2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Beraði sig í nærveru konungsfjölskyldunnar

  Hönnuðurinn Vivian Westwood er meðal annars þekkt fyrir að hafa komið pönktískunni á kortið og er þekkt fyrir að hafa kollvarpað breskum stíl með óvenjulegri hönnun sinni. En hún er ekki bara þekkt fyrir hönnun sína heldur er hún ötull talsmaður í ýmsum málum, þar á meðal málum sem varða hlýnun jarðar og mannréttindi.

   

  Westwood er fædd árið 1941.

  Vivienne Westwood, eða Isabel Swire eins og hún var skírð, starfaði til að byrja með sem grunnskólakennari sem þótti gaman að sauma kjóla af og til. En þegar hún hitti Malcolm McLaren, umboðsmann pönksveitarinnar The Sex Pistols, heillaði hann hana upp úr skónum og skyndilega var þessi frekar venjulega húsmóðir orðin pönkari og tískufrík.

  Ögruðu eins og þau frekast gátu

  AUGLÝSING


  Þau Westwood og Mclaren stofnuðu verslunina Let It Rock, sem var einnig þekkt undir nafninu Sex árið 1971. Í versluninni var seldur ýmiss konar varningur og fatnaður sem þótti á þeim tíma afar hneykslanlegur með öryggisnælum, rakvélarblöðum, hjólakeðjum og hundaólum með göddum. Ári síðar, 1972, var áhugi Westwood farinn að snúast að mótorhjólafatnaði, rennilásum og leðri. Westwood og McLaren fóru að hanna stuttermaboli með ögrandi skilaboðum og þau ögruðu eins og þau frekast gátu. Þegar The Sex Pistols lögðu upp laupana fór Westwood að horfa til annarra hugarefna og árið 1981 sýndi hún sjóræningjalínuna, sem var í fyrsta sinn sem þau McLaren sýndu hönnun sína á tískupöllunum.

  Árið 1972 var áhugi Westwood farinn að snúast að mótorhjólafatnaði, rennilásum og leðri.

  Ötull baráttumaður ýmissa málefna

  Vivienne Westwood hefur komið víða við í tískunni og óhætt er að segja að hún hafi aldrei staðnað, heldur verið dugleg að leita á önnur mið og prófa eitthvað nýtt. Erlendir fjölmiðlar hafa sagt að Westwood hafi aldrei nokkurn tíma haft áhyggjur af því hvað öðrum finnist um hana en henni sé svo sannarlega ekki sama um pólitísk málefni, loftslagsbreytingar og mannréttindi.

  Westwood hefur aldrei haft áhyggjur af því hvað öðrum finnist um hana

  Westwood hefur sjálf mátt sæta gagnrýni fyrir það að starfa í tískuheiminum sem veltir milljörðum á milljarða ofan en sé á sama tíma að grátbiðja fólk um að verða meðvitaðir neytendur. Einhverjir hafa spurt hvort ævistarf hennar stangist ekki á við trú hennar en Westwood segist alls ekki telja það. Hennar skilaboð til fólks sé að velja vel og kaupa minna. Fyrir hana skipti gæðin meira máli en magnið. Að gera eitthvað sé betra en vera lamaður af ótta við pressuna að verða að vera fullkominn og enda á því að gera ekki neitt.

   

  • Árið 1992 vakti Westwood mikla athygli þegar hún tók við OBE-orðunni frá Englandsdrottningu. Westwood klæddist kjól. Hún sneri sér í hringi fyrir framan Buckingham-höll svo það fór ekki fram hjá viðstöddum að hún var ekki í nærbuxum undir kjólnum. Hún sagðist hafa heyrt það frá starfsmanni konungshirðarinnar að drottningunni hefði fundist uppátækið svolítið fyndið.
  • Árið 2006 var Westwood öðluð af Karli Bretaprins og hlaut titilinn Dame. Hún endurtók leikinn frá því fjórtán árum áður; hringsnerist fyrir framan höllina, nærbuxnalaus.
  • Árið 2006 ók Westwood skriðdreka að heimili Davids Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, í mótmælaskyni við þær áætlanir hans að leyfa losun leirsteinsgass sem andstæðingar þess segja að sé hættulegt og mengandi og hafi enn meiri áhrif á hlýnun jarðar og þau vandamál sem fylgja þeim.

  Westwood þróaði hugmyndina um að nota nærfatnað sem yfirfatnað og sagt er að hinn goðsagnarkenndi brjóstahaldari sem Madonna klæddist á Blonde Ambition- tónleikaferðalaginu og Jean Paul Gaultier hannaði, hefði aldrei orðið til ef ekki hefði verið fyrir Westwood. Mynd / EPA

  Naomi Campell á pallinum hjá Wstwood.

  Eitt af frægustu augnablikum fyrirsætunnar Naomi Campell gerðist á níunda áratugnum þegar hún gekk eftir sýningarpalli á tískusýningu Westwood í París á þessum skóm, sem Westwood hannaði, og datt.

  Campell lét fallið ekki á sig fá og mynd af henni sitjandi skælbrosandi á tískupallinum prýddi allar forsíður dagblaða næsta daga og Campell hefur sagt að hönnuðir hafi beðið hana um að detta viljandi á sínum sýningum þar sem þetta vakti greinilega mikla, jákvæða athygli og komst í blöðin. En Campell fannst ástæðulaust að láta sig detta að óþarfa og viljandi.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is