2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Heilsufasistar á Facebook

  Janúarvíman ætlar seint að renna af samviskukúguðum sukkaranum sem sprengdi sig út rétt fyrir áramót og hóf nýja árið með fögur fyrirheit um bættan lífsstíl. Sami árlegi söngurinn um minna ummál en aukið þol, þið kannist við kvæðið.

   

  Oftast rjátlast þessi söngur af mönnum um miðjan þorra þegar flestir telja sér trú um að rjómasósan sé jöfnuð við jörðu og stórsniðugt sé að hefjast handa við át á hvers kyns þorramat. Allt samkvæmt aldafornum hefðum.

  Nokkrum sviðasultum síðar gerir páskahátíðin svo vart við sig með tilheyrandi lambalærum og páskaeggjum, svo aftur leggst ofætan í afvötnun og lofar öllu grænu og afeitrandi fögru.

  Þegar allt kemur til alls heldur hringrásin stöðugt áfram og þeir sem hamast við kúra munu á endanum springa því hátíðahöldin taka engan enda.

  Á fyrsta degi eftir frí keppast heilsufasistarnir við að birta sjálfsmellur því til staðfestingar að þeir hafi djöflast í fjölsóttum líkamsræktarsal þar sem óþægilega margir gera sömu rassæfinguna fyrir framan spegilinn með símtækið á lofti. Hugsunin virðist vera sú sama, það sem ekki fer á Netið átti sér ekki stað í raunheimi.

  AUGLÝSING


  Það er vissulega hvetjandi að fylgjast með fólki rækta garðinn sinn og uppskera árangur.

  Og þrátt fyrir að lífshamingja mín sé ekki fólgin í því að hafa mittismál á við kókflösku skil ég konseptið þótt kraftleysið gefi annað til kynna. Óhollustuhjalið er líka mest í munninum á mér. Við vitum öll að hrein fæða er betri en unnin og hreyfing gerir engum illt. Hins vegar má deila um árangursríkidæmi safakúra eða sveltimeðferðar.

  Sjálf efast ég um gæði þess að drekka duft og vantreysti sérmerktum heilsubótarvarningi með fögrum fyrirheitum. Það gerir þetta nefnilega enginn fyrir okkur.

  Heilbrigður lífsstíll er vissulega til eftirbreytni en getum við líka slakað á og leyft okkur að njóta án þess að velkjast um í löðrandi kvíðakasti. Þess á milli má svo munda lóðin og rúlla kúrbítskrullum í nestisboxið, en reynum að njóta óhollustunnar í litlu magni og leyfa okkur heiðarlegan sykur í hóflegum mæli.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum