2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hið smáa setur svip á heimilið

  Skemmtilegir smáhlutir geta oft breytt miklu þegar verið er að lífga upp á eða breyta svolítið til á heimilinu.

  Oft nægir líka, þegar menn eru orðnir óskaplega þreyttir á einhverju herbergi, að setja þar einhvern nýjan, fallegan hlut og það er eins og allt lifni að nýju.

  Málmhlutir ýmiss konar eru mikið í tísku núna, enda áferðin mjög fjölbreytileg og litirnir fallegir. Silfurkrúsir, -blómapottar, kertastjakar, könnur og bakkar eiga alls staðar við. Hið sama gildir um messing, járn, stál og kopar. Eitt það besta við glansandi málma er að þá má para saman við hvaða viðartegund sem er og hann getur verið bæði rómantískur, gamaldags og straumlínulaga, formfagur og nýtískulegur.

  Eitt það besta við glansandi málma er að þá má para saman við hvaða viðartegund sem er og hann getur verið rómantískur, gamaldags  eða nýtískulegur.

  Baðvörur hafa þann kost að gefa slökun og vellíðan en þær geta verið óskaplega fallegar líka. Ótal vörumerki sem bjóða upp á baðsalt, baðolíu, freyðibað, sturtugel og fljótandi sápur koma í fallegum umbúðum sem gaman er að stilla upp á baðherberjum.

  Ilmkerti í eru ómissandi í hvert herbergi að mati margra. Hægt er að velja lit og ilmtegundir allt eftir því hvar kertin eiga að vera.

  AUGLÝSING


  Raunar gera kertaljós umhverfið ævinlega hlýlegra og rómantískara. Þau lýsa einnig upp gler á mjög fallegan hátt og á flestum heimilum eru til margvísleg teljósaglös. Það er gaman að raða þeim saman tveimur og þremur þá skapa þau skemmtilega heild.

  Flestar manneskjur hafa í sér eitthvert safnaraeðli. Stundum verða söfn til fyrir tilviljun eins og þegar einhver fær að gjöf kanínustyttu og smátt og smátt fjölga þær sér. Í öðrum tilfellum beinlínis ákveður manneskjan að fara að safna tilteknum munum.

  Það er gaman að stilla upp slíkum söfnum og margar leiðir til að leyfa þeim að njóta sín. Meðan safnið er lítið er hægt að koma því fyrir á kringlóttum dúk. Þá vekur það strax athygli og hver gripur nýtur sín vel. Sum söfn fara vel á hillu en önnur bak við glerhurð í skáp. Platta og diska er hentugt að hengja upp á vegg. Ein leið til að leyfa stóru safni að njóta sín er að flokka það, t.d. eftir stærð, lit eða lögun og dreifa því um heimilið.

  Ljósmyndir eru ómissandi hluti af lífinu. Allir foreldrar hafa gaman af að setja upp myndir af börnunum sínum og í sumum fjölskyldum eru til gamlar ljósmyndir. Það er gaman að taka einn vegg á heimilinu undir þessar myndir og raða þeim þá upp á fallegan hátt.

  Viðmiðunarreglur innanhússhönnuða eru að skapa ávallt ákveðnar viðmiðunarlínur. Til að mynda er hægt að teikna í huganum stóran ferhyrning á vegginn og byrja á að hengja upp við ystu brúnir hans og fylla síðan upp rýmið þar fyrir innan.

  Aðrir láta ævinlega efri brúnir rammana standast á í beinni línu og byrja síðan næstu línu í flútti við rammann fyrir ofan, svolítið eins og verið sé að skrifa í línustrikaða stílabók.

  Rammarnir geta síðan verið mismunandi að stærð og lögun en gott að skapa samt einhvers konar reglu t.d. að allir séu í sama lit eða allir úr tré eða málmi.

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is