2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Berðu þig vel?

  Sjúkraþjálfarar hafa lengi hvatt fólk til að sitja beint í baki, slaka á í öxlum og setja ekki sveigju á hálsinn. Þeir benda einnig á það að standa við vinnuna sé mun hollara en að sitja og þegar gengið er að bera höfuðið hátt í stað þess að hanga með hausinn ofan í bringu. Allt þetta hjálpar þér til að halda stoðkerfinu heilbrigðu en það gerir meira. Að bera sig vel eykur sjálfstraust og vellíðan.

  Það kann að hljóma eins húmbúkk og kjaftæði en líkamsstaða þín breytir raunverulega andlegri líðan þinni. Allir þekkja það að hafa einhvern tíma rétt úr sér, andað djúpt, sett í axlirnar og síðan gengið inn í atvinnuviðtal, próf eða annað sem þeir hafa kviðið fyrir. Þetta gerum við til að koma okkur í það andlega form sem við þurfum á að halda til að takast á við erfiðleikana. Með því að hafa þetta í huga á hverjum degi og hvert sem þú ferð getur þú aukið sjálfstraust þitt og fundið fyrir auknum krafti. Til þess að hjálpa þér að muna eftir að halda öxlunum beinum, hryggnum í réttri stöðu og hengja ekki höfuð er gott að gera nokkrar æfingar sem beinlínis bæta líkamsstöðuna.

  Plie

  Plie er hreyfing í klassískum ballett en það er engin tilviljun að hún þróaðist og varð til. Hún styrkir vöðvana í fótunum, heldur hryggnum beinum og hefur góð áhrif á axlir og háls. Þegar farið er í plie stilla menn sér upp úti á gólfi, hælar eru saman, tærnar vísa beint út og síðan beygir þú þig í hnjánum en heldur efri hluta líkamans alveg beinum. Til að byrja með er gott að styðja sig við vegg eða eitthvað annað fast meðan hreyfingin er endurtekin 15-20 sinnum. Þetta er gott að gera einu sinni til tvisvar á dag.

  Fleiri góðar fótaæfingar

  AUGLÝSING


  Tendu er einnig balletthreyfing. Þá er staðið upp við vegg eða stöng og líkt og í plie er byrjað á að hafa hæla saman og tærnar beint út. Annar fóturinn er síðan færður fram, tyllt í tána og hann síðan dreginn hægt til baka í upphaflegu stellinguna. Efri hluti líkamans er alveg beinn. Þessa hreyfingu er gott að gera eða einfalda þetta og gera svokallaðar hreyfiteygjur. Þá styðja menn sig við vegg og sveifla öðrum fæti fram og aftur eða til hliðar í nokkrar sekúndur. Síðan er skipt um fót og allt endurtekið þar til búið er að fá góða teygju í alla vöðva fótanna. Kosturinn við æfingar af þessu tagi er að þær reyna bæði á þann fót sem er á hreyfingu og hinn sem er kyrr.

  Nokkrar jógastöður geta bætt líkamsburð mjög mikið.

  Jógastöður

  Nokkrar jógastöður bæta líkamsburð einnig mjög mikið. Nefna má gyðjuna, stríðsmanninn og tréð. Allar þessar stöður reyna á jafnvægi, vöðvastyrk í fótum og réttar stellingar í öxlum, baki og höfði. Hér reynir einnig á að nota magavöðvana til að styðja við.

  Magaæfingar

  Allar æfingar sem styrkja magann bæta líkamsstöðuna og byggja upp stoðkerfið. Því sterkari sem miðjan er því minna reynir á bak, hné og aðra viðkvæma staði. Eitt það besta sem menn gera er að leggjast á gólfið á kvöldin og gera nokkrar magaæfingar. Venjulegar uppsetur eru fínar, einnig að liggja á bakinu með hnén upp og beygð í 90° horn, rétta síðan úr fótunum til skiptist. Þetta reynir sérlega á neðri magavöðvana en þeir stýra góðu jafnvægi og eru undirstaða þess að hægt sé að halda bakinu í réttri stöðu. Allar æfingar er gott að endurtaka 15-30 sinnum í hvert sinn sem þær eru gerðar. Munið svo einnig að standa oftar upp í vinnunni og það er ekkert að því að gera nokkrar góðar líkamsæfingar af þessu tagi með vinnufélögunum yfir daginn.

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum