2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Auka brennslu, þrek og vellíðan

  Ekki er langt síðan líkamsrækt snerist um að létta sig í hugum fólks og þegar kílóin voru fokin var talinn tími til að hvílast. Til allrar lukku vita flestir núorðið að það er ekki heppileg leið. Hæfileg hreyfing alla ævi varðveitir heilsuna.

  Ein vanmetnasta tegund líkamsræktar er hins vegar lyftingar en rannsóknir sýna að allir hafa gott af því að lyfta lóðum.

  Upp úr þrítugu fer vöðvamassinn smátt og smátt að rýrna hjá flestum nema menn geri eitthvað sérstaklega til að halda honum við. Þótt líkamsræktarsalir séu í hugum sumra einna líkastir vonda staðnum og þeir vilji helst forðast þá eins og heitan eldinn er engu að síður skynsamlegt að komast sem fyrst yfir það hugarfar og heimsækja æfingasalinn reglulega í þeim tilgangi að lyfta lóðum.

  „Lyftingar eru þá góður valkostur og eitt af því sem gerir þær skemmtilegar er að menn fara fljótt að geta bætt við sig meiri þyngdum. Það verður einnig stöðugt meira spennandi að sjá hversu mikið menn geta.“

  Stærri vöðvar og hraðari brennsla

  Það hefur nefnilega sýnt sig að þetta er skjótvirkasta og áhrifaríkasta leiðin til að viðhalda og byggja upp vöðva en styrkur þeirra er undirstaða góðrar brennslu og þreks. Með öðrum orðum styrkjast vöðvarnir og vaxa og um leið og vöðvamassinn eykst verður brennslan í líkamanum hraðari og þá fækkar kílóunum. Það er einnig hægt að móta líkamann með lóðunum. Vöðvarnir verða lengri, sterkari og sjást betur. Ef einhver hefur áhuga á að fá betur formaða upphandleggi, magavöðva eða fótleggi eru lóðin léttasta leiðin til þess.

  AUGLÝSING


  Lyftingar gera öllum gott

  Lengi þótti ekki flott að konur væru vöðvastæltar en sterkar og flottar íþróttakonur á borð við Annie Mist, Katrínu Tönju, Ragnheiði Söru og Serenu Williams eru ört að breyta því. Með öðrum orðum er sú skoðun að konur eigi að vera litlar og fíngerðar með mjúkar línur á undanhaldi og það þykir fallegt að skarta breiðum öxlum og stórum upphandleggsvöðvum, hvaða kyni sem fólk tilheyrir. En ekki allir vilja verða afreksfólk í íþróttum, flestum nægir að vera nógu sterkir til að geta allt það sem þá langar til, hvort sem hugurinn stendur til þess að ganga á Esjuna, hjóla hringinn um landið, renna sér á skíðum eða fara golfhring.

  Viðhalda þrekinu

  Það er auðvelt að missa styrk, bara nokkurra vikna andvaraleysi getur skilað sér í minnkandi getu og úthaldi. Lyftingar eru þá góður valkostur og eitt af því sem gerir þær skemmtilegar er að menn fara fljótt að geta bætt við sig meiri þyngdum. Það verður einnig stöðugt meira spennandi að sjá hversu mikið menn geta.

  Aukin vellíðan

  Rannsóknir hafa sýnt að lyftingar og vinna með lóð eykur framleiðslu vellíðunarboðefna í líkamanum hraðar en aðrar æfingar. Eftir stutta stund finna menn notalega þreytutilfinningu streyma um vöðvana. Sumir segja einnig að hægt sé að fá meiri útrás og aukna þægindatilfinningu í líkamann með því að takast á við lóðin í byrjun og lok hverrar æfingar. Þær hafa einnig þann kost að ekki borgar sig að vera lengi að í einu. Þetta eru skorpuæfingar, fljótt búnar, fjölbreyttar og oft skemmtilegar.

   

   

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum