2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Nærðu húðina innan frá með réttu fæðubótarefnunum

  Það er mikilvægt að næra húðina innan frá með því að borða hollt og fjölbreytt fæði, ásamt því að drekka nóg af vatni. Stundum fáum við þó ekki nóg úr fæðunni einni saman og þá grípum við til fæðubótarefna. Hér eru nokkur góð fæðubótarefni fyrir húð og hár.

   

  Bíótín, B7-vítamín

  Bíótín er eitt af B-vítamínunum en hefur einnig verið nefnt H-vítamín. Það hefur jákvæð áhrif á heilbrigði hárs og hárvöxt og getur því gagnast við hárlosi. Þó svo að skortur þess sé ekki algengur, því það er algengt í fæðu, auk þess að myndast í meltingarfærum, er engu að síður gott að taka það inn því það er vatnsleysanlegt og safnast þarafleiðandi ekki upp í líkamanum.

  C-vítamín

  C-vítamín er andoxunarefni og ver frumur líkamans gegn skaðlegum áhrifum sindurefna og stakeinda, en það eru úrfellingarefni sem verða til við efnaskipti í líkamanum. Við myndum ekki okkar eigið C-vítamín í líkamanum og verðum því að treysta á að nægilegt magn sé af því í fæðunni.

  Þörf okkar fyrir C-vítamín hefur aukist samhliða aukinni iðnþróun og mengun í umhverfinu. Einnig hafa rannsóknir bent til að það verndi húðina gegn skaðlegum áhrifum útfjólublárra geisla og sporni þar með gegn ótímabærri öldrun húðar. Nú hafa mörg snyrtivörufyrirtæki hafið að nota C-vítamín í vörum vegna andoxunarverkana en það er einnig sagt hafa góð áhrif á endurnýjun og uppbyggingu húðar.

  Sink

  AUGLÝSING


  Sink er steinefni og mjög mikilvægt fyrir eðlilega skiptingu og starfsemi frumna. Það tekur einnig þátt í mörgum hvataferlum og hormónastarfsemi, ekki síst starfi kynhormóna, og er því mikilvægt á þeim tímabilum sem líkaminn er upptekin við hormónatengdar breytingar, til dæmis kynþroska, brjóstagjöf og meðgöngu.

  Við slíkar breytingar hættir húðinni til að bregðast við með aukinni olíuframleiðslu og jafnvel bólumyndun. Sink getur hjálpað til að sporna gegn þeirri þróun en hormónabólur hjá unglingum hafa meðal annars verið raktar til lágs sinkmagns í líkamanum.

  Astaxanthin

  Astaxanthin er eitt öflugasta andoxunarefnið sem uppgötvað hefur verið, en það er talið allt að 550 til 1000 sinnum öflugra en Alpha-tocopherol sem er eitt algengasta form E-vítamíns. Það er aðallitarefni sjávarskeldýra og er bleikt/appelsínugult á lit. Það finnst einnig í laxi og nokkrum tegundum fugla, til dæmis flamengóum ásamt því að myndast í ýmsum þörungum.

  Astaxanthin geymir öfluga geislavörn og því gagnlegt í baráttunni gegn skaðlegum áhrifum sólar á húðina. Rannsóknir hafa sýnt fram á að astaxanthin virki líkt og svampur sem sogi í sig útfjólubláa geisla og jafnframt er talið að það dragi einnig úr verkjum og bólgum í tengslum við sólbruna.

  Omega-fitusýrur

  Omega-fitusýrur, sem skiptast í omega-3, -6 og -9, eru til margs gagnlegar því þær fyrirbyggja bólgu- og hjartasjúkdóma, hjálpa við þyngdarstjórnun, efla sjón og taugaboð til heila. Þær hjálpa líka við að viðhalda raka í húð og gera hárið mjúkt og glansandi. Fitusýrurnar fáum við aðallega úr fiski, eggjum, hnetum og fræjum en flestir borða ekki nóg af þeim, sérstaklega ekki af omega-6 og -9.

  MSM

  MSM, sem stendur fyrir methyl sulfonyl methane, er brennisteinssameind sem fyrirfinnst í líkama okkar sem og í ýmsum fæðutegundum, til dæmis í spergil- og rósakáli.

  Brennisteinn eykur framleiðslu á bæði kollageni og keratíni í líkamanum en það eru efni sem eru nauðsynleg fyrir heilbrigða húð, hár og neglur. Það eykur styrkleika og þykkt á nöglum og hári ásamt því að hafa góð áhrif á húðina og hjálpa við að halda húðsjúkdómum á borð við exem, psoriasis og rósroða í skefjum. Það er því ekki furða að MSM hefur stundum verið nefnt fegurðarsteinefnið.

  Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum