2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Dekraðu við þig og njóttu lífsins í sumar

  Það er alltaf þess virði að njóta þess að horfa á hafið. Á kyrrum, sólríkum dögum glitrar sléttur hafflöturinn og vekur með jarðbundnasta fólki skáldlegan innblástur. Þegar vindurinn næðir er úfið hafið magnað og ógnvekjandi. Sumir segja að fátt gefi þeim meiri orku en að horfa á brimið skella á klettunum úti á Reykjanesi eða ganga yfir skerin við Gróttu. Það má einnig fá magnaða útrás fyrir erfiðar tilfinningar með því að öskra í kapp við brimið á ströndinni við Eyrarbakka. Þar náði kona nokkur að sætta sig við skilnað frá eiginmanni sínum með því að formæla honum í takt við niðinn í brimgarðinum. Hafið er alveg við bæjardyrnar hjá flestum Íslendingum og þarf því ekki mikið að hafa fyrir því að njóta þess sem það getur gefið.

  Mynd / Unsplash

  Róandi og líka gott fyrir hár

  Flestir vita að kamillute er róandi og hjálpar mörgum að sofna á kvöldin. Kaldir tepokar með kamillutei eru einnig góðir til að róa húðina í kringum augun, minnka bauga og draga úr þrota. Færri vita hins vegar að kamillute eykur mjög gljáa í ljósu hári. Ljóshært fólk sem telur hárið dauft og glanslaust ætti því að reyna að skola það upp úr kamillutei og athuga hvort hárið verður ekki líflegra og fallegra. Best er að setja 3-4 tepoka í einn lítra af sjóðandi vatni, leyfa vatninu að kólna og skola síðan hárið.

  AUGLÝSING


  Mynd / Unsplash

  Frískar upp á húðina

  Avókadó er einstaklega næringarríkur ávöxtur og ekki síður gott útvortis en innvortis. Avókadóolían er algjörlega kólesteróllaus og því bráðholl en í ávextinum eru einnig ellefu mismunandi vítamín og fimmtán tegundir steinefna. Húðin á auðvelt með að drekka í sig næringuna úr avókadóinu vegna þess hve auðveldlega olían úr því gengur inn í hana. Avókadó er því mjög oft notað í dýr og fín andlitskrem en ef fólk vill spara sér það að kaupa kremin er hægt að merja hluta af avókadói í skál eða blandara og bera maukið á andlitið og hálsinn. Berið það þó ekki á augnsvæðið. Látið maukið liggja á húðinni í hálftíma en skolið það síðan af. Það má svo gjarnan hreinsa húðina á eftir með ögn af köldu kamillutei.

  Mynd / Unsplash

  Mýkri fætur

  Margir lenda í því að fá sigg á hælana og ofan á tærnar þar sem skórnir þrengja að. Verði siggið of mikið getur það rifið sokka og þrýst á viðkvæma bletti á fótunum. Það er hins vegar auðvelt að hreinsa þetta burtu og ef farið er í fótsnyrtingu einu sinni í viku er hægt að halda fótunum mjúkum og sléttum. Best er að byrja á því að fara í gott fótabað. Fótunum er dýft í bala með volgu sápuvatni. Einnig má blanda vatnið með mýkingarsápu, nokkrar gerðir af þeim fást í apótekum. Sumir kjósa að setja eina til tvær matskeiðar af grófu sjávarsalti í vatnið. Fæturnir eru hafðir í vatninu í tíu til fimmtán mínútur en síðan teknir upp úr, þerraðir og siggið raspað burtu með fótraspi. Margir raða smásteinum í botninn á balanum og renna fótunum eftir steinunum. Þetta veitir fótanudd og losar enn frekar upp hart skinn á hælunum.

  Mynd / Unsplash

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum