2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Börnin með og í ræktinni

  Allar mæður ungra barna vita að það getur verið mikið púsluspil að raða saman deginum. Oft verða fáar stundir afgangs og konur sem vilja rækta líkamann og stunda hreyfingu finnst þær þurfa að geyma það þar til börnin eru sofnuð eða þær fara á fætur á undan öllum öðrum. Þannig þarf það ekki endilega að vera, margar leiðir eru færar til að hafa börnin með í æfingunni og jafnvel hluta af henni.

  Útivist
  Útlendingar reka upp stór augu þegar þeir sjá kornabörn sofandi í barnavögnum fyrir utan hús hér á landi. Í frosti og jafnvel byl kúra þessi litlu grey vel varin með ull og gærupokum og sofa. Ekkert mælir hins vegar á móti því að nota blundinn til að hreyfa móðurina, svo lengi sem færð er sæmileg. Sumar konur sem kjósa að hlaupa með vagninn eða kerruna stunda alls kyns æfingar eða púl. Auðvelt er að ganga og hlaupa til skiptis í byrjun og gera niðurdýfingar, magaæfingar og armbeygjur á næsta bekk.

  Jóga á stofugólfinu
  Lítil börn hafa gaman af að fylgjast með foreldrum sínum iðka jóga. Þau reyna oft að gera eins eða klifra á mömmu og pabba þar sem þau liggja á gólfinu. Með ákveðinni stýringu er hægt að nýta þau uppátæki til að gera æfingarnar áhrifaríkari. Látið barnið leggjast á bak ykkar, kvið, fótlegg eða hvar sem hentar til að hjálpa ykkur að teygja ögn lengra og komast betur inn í stöðuna. Notið einnig tækifærið í lokin til að leggjast með barninu í algjöra slökun í nokkrar mínútur. Slökun þjálfar einbeitingartíma barnsins og er oft notað til að hjálpa börnum með athyglisbrest og ofvirkni. Gott er að láta yngri börn liggja ofan á foreldrinu en eldri við hliðina á. Hægt er að leiða slökunina með því að tala við barnið eða nudda létt bak þess, handleggi eða fótleggi.

  Þrekæfingar með börnum
  Myndbönd á Netinu af foreldrum að lyfta börnum sínum í stað þess að nota lóð eru skemmtileg og gagnleg. Vissulega er ekki hægt að búast við að barn haldi út æfingu í hálftíma til klukkustíma en þegar fimmtán mínútur hér og þar skila árangri er sjálfsagt að nota þessa leið. Hægt er að liggja á gólfinu og lyfta barninum upp með beinum handleggjum og fá þannig góða bekkpressu.

  Önnur æfing væri hnébeygja að barninu þar sem það stendur á gólfi og lyfta því upp í brjósthæð með því að koma höndunum fyrir undir handleggjum þess.
  Kviðæfingar má gera erfiðari með því að láta barnið sitja á kvið foreldrisins og gera síðan venjulegar kviðkreppur. Gaman er að keppa að því að ná að kyssa barnið á ennið í hverri lyftu.

  AUGLÝSING


  Látið barnið sitja á ristum útréttra fóta ykkar, lyfti síðan upp frá gólfi og réttið kálfana upp í 90° horn. Endurtakið eins oft og þurfa þykir. Einnig er hægt að setja iljarnar að kvið barnsins, taka í hendur þess og lyfta síðan fótunum upp þar til þeir eru beinir upp í loftið og þið getið horfst í augu við barnið.

  Sitjið með krosslagða fætur á gólfinu og haldið á barninu útréttum örmum. Lyftið því síðan upp og niður. Hér er nóg að gera litlar hreyfingar, t.d. að lyfta barninu úr axlarhæð og þar til það horfist í augu við þig.

  Dans
  Börn njóta þess að hlusta á tónlist. Allt frá því þau eru pínulítil er góð æfing að halda á þeim í fanginu og hreyfa sig í takt við tónlist. Sumir kjósa að hafa þau í burðarpoka framan á sér og dansa síðan um stofuna. Hér er auðvitað ekki hægt að sýna nein gríðarleg tilþrif á dansgólfinu en hægt er að fá fína æfingu út úr þessu og þetta er góð leið til að byrja að hreyfa sig fyrst eftir barnsburð. Síðar er svo hægt að dansa við barnið og flækja sporin eftir því sem það eldist og þroskast.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum