2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Er ástin blind?

  Allir þekkja orðtakið að ástin sé blind. Þá er ýmist vísað til þess að aðlöðun milli tveggja einstaklinga geti verið svo sterk að útlitið skipti engu máli eða að fólk loki augunum fyrir göllum hvort annars. En skyldi þetta vera rétt? Að vera blindur er nefnilega ekki það sama og að loka augunum. Geta ástin og skynsemi ekki vel farið saman?

   

  Á árum áður þegar foreldrar völdu maka fyrir börnin sín eða gengið var í hjónaband af hreinum hagkvæmnisástæðum þekktist það að parið lærði elska hvort annað. Samverustundirnar juku virðingu þeirra hvort fyrir öðru og djúp vinátta og kærleikur myndaðist. Þetta bendir til þess að skynsemi þurfi ekki að standa í vegi fyrir ástinni.

  Ást við fyrstu sýn er einmitt sprottin af þessum hvötum, tilhneigingunni til að búa sér til töfrandi ímynd af manneskju, byggða á litlum og ótraustum upplýsingum.

  Ef marka má nýlega könnun sálfræðinga í Bandaríkjunum er ástin alls ekki blind. Hún þvert á móti sér flesta hluti afskaplega skýrt. Mjög ástfangið fólk kýs hins vegar að leiða hjá sér ýmsa galla makans. Það veit af þeim en velur að vera umburðarlynt og telur að í heildarmyndinni skipti þetta litlu máli. Þegar fyrstu eldar ástarinnar taka að kólna getur þetta svo snúist upp í andhverfu sína. Viljinn til að gera lítið úr getur nefnilega orðið til þess að hinn elskaði sé settur á stall og fallið verður þá stundum úr mikilli hæð. Þá er vont að skella á jörðinni. Við erum, þegar þannig er ástatt, ástfangin af ímynd en ekki manneskju. Allt í einu verða þessir litlu og smávægilegu ókostir sífellt stærri og stundum vaxa þeir mönnum svo í augum að þeir verða ástæða skilnaðar.

  AUGLÝSING


  Viðvörunarmerkin auðsæ

  Sú staðreynd að ástin virðist vera tilbúin að sjá minna og horfa fram hjá ansi mörgu verður einnig oft til þess að fólk lætur sem það taki ekki eftir viðvörunarmerkjunum. Af þessari ástæðu geta ofbeldismenn töfrað aðra upp úr skónum, fjárglæframenn fengið fólk til að afhenda þeim peningana sína í nafni ástar. Staðreyndin er hins vegar sú að viðkomandi kemur alltaf upp um sig á einhvern hátt. Konur ofbeldismanna segjast eftir á muna eftir atvikum í tilhugalífinu sem gáfu til kynna að skapofsi, stjórnsemi og árásargirni byggi innra með draumaprinsinum. Fjársvikarar notfæra sér viðkvæmustu tilfinningar fólks og veikleika þess. Þeir kunna að spila á trúgirnina og vita á hvaða takka er best að ýta en það eru alltaf glufur í sögu þeirra og auðvelt væri að staðreyna blekkingarnar.

  Á fyrstu dögum og vikum sambandsins er vissulega erfitt að sýna tortryggni en líkt og Dr. Phil segir gjarnan í þáttum sínum: „Besta forspá um framtíðarhegðun eru hegðunarmynstur fortíðar.“ Nú á tímum Internetsins er auðvelt að afla sér upplýsinga um sögu fólks bæði hvað varðar fyrri sambönd og fjármálahegðun. Þess eru einnig dæmi að fyrrverandi eiginkonur og kærustur reyni að vara við manninum. Skynsemin segir að slík varnaðarorð beri að taka alvarlega. Öllum er einnig hollt að velta fyrir sér hvort þeir séu í raun ástfangnir af manneskju eða hvort það sé hugmyndin um ástina sem þeir heillast svo gersamlega af. Samkvæmt rannsókn Arons Ben Zeév, doktors í sálfræði, er það nefnilega mun algengara en nokkurn grunar að sú mýta að ástin sé ósigrandi afl, líkleg til að heltaka mann og færa lífsfyllingu mun algengara viðfang heitrar ástríðu hjá mörgum en þær manneskjur sem þeir hitta.

  Skynsemi og ást fara nefnilega ágætlega saman og ástin ætti ekki að þrífast án vitsmunalegs vals og greiningar.

  Viðkomandi talar um að hann lifi í draumi, að væntingar hans hafi ræst í þessari einu manneskju og framtíðin sé björt. Meðan hann heldur í þá tálsýn er hann líklegur til að kjósa að horfa jákvæðum augum á allt sem viðfang ástar hans segir og gerir. Kannski þurfum við að staðfesta val okkar svo eindregið með sjálfum okkur vegna þess að við vitum að það er handhófskennt, ekki byggt á neinum rökum og í raun svolítið eins og þegar við freistumst til að kaupa allt of dýran bíl og berjumst við að sannfæra okkur um að við þurfum virkilega á honum að halda, að ekki hafi verið skynsamlegra að kaupa minni, ódýrari og sparneytnari bíl. En ástin er engu að síður ævinlega val, byggt á löngunum okkar og andlegri líðan hverju sinni. Þess vegna er ekki gott að velja sér maka þegar einhvers konar persónuleg vandamál standa í vegi fyrir þroska, sjálfstrausti og vellíðan okkar sjálfra.

  „En ég elska hann Jóhann“

  Þrjú á palli sungu Óðinn um árans kjóann hann Jóhann á plötunni Lífið er lotterí. Fátt var þeim manni til lista lagt og ekki með nokkru móti hægt að telja hann skemmtilegan, ábyrgan eða góðan eiginmann. En konugreyið elskaði hann Jóhann sinn þrátt fyrir allar hans ávirðingar. Önnur íslensk hljómsveit söng svo um góðhjörtuðu konuna sem elskaði sinn breyska mann. Þessar þolinmóðu og góðu konur sem allt umbáru og fyrirgáfu. Hér áður var borin virðing fyrir slíkum konum. Drykkjumenn, kvennabósar og fjármálasukkarar áttu sitt skjól hjá þeim. Í dag hefur þolinmæði fólks talsvert minnkað og lotning fyrir slíkum manneskjum. Þetta er kallað meðvirkni og þykir engum til sóma. Sérstaklega ekki ef börn eru í spilinu.

  Rannsóknir hafa leitt í ljós að bæði karlar og konur eru meðvirk. Þótt undarlegt megi virðast eru karlar mun líklegri til að setja konur sínar á stall og hafa óraunsæja mynd af þeim. Meðan þeir trúa að konan þeirra sé saklaust fórnarlamb vanlíðunar, varnarlaus og viðkvæm, þurfi björgunar við og verndar eru þeir tilbúnir að fórna miklu. Þeir fara hins vegar mun fyrr en konurnar eða leita sér hjálpar við meðvirknisjúkdómnum. Konurnar á hinn bóginn gera sér grein fyrir vanköntum mannanna og berjast við að sætta sig við þá.

  Ást við fyrstu sýn er einmitt sprottin af þessum hvötum, tilhneigingunni til að búa sér til töfrandi ímynd af manneskju, byggða á litlum og ótraustum upplýsingum. Smátt og smátt bætast hins vegar við gögn og þá þarf að endurmeta sína sýn. Flestir gera þetta ósjálfrátt eftir því sem líður á sambandi og sé um heilbrigða ást að ræða þróast hún yfir í heilsteypta, djúpa og varanlega vináttu og kærleika. Ef manneskjan á hinn bóginn kemst að því að hún átti í raun lítið sem ekkert sameiginlegt með ástinni sinni og hefur í raun lítinn áhuga á að deila kjörum með henni endar sambandið í sátt eftir stuttan tíma. Hvernig sem á það er litið þarf þessi endurskoðun og kalda skynsama mat að koma til ef sambandið á að ná að þroskast.

  Þótt undarlegt megi virðast eru karlar mun líklegri til að setja konur sínar á stall og hafa óraunsæja mynd af þeim.

  Skynsemi og ást fara nefnilega ágætlega saman og ástin ætti ekki að þrífast án vitsmunalegs vals og greiningar. Ástarljóð, ástarsöngvar, kvikmyndir og bækur mála myndina of sterkum litum og eru í raun hvati til að loka augunum fremur en að halda þeim galopnum. Staðreyndin er sú að þegar hamingjusöm pör í löngum samböndum eru skoðuð kemur í ljós að þau eru vel meðvituð um galla maka síns, bæði persónulega og líkamlega. Þau elska oft þennan ófullkomleika hvort annars og eru fegin að hann er til staðar. Kostirnir eru límið í sambandinu en ókostirnir efla löngun okkar til að styðja og styrkja makann. Þetta er eðli kærleikans í flestum tilfellum, foreldrar elska börn sín, ekki vegna þess að þau séu fullkomin og geri aldrei mistök heldur vegna þess að þeir fá tækifæri til að aðstoða börnin við að breyta veikleikum í styrkleika og þroskast sjálfir og vinna úr eigin erfiðleikum meðan á uppeldinu stendur.

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is