Lifir í voninni að finna klassíska Burberry-kápu í Rauða krossinum

Deila

- Auglýsing -

Uppáhaldsflík Jóhönnu Stefáns Bjarkardóttur er skósíður, snákamynstraður kjóll frá Six Ames sem hún segist líklega hafa notað vikulega síðustu tvö árin. Jóhanna starfar við umönnun á Sóltúni hjúkrunarheimili og afgreiðir einnig í verslun Hlínar Reykdal en stefnir að háskólanámi í haust. Jóhanna leyfði Vikunni að gægjast í fataskápinn sinn að þessu sinni og þar leynist margt fallegt.

 

Jóhanna segir að þægindi og útlit verði að fara saman. „Ef flíkin er ekki þægileg þá notarðu hana ekki mikið og ef hún er ekki flott þá notarðu hana heldur ekki. Annars líður mér best í litríkum og vel gerðum flíkum sem veita eftirtekt. Ekki er verra ef þær faðma línurnar.“

Aðspurð hvað einkennir hennar stíl svarar Jóhanna að sér finnist skemmtilegast að finna óvæntar litasamsetningar og mismunandi not fyrir hverja flík.

„Sjálf myndi ég ekki lifa af án þess að eiga hlýjar og smart peysur sem passa vel við bæði buxur og kjóla. Núna er drapplituð, klassísk, Burberry-kápa efst á óskalistanum og ég ætla mér að eignast hana einn daginn. Ég lifi í voninni að finna eina slíka í Rauða krossinum. Annars er ég í átaki að minnka búðaráp en þegar löngunin grípur mig, reynast fataskápar hjá fjölskyldu og vinum mér vel. Ég hef líka oft fundið það sem mig vantar til sölu hjá kunningjum á samfélagsmiðlum. Ef allt klikkar er það pottþétt til á Asos.“

„Ef allt klikkar er það pottþétt til á Asos.“

Jóhanna segir að sér finnist skemmtilegast að kaupa gæðaflík frá góðu merki sem hún viti að hún geti notað mikið og muni endast vel. „Best er ef hún er á last season-útsölu. Ég held að það sé leiðinlegast að máta gallabuxur, enda á ég yfirleitt bara eitt par í einu og geri frekar við það ef eitthvað er, heldur en að leita að nýjum.

Uppáhaldsfylgihluturinn?
„MK-úr sem ég fékk frá kærastanum fyrstu jólin okkar. Mér finnst nauðsynlegt að vera með úr og svo minnir það mig alltaf á gamla úrið hans pabba.“

Furðulegustu kaupin?
„Ég varð svo alvarlega sjúk í þennan skrautlega kimono-jakka eftir að vinkona mín keypti sér hann og endaði á að kaupa alveg eins! Höfum ekki enn lent í að vera í þeim á sama tíma, nota minn þó mjög mikið.“

Uppáhaldsflíkin?
„Skósíður, snákamynstraður kjóll frá Six Ames sem ég hef líklega notað í hverri viku síðastliðin tvö ár eða svo.“

Flíkin með mesta tilfinningalega gildið?
„Bjútífúl kjóll sem mamma saumaði á sjálfa sig þegar hún var 22 ára. Hann er of stór á mig, en ég held alltaf í vonina um að ég stækki í hann einn daginn.“

Nýjasta flíkin í fataskápnum?
„FILA-flísjakki í karlastærð sem ég keypti notaðan á tvö þúsund kall.“

Myndi /  Hallur Karlsson

- Advertisement -

Athugasemdir