Lífið er langhlaup

Deila

- Auglýsing -

Leiðari úr nýjustu Vikunni. 

Þolinmæði þrautir vinnur allar segir máltækið og víst þurfum við öll að læra að bíða. En þrautseigja og þolgæði eru ekki síðri bandamenn þegar kemur að því að sigrast á öllum þeim hindrunum sem verða á vegi okkar. Það er nefnilega svo að fæstar hrynja þær þegar ráðist er til atlögu með offorsi heldur er vænlegra til árangurs að vinna stöðugt og jafnt að því að fjarlægja þær. María Thelma Smáradóttir er lesblind. Hún átti ákaflega erfitt með að læra texta utanbókar en valdi sér engu að síður leiklistina að ævistarfi. Sumir myndu segja að til þyrfti talsverðan kjark. En hann hefur þessi unga kona í ríkum mæli. Allt frá barnæsku hefur hún þurft að hafa fyrir hlutunum. Skólanám var henni erfitt og hún var lengi að lesa. Þrautseigja hennar og vilji til að standa sig skilaði henni áfram og kannski er það þess vegna að lesblindan var ekki greind fyrr en hún var komin á fullorðinsár. Og þó, jafnútbreiddur og þekktur vandi og lesblinda er virðist hún eigi að síður fara ótrúlega oft fram hjá kennurum og öðrum starfsmönnum menntakerfisins. Margt er hægt að gera til að hjálpa þeim sem glíma við námsörðugleika af þessu tagi ef menn vita að þeir eru til staðar. Í það minnsta kemur greiningin í veg fyrir að einstaklingar vaxi upp fullvissir um að þeir séu síðri en aðrir, heimskir og ómögulegir vegna þess að þeir ráða ekki við það sem reynist öðrum auðvelt.

 „Auðvitað eru til börn, eins og María Thelma, iðin, samviskusöm og umfram allt ákveðin í að komast þangað sem þau ætla sér.“

Auðvitað eru til börn, eins og María Thelma, iðin, samviskusöm og umfram allt ákveðin í að komast þangað sem þau ætla sér. Ég er sannfærð um að ein af ástæðum þess að henni tókst að ná markmiðum sínum er að móðir hennar er búddatrúar og stundaði hugleiðslu. Þegar barninu leið illa settist móðirin með það og kenndi því að kyrra hugann, leita inn á við og finna styrk í eigin sjálfi. Í dag er María Thelma í greiningu til að kanna hvort hún sé með athyglisbrest. Henni finnst ekki fyllilega eðlilegt hversu oft hún er utan við sig og gleymin. Niðurstaðan er ekki komin en eftir að hún uppgötvaði lesblinduna veit hún að til þess að takast á við hlutina er gott að vita að þeir eru til staðar og þekkja eðli þeirra. Verði niðurstaðan sú að María Thelma glími einnig við athyglisbrest tel ég að hugleiðslan hafi sömuleiðis hjálpað hvað hann varðaði. Það líður varla sá dagur að við hér á Íslandi kvörtum ekki undan hraðanum og stressinu í samfélaginu en gerum samt lítið til að hægja á. Lífið er langhlaup, ekki látlaus sprettur. Þess vegna mættu fleiri velta fyrir sér kostum þess að gefa sér kyrrðarstund á hverjum degi.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

- Advertisement -

Athugasemdir