2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Íþróttafólk vill ná lengra“

  Núorðið er öllum ljós nauðsyn þess að hreyfa sig en nútímamenn skortir alltaf tíma og það getur verið erfitt að púsla æfingunum inn í daglegt líf. Þá eru útsjónarsamir þjálfarar góður stuðningur og tæknin sér til þess að þeir þurfa ekki endilega að vera á sama stað og skjólstæðingur þeirra.

   

  Hjónin A. Birgir Konráðsson og Linda Þ. Svanbergsdóttir eru búsett í Danmörku og halda þaðan úti síðunni www.coachbirgir.com. Þangað má sækja tilbúin styrktarprógrömm en einnig fá æfingaplön sérsniðin að þörfum hvers og eins.

  Hver er bakgrunnur ykkar hjóna og hvaðan er íþróttaáhuginn sprottinn? „Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að ögra mér andlega og líkamlega og fátt gefur mér meira en að miðla því áfram og sjá einstaklinga ná árangri með þeirri aðferð sem ég vinn eftir,“ segir Birgir. „Ég hef starfað sem þjálfari allt frá því að ég var sautján ára gamall. Fyrst sem einkaþjálfari en var síðan einn af stofnendum Boot Camp á Íslandi þar sem ég svo þjálfaði í yfir áratug. Eftir að við hjónin fluttum út til Kaupmannahafnar árið 2015 hef ég lagt áherslu á að vinna með íþróttafólki sem vill ná enn lengra í sinni grein með árangursmiðaðri styrktar- og úthaldsþjálfun,“ segir hann, en Linda, sem er Mosfellingur og kemur því úr miklu íþróttasamfélagi, hefur stundað íþróttir alla sína ævi og ber þar hæst fótbolta og handbolta. Hún hefur mikla ástríðu fyrir hreyfingu. „Við deilum sömu hugmyndum og aðferðafræði þegar kemur að þjálfun,“ bætir hann við.

  Þjálfa fólk um allan heim

  Þótt þau séu samstíga og vinni saman að flestu hefur Linda einbeitt sér meira að uppsetningu prógramma á vefsíðunni www.coachbirgir.com og markaðssetningu meðan Birgir útfærir æfingar og vinnur að því að setja saman einstaklingsmiðuð prógrömm og sinnir einkaþjálfun. Þau hjónin eru einnig í samstarfi við stóra umboðsskrifstofu, Best Way Management og meðal viðskiptavina þeirra eru bæði núverandi og fyrrverandi landsliðsmenn og -konur í handbolta. Þar á meðal má nefna kappa á borð við Guðjón Val Sigurðsson, Ómar Inga Magnússon, Rúnar Alex Rúnarsson, Óðinn Þór Ríkharðsson, Mads Mensah Larsen, Alexander Lynggaard og Mohammad Sanad. Þar fyrir utan eru þau í samstarfi við íþróttafólk í Serbíu, Egyptalandi, Þýskalandi og fleiri löndum auk þess sem hlaupahópar hafa sótt til þeirra ráð og æfingaplön.

  AUGLÝSING


  Hjónin vinna með fólki hér á Íslandi og víða um heim en eru búsett í Danmörku, eins og áður segir. Hvernig virkar það?

  „Við bjóðum nokkrar leiðir,“ segir Linda og nefnir til sögunnar tilbúin æfingaplön fyrir íþróttafólk sem er hægt að nálgast á vefsíðunni og prógrömm fyrir unglinga sem vilja styrkja sig fyrir sína íþróttagrein en í báðum tilvikum er hægt að prógrömm með eða án búnaðar til að vinna með. Hún nefnir einnig sérhæfðari prógrömm þar sem haft er að markmiði að auka úthald, hraða, liðleika o.s.frv. en þau hafa verið seld til Þýskalands, Danmerkur, Egyptalands, Serbíu og víðar.

  „Síðast en ekki síst eru það sérsniðnu prógrömmin þar sem við erum að vinna með einstaklingum um allan heim. Þessi aðferð kallast einstaklingsmiðuð árangursþjálfun (customised programming) og þá erum við í daglegum samskiptum við það íþróttafólk sem við erum að vinna með, sendum æfingu fyrir hvern dag sem miðast þá við hvernig viðkomandi hefur það hverju sinni. Þar er að mörgu að hyggja, t.d. leikja- og æfingaálagi, mögulegum meiðslum, næringu, endurheimt, svefni og öðrum þáttum sem hafa áhrif á okkar líkamlegu og andlegu getu.“

  Mikil sveigjanleiki fylgir fjarþjálfun

  Hvað varð til þess að þið ákváðuð að fara þessa leið í þjálfun? „Það byrjaði á því að ég fékk til mín einstaklinga sem vildu ná enn lengra í sinni íþróttagrein,“ segir Birgir. „Sú aðferðafræði að vinna alltaf með einn dag í einu með fjölbreytt æfingaprógrömm og einstaklingsmiðaða nálgun spurðist mjög hratt út og nú erum við komin á þann stað að við höfum skapað okkur nafn fyrir faglega, árangursríka og góða þjónustu.“

  Er ekki nauðsynlegt að skjólstæðingar ykkar hafi mikinn sjálfsaga til að þetta form þjálfunar virki?

  „Þegar kemur að þjálfun á Netinu almennt þá þarf alltaf ákveðinn aga til að fylgja slíkum prógrömmum en á móti kemur að þeim fylgir líka frelsi og sveigjanleiki til þess að sinna æfingum hvar og hvenær sem er yfir daginn eða vikuna,“ heldur Birgir áfram. „Hins vegar þegar kemur að einstaklingsmiðaðri fjarþjálfun þá fær fólk mun meira aðhald og þá sérstaklega þegar samskipti fara fram á hverjum degi. Við leggjum mikið upp úr samskiptum fyrir og eftir æfingar, eins senda viðskiptavinir inn vídeó af sér við að gera æfingar sem tryggir að við vinnum með réttar hreyfingar o.s.frv. Við sendum frá okkur vídeó af æfingum þegar þörf er á. Þannig að utanumhaldið er mjög mikið og gott. Með þessari aðferð getum við líka alltaf aðlagað okkur að mögulegum meiðslum, breyttum æfingaaðstæðum og þess háttar. Því það eru svo margar breytur sem geta og koma alltaf upp á leiðinni í gegnum heilt keppnistímabil.“

  Alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast

  Spurð hvort eitthvað nýtt og spennandi sé á döfinni hjá þeim svarar Linda að alltaf sé eitthvað nýtt og spennandi að gerast. „Þessi einstaklingsmiðaða hugmyndafræði hefur smitað mikið út frá sér hér úti og nú erum við komin í teymi með öðrum sem hefur það að markmiði að fara með þessa hugmyndafræði enn lengra eða inn í íþróttafélögin og nú þegar eru viðræður í gangi. Staðreyndin er sú að allt of mörg íþróttafélög eru enn að vinna eftir aðferðinni – sama prógrammið fyrir alla; líkamsbyggingu, reynslu, aldur, líkamlega og andlega getu o.s.frv. Því viljum við taka þátt í að breyta.

  „…engum gaman að gera sama hlutinn aftur og aftur.“

  Hún segir að stór þáttur, sem þau leggi líka mikla áherslu á, sé fjölbreytileiki í æfingum. „Að æfa er virkilega skemmtilegt en það finnst engum gaman að gera sama hlutinn aftur og aftur. Einhæfni heftir framfarir og dregur úr áhuga fólks á að stunda styrktar- og úthaldsþjálfun af fullum krafti. Við fáum mikið af jákvæðum viðbrögðum við fjölbreytileikanum, einstaklingum fer aftur að þykja gaman að taka aukaæfingar sem áður þóttu kvöð. Við skynjum líka mjög sterkt að íþróttafólk vill ná lengra og hámarka árangur sinn og er svo sannarlega tilbúið að verja auknum tíma og fjármunum í sinn framtíðarferil.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum