2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Að ná stjórn á annríkinu

  Að sjá ekki fram úr verkefnunum sem hlaðast upp getur verið erfið og yfirþyrmandi tilfinning. Allt fer að hringsnúast í höfðinu á manni, ekkert virðist yfirstíganlegt og erfitt að sjá hvar er best að byrja. Þá er stutt í að menn missi yfirsýnina og erfitt getur verið að finna leiðina út úr ástandinu.

  Þegar svona er komið finnst fólki það gersamlega þurrausið. Sköpunarkrafturinn er enginn og það er alltaf þreytt. Þetta er eins og að standa í að grafa skurð sem fyllist jafnóðum. Þreyta er þó langt í frá einu líkamlegu einkennin sem menn finna fyrir. Streitan er viðvarandi og magnast stöðugt. Líkaminn er að reyna að vinna gegn henni með því að senda út boð um þreytu. Kortisólframleiðslan er allt of mikil og hátt hlutfall þessa streituhormóns í líkamanum til langs tíma getur leitt til blóðþrýstingshækkunar, þyngdaraukningar, missi vöðvamassa, minnkandi kalkmagns í beinum og bælingar á ónæmiskerfinu. Líkaminn er að senda þér viðvörunarboð. Hann segir: Ég gefst upp, hvíldu mig.

  Hvers vegna finnst manni allt svo yfirþyrmandi?
  Sálfræðingar telja að stærsta ástæðan sé sú að þú kunnir ekki að setja mörk og hugsir ekki nógu vel um sjálfan þig. Sá sem tekur sífellt að sér fleiri verkefni og eykur vinnuálagið fremur en að draga úr því þegar hann finnur streituna magnast stefnir beina leið í kulnunarástand. Það eru takmörk fyrir því hvað fólk getur afkastað á einum degi og til allrar lukku hafa flestir skilning á því. Ef einhver í kringum þig hefur það ekki er spurning hvort þú sért á réttum stað í lífinu.

  Önnur ástæða er sú að fólki hættir til að horfa um of fram á veginn. Í stað þess að einbeita sér að því sem skiptir máli hér og nú velta menn fyrir sér hvernig eigi að leysa verkefni morgundagsins og hvort það takist á þeim stutta tíma sem gefst til að vinna að verkefnunum. Ef þú einfaldlega ákveður að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og velta ekki fyrir þér hvað bíður á morgun getur þú létt af herðum þér stórum hluta þeirra áhyggna sem plaga þig.

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum