2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Kveðjum kvíðann

  Í hröðu nútímasamfélagi upplifa margir kvíða af einhverju tagi. Sálfræðingurinn Sam Owen segir áhyggjur ekki vera óvin okkar en benda til þess að eitthvað í lífinu sé ekki eins og það eigi að vera. Það sé hins vegar hægt að kippa því í lag og gæta þess að kvíðinn heltaki ekki hugann.

   

  Hvort sem kvíðinn rétt hvíslar að manni eða lamar hversdagslífið er gott að hafa einhver verkfæri til að takast á við hann. Í bók sinni Anxiety Free 4 Weeks to Inner Peace, útskýrir Owen hvernig kvíði er í raun leið heilans til að halda okkur á lífi og í lagi en hún segir það vera í okkar verkahring að nota viðvörunarkerfi heilans, þ.e. kvíðann, okkur í hag.

  Hún segir kvíðann ekki vera óvin okkar heldur frekar vísbendingu um að eitthvað í lífi okkar sé ekki eins og það eigi að vera. Því sé hins vegar hægt að kippa í liðinn. Owen segir að með því að notast við kerfi sem hún hefur þróað, og byggist í raun á þremur máttarstólpum, og leiðbeiningum hennar skref fyrir skref, geti lesendur komist að rót vandans og áttað sig á því hvað í rauninni amar að. Á aðeins fjórum vikum geti þeir þannig losnað við kvíðann og fundið ró og jákvæðni á ný.

  Bókin Anxiety, Free 4 Weeks to Inner Peace eftir Sam Owen er meðal annars fáanleg á Amazon.

  AUGLÝSING


  Þrjár einfaldar leiðir til að kveðja kvíðann:

  Skilgreindu ástæðuna fyrir kvíðanum

  Er ástæðan raunveruleg eða eitthvað sem þú ímyndar þér? Eða veldur hegðun þín vandræðum? Hagar þú þér samkvæmt þínu sanna innra sjálfi? Ertu að vinna úr of mörgum upplýsingum? Veldur eitthvað í utanaðkomandi umhverfi þínu kvíðanum, til dæmis neikvætt samband eða vandamál í vinnunni?

  Finndu lausn til að komast yfir hættuna sem þér finnst steðja að

  Hugsaðu jákvæðar hugsanir sem þjóna sjálfri/sjálfum þér og geta róað kvíðann á þessu augnabliki; til dæmis að þú ætlir að byggja upp jákvæð sambönd, en losa þig við þau neikvæðu og að þú ætlir að hugsa vel um sjálfa/n þig. Búðu til skemmtilegar áætlanir sem geta róað kvíðann akkúrat þarna. Spurðu þig lausnamiðaðra spurninga sem færa þér vald; til dæmis hvað fengi þig til að vera bjartsýnni varðandi starfið þitt.

  Taktu vel ígrundaða ákvörðun til að leysa vandann

  Owen stingur upp á leyfi frá samfélagsmiðlum og kennslustund í að anda rólega (anda rólega inn á meðan þú telur upp í þrjá, haltu niðri í þér andanum og teldu upp í aðra þrjá, andaðu frá og teldu upp í þrjá á meðan þú andar frá þér allri spennu). Skrifaðu niður nokkur markmið, eins og til dæmis að þú ætlir að vera að hámarki einn klukkutíma á dag á samfélagsmiðlum, að þú ætlir að læra nýja hluti og að þú ætlir að hugsa vel um þig á hverjum degi.

  Kvíðaeinkenni geta virst ógnandi og Vikan hvetur fólk til að hafa samband við bráðamóttöku geðdeildar í síma 543-4050 eða 112 ef vandinn er alvarlegur og þolir enga bið.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum