2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Góð ráð: Erfiðleikar unglingsáranna

  Ótrúlegt en satt, ótrúlega mörg samviskusöm og dugleg börn breytast í sóða á unglingsárunum. Foreldrar eyða oft löngum tíma í að reyna að fá unglingana til að hreinsa til eftir sig en hafa sjaldnast árangur sem erfiði. Sérfræðingar benda á að best sé að setja fáar reglur í sambandi við umgengnina en fylgja þeim fast eftir.

   

  Um allar slíkar reglur gildir hið gullvæga lögmál að þeim verður að fylgja skilyrðislaust eftir og aldrei víkja frá þeim. Hið sama gildir þegar kemur að skapsveiflum unglingsáranna. Sumir krakkar ná bókstaflega að halda heimilum sínum í hálfgerðri gíslingu skapsmuna sinna og það getur komið niður á öllu heimilislífi ef ekki er brugðist við.

  Til allrar lukku eru samskiptavandamál foreldra og unglinga sjaldnast svo slæm að það leiði til verulegrar spennu á heimilinu en sumir unglingar kljúfa sig gjarnan frá fjölskyldum sínum og hætta að vilja taka þátt í sameiginlegum athöfnum. Unglingar halda því þess vegna gjarnan leyndu ef þeim líður illa því allt er betra en að verða að athlægi í jafningjahópnum. Þeir verja sömuleiðis vini sína fram í rauðan dauðann og þagnarmúrinn innan klíkunnar er mjög erfitt að rjúfa. Ef foreldrar hafa grun um að barnið þeirra sé þátttakandi í einhverju sem ekki hefur góð áhrif á það er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Ekki byrja á ásökunum. Segðu heldur hreinskilnislega frá áhyggjum þínum og láttu unglinginn vita að ýmislegt í hegðun hans bendi til að honum líði ekki vel. Bentu honum á að þú sért þarna til að hjálpa og í raun sért þú hans traustasti vinur auk þess að vera sá aðili sem á að leysa vandamál hans og styðja hann.

  AUGLÝSING


  • Kenndu unglingnum þínum að setja mörk. Settu ákveðnar reglur inni á heimilinu og fylgdu þeim eftir á ákveðinn hátt án þess að beita þvingunum. Gerðu unglingnum ljóst að sjálfsagi sé af hinu góða og allir þurfi að forgangsraða. Fyrst komi skylduverkin síðan skemmtanir. Sýndu honum einnig fram á að hið sama gildi um annað í lífinu. Hver einstaklingur verði að velja það sem hann telur réttast og standa við sannfæringu sína.

  • Unglingar eiga oft mjög erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Þeir tala í kringum hlutina og gera sér sjaldnast fyllilega grein fyrir hvers vegna þeim líður eins illa og raun ber vitni. Ekki spyrja ungmennið stöðugt út í líðan þess, reyndu heldur að ræða um lífið almennt, um tilfinningar og það hversu erfitt það getur oft verið að taka ákvarðanir. Mundu að þetta er ekki fullmótaður einstaklingur og hann er að prófa ýmsar skoðanir. Með því að tala um allt milli himins og jarðar heldur þú samskiptaleiðinni opinni og þá eru meiri líkur á að unglingurinn komi þegar hann þarf virkilega á því að halda.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum