2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Búnaðurinn fer eftir því hvers eðlis ferðin er

  Nú er úrvalið í verslunum ótrúlega mikið og ekki alltaf augljóst hvað passar manni best. Hvað er mikilvægast að hafa í huga við val á útbúnaði? „Búnaður sem tekinn er með á fjöll fer mest eftir því hvers eðlis ferðin er; hvenær og hvert er verið að fara og hversu lengi ferðin á að vara, hvort gist er í tjaldi eða skála og svo framvegis. Það er svo margir möguleikar í boði í dag að það er ekkert eitt rétt svar við spurningu sem þessari. En ef við tökum sem dæmi bakpokaferð sem gæti varað í 3-4 daga þar sem gengið er með allt á bakinu fæst ágæt mynd á hvað er það helst sem verður að vera með í ferðinni. Þar sem allur búnaður er borinn á bakinu er ansi vandasamt að koma öllu fyrir og því er að takmarka útbúnaðinn eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Algeng mistök er að hafa bakpokann of þungan en oft er miðað við að bakpoki sé ekki þyngri en 15-20% af líkamsþyngd þess sem ber hann. Poki sem er viðráðanlegur í upphafi ferðar getur farið að síga hressilega í þegar líður á ferðina. Bakpokinn er auðvitað lykilatriði og hann má ekki vera of stór og passa viðkomandi en bakpokar eru mismunandi á lengd og hönnun.“

  Mynd / Unsplash

  Góð fæða, fatnaður og mikilvægur staðalbúnaður  

  Hvað er algjörlega nauðsynleg ef menn ætla til að mynda í þriggja daga gönguferð? „Léttur og hlýr svefnpoki, dýna og tjald verða að vera með í för,“ segir Hrafnkell. „Tjaldinu má skipta á milli ferðalanganna og dreifa þannig byrðinni. Göngustafir, áttaviti og GPS-tæki eru nauðsynleg líka auk eldunartækis og léttra mataráhalda. Hlýr og góður fatnaður er auðvitað sjálfsagður, vind- og vatnsheldur hlífðarfatnaður, nærfatnaður úr ull eða gerviefnum, flíspeysa (millilag), dúnúlpa, tvennir göngusokkar, göngubuxur, stuttbuxur, vaðskór, legghlífar. Að auki eru svo ýmsir smáhlutir sem geta komið að góðum notum, s.s. höfuðljós, sjúkrapoki, viðgerðasett, sólgleraugu, sólarvörn, klósettpappír, eyrnatappar (það er verra að sofa ekki fyrir „vélarhljóðunum“ í næsta manni) og ýmislegt fleira.

  AUGLÝSING


  Næringarríkur og góður matur sem auðvelt er að bera er svo lokapunkturinn. Gott er að skipuleggja máltíðirnar fyrir fram og setja jafnvel í litla poka og merkja greinilega hvaða máltíð og fyrir hvaða dag er í pokanum. Á vef Ferðafélags Íslands, www. fi.is, má finna ítarlega búnaðarlista og ýmsar upplýsingar sem gott er að styðjast við þegar ferðir á fjöll eru undirbúnar.“

  Mynd / Unsplash

  Vandaðir gönguskór lykilatriði

  Útbúnaður sem þessi er dýr og ekki er sama hvernig hann er þrifinn né heldur hvernig gengið er frá honum í geymslu. Hvernig halda menn gönguskónum góðum?

  „Viðhald og geymsla á búnaðinum í ferðum og heima fyrir skiptir svo auðvitað miklu máli. Vandaðir gönguskór eiga að endast fólki árum saman með góðri umhirðu. Flestir gönguskór í dag er með einhvers konar vatnsvarnarfilmu sem andar og heldur manni þurrum á fótunum. Skóna sjálfa eða ytra byrðið þarf þó að hreinsa og vatnsverja reglulega til að viðhalda vatnsvörninni og önduninni á skónum. Ytra byrði, hvort sem það er úr leðri eða næloni verður að hrinda frá sér vatni eins og hægt er til að filman virki því þegar ytra byrðið er orðið rennandi blautt á rakinn frá fótunum enga útleið lengur og þá safnast hann saman í skónum. Því þarf að nota rétt efni eins og Nikwax-vatnsvörn til að viðhalda vatnsvörninni á gönguskónum,“ segir Hrafnkell. „Eins er lykilatriði að passa að þurrka blauta skó ekki of hratt eða við háan hita því þá getur leðrið dregist saman og ofþornað. Sama gildir um geymslu á skónum en ef þeir eru geymdir í of miklum hita getur leðrið þornað um of sem getur haft áhrif á endingu á skónum.“

  Gönguskór

  Góð umhirða er mikilvæg

  En hvernig á að þrífa útivistarfatnað þannig að hann haldi eiginleikum sínum?

  „Vatnsheldan öndunarfatnað er nauðsynlegt að hugsa vel um og hreinsa og vatnsverja reglulega til að viðhalda vatnsheldninni sem best. Algengur misskilningur er að fatnað með öndunarfilmu eigi helst ekki eða sjaldan að þrífa. Staðreyndin er hins vegar sú að það er mun betra að þvo þennan fatnað reglulega og losna við svita og önnur óhreinindi úr vatnsvörninni og vatnsverja svo ytra byrðið svo það hrindi frá sér vatni og gefi þannig öndunarfilmunni færi á að sinna sínu hlutverki og hleypa raka frá líkamanum. Vandaðar og góðar flíkur geta þannig enst árum saman með réttri og góðri umhirðu. Svo er líka bara miklu skemmtilegra að vera í búnaði sem virkar eins og hann á að gera.“

  Góður búnaður er nauðsyn

   

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is