekki að hugsa um fjallgöngur, landslag og fjöll sem myndefni. Upphaflega ætlaði ég að vinna lokaverkefni um vinkonu mína sem hafði greinst með illkynja krabbamein og fylgja henni í gegnum krabbameinsmeðferðina. En svo breyttist það og þá ákvað ég að fara að taka myndir af fjöllum eftir hvatningu frá bekkjarfélögum mínum.“

  Vinkona Díönu, Helga Hafsteinsdóttir, lést eftir harða baráttu við krabbamein í febrúar 2015.

  „Ég lærði mjög mikið af henni. Til dæmis að lifa lífinu lifandi og að láta drauma mína rætast.“

  „Hún var bara 41 árs þegar hún dó og hún var svo ótrúlega dugleg í sínum veikindum. Ég lærði mjög mikið af henni. Til dæmis að lifa lífinu lifandi og að láta drauma mína rætast. Það er ómetanlegt að vera heilsuhraustur og fá að fagna nýjum degi. Mér finnst gaman að eldast og þykir vænt um hverja hrukku. Það eru forréttindi að eldast.“

   Með jákvæðnina að vopni

  Árið 2011 var Díana gift, þriggja barna móðir í Reykjavík þegar hún og þáverandi eiginmaður hennar, Páll, tóku þá ákvörðun að skilja. Hún segir að þrátt fyrir allt hafi skilnaðurinn gengið vel og þau hafi verið ákveðin í að vanda sig, barnanna vegna. „Við vorum búin að vera saman í nítján ár og auðvitað er skrýtið að skilja við manneskju eftir svona langan tíma. Þetta var eitthvað sem við vildum bæði. Við gerðum okkur grein fyrir því að við vorum ólík og þráðum ekki sömu hluti. Báðir aðilar þurfa að vera glaðir og fá að njóta sín. Frelsið er svo dýrmætt og ég þakka Páli fyrir að hafa veitt mér frelsi. En að því sögðu þá er skilnaður alltaf erfiður og þetta tók líka heilmikið á.“

  „Frelsið er svo dýrmætt og ég þakka Páli fyrir að hafa veitt mér frelsi.“

  Díana segir að það hefði vel verið hægt að falla í þá gryfju að vera bitur og reið eftir skilnaðinn en hún hafi verið ákveðin í að detta ekki þá gryfju. „Ég held að það hafi hjálpað mér mikið að hugsa að ég yrði að vera í lagi barnanna vegna. Ég sagði við sjálfa mig að ef ég væri í ólagi, þá yrðu börnin í ólagi.“ Díana leitaði meðal annars til sálfræðings og heilara sem hún segir að hafi hjálpað sér mikið.

  „Sigrún Inga Birgisdóttir heilari er engill í mannsmynd sem ég á mikið að þakka og hún hjálpaði mér rosalega mikið að takast á við áfallið að ganga í gegnum skilnað. Ég held líka að hún eigi sinn hlut í því hvað mér hefur gengið vel í mínu starfi. Hjálp fagfólks er mikilvæg til að maður geti haldið lífinu áfram á jákvæðan og uppbyggilegan hátt því þannig verður lífið einfaldara og áreynslulausara. Með jákvæðni dregur maður jákvætt fólk að sér og lífið verður miklu skemmtilegra. Sálfræðingur og heilari gera ekki það sama en báðir geta hjálpað fólki að takast á við erfiðleika sem það lendir í. Það fer enginn í gegnum lífið áfallalaust og það er gott að geta leitað sér aðstoðar, eins og ég gerði. Fólk finnur hvað hentar og það er engin ein rétt lausn. Lífið er bara of dýrmætt til að velta sér upp úr leiðindum. Mér finnst nauðsynlegt að fólk muni eftir því að njóta og vera þar sem hjartað slær.“

  Það er greinilegt að heyra á Díönu að samband þeirra Páls er gott og þau eru samstiga í uppeldi barnanna þótt þau búi ekki saman. Páll býr og starfar á Englandi tvær vikur í mánuði en hinar tvær á Íslandi. Þá kemur hann heim til að vera með börnin aðra hvora viku. „Páll sinnir börnunum mjög vel,“ segir Díana, „og stendur alltaf við sín orð. Okkur finnst mikilvægt að standa saman í því að styðja börnin, til dæmis í námi og tómstundum og ef eitthvað þarf að ræða, til dæmis þegar við förum í frí með krakkana, þá gerum við það. Auðvitað er flókið fyrir börn að eiga tvö heimili en börnin mín eiga tvö góð heimili. Og yndislegan pabba. Og eru svo heppin að eiga líka yndislegan stjúpföður.“

   Áreynslulaust samband

  Díana er í sambúð með Ólafi Jónassyni, leikmyndahönnuði og ljósmyndara. Díana brosir breitt þegar blaðamaður spyr hvort það hafi verið ást við fyrstu sýn þegar þau hittust af tilviljun haustið 2012.

  „Ég varð strax alveg brjálæðislega skotin í honum. Augun og brosið hans heilluðu mig um leið og ég sá hann fyrst. Hann er ein fallegasta manneskja sem ég hef kynnst og þá er ég ekki bara að tala um hvað mér finnst hann sætur,“ segir Díana og hlær, „heldur er hann svo góð manneskja. Og þegar við fórum að tala saman þá leið mér eins og við hefðum alltaf þekkst. Við erum mjög lík og eigum margt sameiginlegt. Hann er líka listamaður og skilur listina svo vel. Þetta er mjög áreynslulaust samband. Við erum með líka sýn á lífið og tilveruna og auðvitað hefur listin líka tengt okkur saman. Það er ómetanlegt fyrir mig sem listamann að eiga maka sem skilur mig fullkomlega og þegar mér hættir til að brjóta mig niður ef eitthvað gengur ekki nógu vel, er hann duglegur að hvetja mig áfram.“

  Þessi mynd af Óla og börnum Díönu er úr ljósmyndaseríunni Tímaleysi.

  Og það er greinilegt á Díönu að þau Óli eru staðráðin í að njóta lífsins. Síðustu árin hafa þau nýtt frítíma sinn í að ferðast, bæði innanlands og utan. „Einn dásamlegasti staður á jarðríki er Galtaviti, sem er á milli Skálavíkur og Suðureyri við Súgandafjörð. Vitinn er í einkaeigu Óla og nokkurra vina hans og við förum þangað á hverju sumri. Þetta er auðvitað ekki í alfaraleið svo þarna eru engir ferðamenn og kyrrðin er algjör.“ Sigla þarf með báti frá Suðureyri en oft er ekki hægt að sigla vegna veðurs og þá hafa þau gengið frá Skálavík sem tekur um fjóra klukkutíma.

  „Börnin mín eru hörkutól,“ segir Díana og brosir. „Þarna er ekkert síma- eða netsamband svo við njótum þess bara að vera saman. Við pössum okkur á því að láta alltaf vita þegar við förum vestur og hvenær er von á okkur aftur. Annars er hægt að ná símasambandi uppi á fjalli.“ Díana segist ekkert hrædd við sambandsleysið og einangrunina. „Þetta er bara dásamlegt í alla staði. Þarna slær hjarta mitt. Og við Galtavita tók ég einmitt myndir sem urðu að lokaverkefni mínu við Ljósmyndaskólann.“

  Ferðalög í stað hurða

  Árið 2015 stóð til að Díana og Óli keyptu nýjar hurðir á eldhúsinnréttinguna í íbúðinni þeirra sem þau hafa verið að taka í gegn síðustu ár. Díana segist hafa ákveðið að athuga að gamni sínu hvað það myndi kosta þau að fara með börnin í frí til Taílands. „Og það kostaði jafnmikið og tilboðið frá innréttingafyrirtækinu hljóðaði upp á. Svo ég hringdi í Óla og sagði honum að hurðirnar yrðu bara að bíða.“

  Nokkrum mánuðum seinna flaug fjölskyldan á vit ævintýranna í Taílandi. „Ég held að við eigum aldrei eftir að kaupa þessar skápahurðir því okkur finnst svo gaman að ferðast,“ segir Díana og skellir upp úr.

  Hún bætir við að þau Óli hafi ákveðið að nýta efni úr skápum frá árinu 1964 sem voru í svefnherbergjunum í íbúðinni og búa til hurðir á eldhúsinnréttinguna úr þeim. Blaðamaður hefur á orði að þau Díana og Óli eigi afar fallegt heimili þar sem gömlu og nýju er blandað saman á smekklegan hátt. „Óli er rosalega handlaginn og hefur gert mikið sjálfur,“ segir Díana. „Okkur finnst gaman að geta nýtt gamla hluti; það þarf ekki alltaf að henda og kaupa nýtt.“

  Díana segir að fríið í Taílandi hafi verið dásamlegt og mikil upplifun. „Það var líka svo gaman að dóttir Óla sem býr og starfar í London, gat farið með okkur. En svona ferðalög eru svo þroskandi fyrir börnin. Þau hafa fengið að upplifa svo ótrúlega margt á þessum ferðalögum og hafa þroskast mikið. Ég segi alltaf að það er mikill lærdómur fólginn í því að ferðast og svo er þetta ómetanleg samvera og margar minningar sem við búum til.“

  Í fyrra fór fjölskyldan í frí til Mexíkó og nú er verið að safna fyrir ferð til Suður-Afríku. Við Óli sækjum svolítið í þriðja heiminn og höfum oft verið spurð að því hvort við séum ekki hrædd við að fara með börnin á þessar slóðir. Auðvitað eru margir staðir hættulegir en ég er viss um að það getur alveg verið hættulegt að fara niður í miðbæ Reykjavíkur ef maður fer ekki varlega. Við erum varkár, erum búin að undirbúa okkur vel og kynna okkur aðstæður á áfangastöðunum áður en við förum af stað. Mér finnst svo mikið um að það sé alltaf verið að reyna að hræða mann eitthvað. Lífið er allt of stutt og dýrmætt til að hræðast alla skapaða hluti.“

   „Það gengi aldrei upp fyrir mig sem ljósmyndara að vera alltaf hrædd.“

  Hún segist vilja kenna börnunum sínum að vera óttalaus og óhrædd við að prófa nýja hluti. „Ég segi þeim auðvitað að vera varkár en vera líka opin fyrir nýjum hugmyndum og aðstæðum. Kynnast þessu óþekkta því hið óþekkta getur verið eitthvað magnað. Ef maður er alltaf hræddur þá staðnar maður bara og þroskast ekki. Og það gengi aldrei upp fyrir mig sem ljósmyndara að vera alltaf hrædd. Ég gæti aldrei tekið sterkar ljósmyndir ef ég hræðist það sem ég er að fara að mynda. En auðvitað fer ég varlega.“

  Eyjan of lítil

  Díana hefur starfað sem flugfreyja hjá Icelandair frá árinu 2001. Hún segir að það henti mjög vel með ljósmyndarastarfinu en hún þurfi að skipuleggja sig vel. Hún hlær þegar blaðamaður spyr hvort hún vilji helst vera á ferð og flugi.

  „Já, ég held bara að þessi eyja sé of lítil fyrir mig. Kannski er það þess vegna sem ég er flugfreyja. Ég þarf reglulega að komast eitthvað burt. Það er mjög gott húsmæðraleyfi þegar flugfreyjan fer í næturstopp erlendis. Ég nýti tímann vel til að hlaða batteríin. Þótt ég eigi þessi yndislegu börn sem ég elska út af lífinu, þá finnst mér gott að fá smátíma alveg fyrir mig. Annars þykir mér ofboðslega vænt um flugfreyjustarfið og þykir mjög gaman í því. Það er alltaf gaman að mæta í vinnuna og hópur samstarfsfélaganna er ótrúlega fjölbreyttur og bara alveg frábær.“

  Í nóvember síðastliðnum fór Díana á ljósmyndaranámskeið í Bangladess og dvaldi þar í þrjár vikur. „Það var mikil gæfa fyrir mig að fá tækifæri til að mynda þarna og ég lærði heldur betur sitthvað um auðmýkt.“

  Hún segir að vissulega hafi verið ákveðið menningarsjokk að koma til Bangladess en þó hafi hún fengið meira sjokk þegar hún kom aftur heim til Íslands.

  „Íslendingar eru til dæmis óðir þegar kemur að því að versla. Auðvitað þarf maður að eiga föt og þak yfir höfuðið. En við þurfum ekki svo mikið. Svo fer óskaplega í taugarnar á mér að heyra fólk tala um að það hafi verið að kaupa sér til dæmis einhverja flík sem kostaði rosalega lítið. Fólk er svo ánægt með að vera að græða en áttar sig ekki á því að það er alls ekki að græða þegar öllu er á botninn hvolft. Ódýrari flík endist ekki lengi svo þú þarft bara að kaupa þér fleiri flíkur og oftar. Þannig að sparnaðurinn fer fyrir lítið.“

  Mynd sem Díana tók í Bangladess á síðasta ári.

  Díana segir að ferðin til Bangladess hafi breytt sér. „Annað er ekki hægt. Íbúar Bangladess eru gott fólk, áhugasamir um aðra, mjög duglegir og ofboðslega duglegir í vinnu. En stéttaskiptingin er mikil og lágstéttarfólk fær ekki mikið borgað fyrir vinnu sína. Og af því að foreldrarnir fá svo lág laun neyðast börnin til að vinna. Þarna er skólaskylda fyrir öll börn á aldrinum sex til tíu ára en því miður fá fæst þeirra tækifæri til að ganga menntaveginn þar sem foreldrarnir senda börnin í vinnu frá unga aldri. Ég var til dæmis að mynda börn þarna úti, allt niður í fimm ára, sem vinna allan daginn í verksmiðjum. Ef laun foreldranna væru hærri þá þyrftu börnin ekki að vinna.

   „Ég var til dæmis að mynda börn þarna úti, allt niður í fimm ára, sem vinna allan daginn í verksmiðjum.“

  En Vesturlönd og verslunarrisarnir vilja viðhalda þessu ástandi til að halda áfram að græða. Ég veit að ég er ekki að fara að breyta heiminum en ég get breytt mér og vonandi næ ég að hafa áhrif með myndunum mínum. Ég vil segja sögu með þeim og sýna fólki hvernig hlutirnir eru. Mér finnst óþolandi, og í raun mikill vanþroski, þegar fólk vill bara loka augunum fyrir því og láta eins og það sé enginn vandi til staðar. Þetta kemur okkur öllum við. Breytingarnar byrja hjá okkur sjálfum. Og ég er að gera mitt til að hafa áhrif. Mér finnst tilgangur með því sem ég er að gera. Þótt ég nái ekki nema til einnar manneskju þá finnst mér ég búin að gera gagn. Oft er ég að mynda við erfiðar aðstæður en þess vegna er ég ljósmyndari. Til að festa augnablikið á mynd. Af því að augnablikið kemur aldrei aftur en myndirnar lifa.“

  Myndir af Díönu / Aldís Pálsdóttir
  Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir
  Föt / Huginn Muninn og DisDis

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is