2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Þegar blessuð boðefnin fara af stað

  Hláturinn léttir lífið, svefninn endurnærir og gráturinn veitir útrás. En hvað er það sem raunverulega gerist í líkamanum þegar mannfólkið hvílist, skemmtir sér eða líður illa? Jú, ýmis boðefni fara af stað og ná að breyta og gera upplifun okkar ríkulegri.

   

  Hvað gerist í líkamanum þegar við sofum?

  Á næturnar fer af stað endurnýjunarferli. Líkaminn leitast við að lækna, gera við og bæta sig. Í raun er allt á fullu. Börn vaxa til að mynda á nóttinni en ekki á daginn. Svefninn er líkn og hvíld. Vöðvarnir þarfnast slökunar og flókið samspil svefnhormóna, virknihormóna og boðefna verður til þess að fólk vaknar sjálft þegar það hefur hvílst nægilega. Hver og einn maður hefur sína eigin líffræðilegu klukku og hún stillir sig eftir formi hans. Efnið sem knýr klukkuna er boðefnið melatónín en framleiðsla þess liggur niðri í ljósi en eykst í myrkri. Melatónín er slakandi og ýtir undir svefn en þess vegna er líkaminn tilbúinn til hreyfingar yfir daginn og heilinn hnífskarpur. Þegar rökkrið sígur yfir hægist á starfseminni. Þess vegna er betra að sofa í myrku herbergi og sumar árstíðir eru hentugri en aðrar til að til dæmis vakna snemma og fara út að hlaupa eða lyfta lóðum í ræktinni. Meðan birtan er meiri eiga flestir auðveldara með að reyna á sig fyrst á morgnana en á veturna er hádegið besti tíminn fyrir ræktina.

  Margir kannast við að eiga erfitt með að vakna á morgnana og það er eðlilegt, morgunblundurinn er nefnilega ekki bara notalegur heldur líka mikilvægur. Í heilanum eru stöðvar sem láta vita þegar tímabært er að fara á fætur. Meðan við sofum flæðir nokkurs konar vökvi um heilann og gerir við frumurnar. Fari fólk of snemma á fætur þ.e.a.s. áður en heilinn hefur lokið þessu ferli getur það valdið höfuðverkjum og slappleika. Þeir sem þjást af mígreni kannast vel við höfuðverkjarköst að morgni til. Þótt farið sé í rúmið að kvöldi án nokkurra einkenna vakna þeir með sáran höfuðverk sem hverfur ekki fyrir eftir góðan nætursvefn.

  Þótt sennilega fáist ekki allir til að taka undir það að morgnarnir séu bestir fyrir kynlíf er það engu að síður svo samkvæmt rannsóknum. Því betur sem líkaminn er hvíldur því tilbúnari er hann fyrir fullnægingu. Bæði karlar og konur reyndust við mælingar fá sterkustu fullnæginguna á morgnana og voru fljótari að fá það.

  AUGLÝSING


  Nú orðið er sambandið milli aukinnar matarlystar yfir daginn og svefnleysis velþekkt. Vitað er að þeir sem ekki ná nægum svefni og hvíld borða meira og sækja að auki frekar í sætan og feitan mat. Einnig er sagt að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagsins og hann er það í mörgum skilningi. Hormónið ghrelin sem stýrir matarlyst og næringarþörf er í hámarki á morgnana eftir föstu næturinnar og þeir sem borða um leið og þær vakna virkja þetta mikilvæga hormón. Þeir finna því síður fyrir svengd í tíma og ótíma og finna fyrr fyrir seddutílfinningu þegar þeir borða. Þeir sem eru lystarlausir á morgnana ættu þess vegna að borða eitthvað, þótt það sé lítið, enda skilar það sér þegar líða tekur á daginn.

  Hvað gerist í líkamanum þegar við hlæjum?

  Blessuð vellíðunaboðefnin fara af stað. Þegar menn hlæja losnar úr læðingi mikil orka og magavöðvarnir fá einstaklega góða æfingu. Menn geta hlegið svo mikið og hastarlega að þeir verði máttlausir af hlátri en, líkt og eftir góðan sprett á hlaupabrautinni, finna þeir eftir á fyrir því að orkan er meiri og afköstin aukast. Yfirmenn á vinnustöðum ættu því að reyna að koma starfsfólki sínu til að hlæja eins oft og þeir geta því það bæði léttir og bætir andrúmsloftið og eykur afköstin. Brandararnir sem ganga viðstöðulaust manna á milli á Netinu eru því hugsanlega afkastahvetjandi fremur en letjandi. Það er vert að hafa það í huga að senda brandarana áfram fremur en að sitja að þeim einn.

  Það gerist eitthvað þegar líkaminn losar vellíðunarboðefni við hlátur, skvaldur og léttleika sem auðveldar meltingu. Það er því góð hugmynd fyrir fjölskyldur að koma saman yfir kvöldmatnum á hverju kvöldi, jafnvel dúkleggja borð, spila rólega tónlist og tala saman. Maturinn þarf ekki að vera flókinn eða margréttað. Hér eru það félagslegu tengslin sem myndast yfir mat sem skipta máli. Að borða liðkar um málbeinið og vekur ánægjutilfinningu hjá flestum og við matarborðið eiga því allir auðveldara með að brydda upp á samræðum og spjalla. Í öllum tilvikum er hægt að tala um matinn sem á borðum er.

  Vellíðunarboðefnin hafa áhrif á fleira, þau draga úr sársauka, minnka kvíða og áhyggjur, veita slökun og draga úr áhrifum streituhormóna.

  Hvað gerist í líkamanum þegar við hreyfum okkur?

  Hreyfing vinnur gegn streitu og vanlíðan. Vellíðunarboðefnin sem líkaminn losar við áreynslu vinna gegn áhrifum streituhormóna og meðan fólk hreyfir sig á það erfitt með að dvelja í huganum við eitthvað annað eins og t.d. fjárhagsáhyggjur. Rannsóknir hafa einnig sýnt að hreyfing dregur úr stoðkerfisverkjum og styrkir ónæmiskerfið. Aukinn styrkur og liðleiki eflir svo sjálfstraust því fólk fer að treysta sér betur til að takast á við dagleg verkefni og krefjandi aðstæður. Það er ljóst að með reglulegri hreyfingu og hollu mataræði getur hver og einn haft mikil áhrif á heilsu sína, bæði líkamlega og andlega. Heilsurækt og styrking líkamans er góð meðferð fyrir sjúklinga ekki síður en forvörn fyrir heilbrigt fólk. Hver og einn einstaklingur ætti að vera meðvitaður um hversu mikið hann hefur sjálfur að segja um eigin heilsu.

  Hvað gerist í líkamanum þegar við stundum kynlíf?

  Einn hluti þess að lifa heilbrigðu lífi er að rækta náin samskipti. Ótal rannsóknir sýna að lífsgæði þeirra sem eiga í góðu nánu sambandi eru almennt meiri en hinna. Þeir halda einnig betri heilsu lengur fram eftir ævinni. Einn hluti þess að skapa nánd í parasambandi er kynlíf. Það veitir ánægju, gefur fólki færi á að fjölga sér óski það þess og styrkir ónæmiskerfið. Immunoglobulin A er þáttur í ónæmiskerfinu sem leikur stórt hlutverk í að halda slímhúð heilbrigðri. Þeir sem stunda kynlíf tvisvar í viku hafa mun meira af þessu efni í blóði og munnvatni en hinir sem gera það sjaldnar. Þetta efni vinnur gegn sýkingum í kynfærum, munnholi, nefi og annars staðar þar sem slímhúð er og myndar m.a. góða vörn gegn kvefi.

  Hjartsláttur eykst við kynferðislega örvun og nær hámarki við fullnægingu. Þetta hefur sömu áhrif og góð líkamsrækt en um leið losar líkaminn vellíðunarboðefni sem slakar á vöðvum, léttir sársauka, lækkar blóðþrýsing og bætir svefninn. Kynlíf er einnig mjög góð leið til að létta á streitu og minnka streituhormón í líkamanum og nokkrar rannsóknir hafa sýnt að það bætir minni, einkum hjá konum. Ástæðan er líklega sú að með aukinni slökun og betri svefni batnar einbeitingarhæfni flestra.

  Margt bendir einnig til að gott kynlíf ýti undir sjálfstraust bæði karla og kvenna. Samkvæmt rannsókn Keith Levitt, Christopher Barnes, Trevor Watkins og David T. Wagner hefur virkt kynlíf áhrif á afköst og hæfni manna á vinnumarkaði. Þeir birtu grein um niðurstöður sínar í Journal of Management undir yfirskriftinni From the Bedroom to the Office: Workplace Spillover Effects of Sexual Activity at Home. Þar tala þeir um hvernig kynlíf getur aukið lífshamingju manna bæði líkamlega og andlega og skapað aukna vinnugleði og betri virkni á vinnustaðnum.

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum