2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hvert liggur leið?

  Allflestir spyrja sig reglulega hvert þeir stefni í lífinu, velta fyrir sér hvort þeir séu á réttri leið og ánægðir með þær ákvarðanir sem leitt hafa þá á þennan stað. Svörin við þessum spurningum eru ekki alltaf skýr og alls ekki auðvelt að komast að niðurstöðu. Mörgum finnst þeir þess vegna gersamlega týndir og áttavilltir. Það er hvorki óeðlileg né óalgeng tilfinning.

   

  Ef þú ert einn af þeim sem finnst hjólin snúast stjórnlaust og þig vantar styrkari hönd á stýri ættir þú að velta fyrir þér hvort þú látir aðra hafa of mikil áhrif á þig. Vissulega er það svo að ekki allir draumar okkar rætast. Margir þurfa að endurskoða eða minnka aðeins umfang sinna stærstu skýjaborga. Það er auðvelt og flestum reynist erfiðara að skilgreina hvar þeir sjálfir byrja og áhrif annarra enda.

  Foreldrar, vinir og systkini reyna iðulega að þrýsta okkur inn í eitthvert form eða inn á einhverja braut sem hentar þeim. Í sumum fjölskyldum er til dæmis nánast skylda að ljúka háskólanámi og í öðrum er listræn taug og þá er erfitt að skera sig úr. Ef þú ert ein/n af þeim sem nennir alls ekki að liggja yfir bókum eða gætir hvorki teiknað né skapað tónlist til að bjarga lífi þínu kann að vera erfitt að finna farveg innan um eintóma snillinga. Á unglingsaldri leyfa margir sér að fljóta með straumnum, fara einfaldlega eins að og vinirnir. Þeir eru ekki alveg vissir um hvað þá langar til og þá er þægilegt að gerast farþegi hjá öðrum en vandinn er að ekki er alltaf auðvelt að vinda ofan af slíku.

  En alls ekki ómögulegt. Mörg dæmi eru um að fólk fari í nám á efri árum, skipti algerlega um starf eftir áratuga vinnu innan tiltekinnar starfsgreinar eða taki að ástunda list eftir miðjan aldur. Ekkert er ómögulegt og því betur sem fólk þekkir sjálft sig því líklegra er það til að skapa sér hamingju og gleði. Hér eru nokkrar góðar staðhæfingar en vangaveltur um þær geta veitt betri innsýn í eigin þrár og langanir.

  AUGLÝSING


  Vertu besta útgáfan af sjálfum þér  

  Of oft láta menn sjálfa sig sitja á hakanum. Í dagsins önn er auðvelt að gleyma að maður þarf að taka sér tíma til að vera og njóta sín, ekki bara í sumarfríinu heldur á hverjum degi. Að vera maður sjálfur þýðir að þú ræktar áhugamál eða gerir eitthvað sem þú hefur verulega ánægju af. Það skiptir engu hvort það er að setjast niður með bók, fara í sund, dansa eða elda þriggja rétta kvöldverð. Skrifaðu hjá þér hvað veitir þér ánægju og njóttu þess oftar. Góðar vísbendingar um hvað nærir þig er líðan þín eftir að þú hefur ástundað þetta.

  Auk þessa er gagnlegt að skoða á hvaða stöðum þér líður best. Er heimilið þinn griðastaður eða kanntu best við þig á toppi fjalls? Er bókasafnið þinn vettvangur, skólastofan eða vinnustofa listamannsins? Ef svo er veltu þá fyrir þér hvernig þú getur endurskapað daglegt umhverfi þitt þannig að það endurspegli meira þessa staði.

  Að lokum skaltu skrifa niður fullyrðingar um þig frá öðrum sem í gegnum tíðina hafa farið í taugarnar á þér og glatt þig. Varstu sátt/ur við þegar þér var sagt að þú værir ákveðin/n og áræðin/n? Fór í taugarnar á þér þegar þú varst sögð ófélagslynd/ur og leiðinleg/ur? Ertu sammála þessum staðhæfingum? Nú ef þú ert ófélagslynd/ur, hvað er þá að því? Hugsanlega líður þér best einni/einum og hvers vegna þá að berjast við að skríða út úr skelinni bara fyrir aðra?

  Finndu út hvað endurnærði þig og hvað dró úr þér allan mátt í síðasta mánuði

  Við gerum ótrúlega margt á einum mánuði og ýmsu erum við fljót að gleyma. Ákveddu þess vegna í byrjun eins mánaðar að halda nákvæma dagbók yfir allt sem þú tekur þér fyrir hendur. Bættu við á hverju kvöldi vangaveltum um hvernig þér leið eftir hverja og eina framkvæmd. Ef þú tókst til í íbúðinni hvað gaf það þér? Fylltist þú orku og gleði þegar þú sást hvað allt var fínt eða varstu bara þreytt/ur? Ef þrifin gáfu þér gleði getur þú ráðið af því að þér líði best í skipulögðu og hreinu umhverfi, að þú þrífist ekki innan um drasl og óreiðu. Það er vitneskja. Hvað með bíóferðina eða leiksýninguna sem þú sást? Varstu glöð/glaður þegar þú komst heim? Opnaði hún hug þinn þannig að þú hafðir þörf fyrir að ræða um efnið við aðra?

  Allar athafnir okkar skilja okkur eftir með einhvers konar tilfinningar, vondar, góðar og allt þar á milli. Þessar tilfinningar segja þér ótalmargt um hvers konar persóna þú ert og hvað er líklegt til að veita þér ánægju í lífinu. Allt slíkt eru vísbendingar um hvaða stefna hentar þér og getur verið mikilvæg leið til að vinna markmiðssetningu út frá. Hvað gefur þér mesta orku? Hvenær var ég stoltust/astur af sjálfri/sjálfum mér? Það getur oft komið á óvart hvað kemur upp á yfirborðið í svona sjálfskoðun. Þú gætir til að mynda hafa fundið mesta ánægju í umgengni við aðra eða þegar þú varst að vinna að krefjandi verkefni í vinnunni, æfingar í ræktinni gætu hafa glatt suma mest og útivera með hundinn aðra.

  Hugsaðu smátt

  Einhverjum kann að finnast þetta öfugmæli þegar verið er að ræða um drauma og stefnu manns í lífinu en margt smátt gerir eitt stórt. Nú ættu verkefnin hér að ofan að hafa skilað árangri og þú með skýrari sýn á hvað nærir þig og veitir þér gleði. Þá er kominn tími til að velta fyrir sér hvernig þú fjölgar þeim stundum sem þú verð í athafnir af því tagi. Það þýðir að næsta skref er að fá færi á að koma einhverju þessu líkt inn í dagskrána á hverjum degi. Enginn getur séð af mörgum klukkustundum en allir ættu að geta fundið tíu mínútur hér eða korter þar. Spurðu þig hvað er það minnsta sem ég get gert til að fá meira af þessu?

  Til dæmis gæti verið gott að vakna hálftíma fyrr á morgnana og fara í göngutúr, lesa, skrifa eða teikna. Þegar fólk er úthvílt er sköpunargáfan mjög virk og hugurinn opinn fyrir nýjum áhrifum. Enginn skrifar skáldsögu á korteri en það er hægt að setja saman góða bloggfærslu, stöðuuppfærslu á Facebook eða hugleiðingu í dagbókina. Að rissa upp mynd af barninu þínu sofandi eða því sem þú sérð út um gluggann gerir sama gagn, síðan má halda áfram að vinna að þessu næstu morgna. Ef þú hefur komist að því að þér hentar betur að hafa meira skipulag á hlutunum getur þú gefið þér þessar mínútur til að koma lagi á hlutina og fara yfir stundaskrá dagsins. Staðreyndin er nefnilega sú að vegurinn fram undan er sjaldnast fullkomlega beinn og bugðulaus. Það er ekki fyrr en menn aka af stað að þeir sjá fyllilega hvert hann liggur og um hvers konar landslag. Þess vegna er best að halda af stað og halda áfram þótt hægt fari.

  Leggðu mat á stuðning þinn

  Enginn er eyland og allir hafa skyldum að gegna gagnvart öðrum. Við vitum að við þurfum að ljúka tilteknum verkefnum og gefa af okkur í ákveðnum mæli. Veltu fyrir þér hvar og frá hverjum þú getur fengið stuðning til að fá að njóta oftar og meira þess sem gefur þér ánægju. Það hjálpar einnig að ræða um drauma sína við aðra, nána vini, fjölskyldu eða félaga. Þeir geta oft gefið góð ráð, leiðbeint manni áfram og einnig rétt fram hjálparhönd ef þig vantar pössun eða afleysingu frá einhverjum skyldum. Mörgum hættir til að þegja og reyna að bera byrðarnar einn en það getur hreinlega endað í kulnun. Flestir komast líka fljótt að því þegar þeir opna sig um þörf sína fyrir aðstoð að þeir fá meiri og betri stuðning en þeir áttu von á.

  Það er einnig mikilvægt skref í átt að yfirsýn yfir eigið líf og skilning á sjálfum sér að vita hvar þú átt stuðnings von og hvers eðlis hann er. Sumir eru frábærir hlustendur og ráðgjafar meðan aðrir eru þeir sem gera eitthvað til að sýna væntumþykju sína. Ekki ætlast til annars af öðrum en þeir geta veitt. Ef þú gerir kröfur á einhvern og hann getur ekki uppfyllt þær ertu að gerast sek/ur um að troða viðkomandi í mót sem hann passar ekki í og stendur þar með í vegi fyrir að hann fái notið sín fyllilega í lífinu.

  Ekki vera hrædd/ur við að deila jafnvel þínum gölnustu hugmyndum. Hver veit, sá sem þú velur er kannski sá sem getur gert hana raunhæfa og framkvæmanlega. Ef þú þekkir einhvern skipuleggjanda eða svo lausnamiðaðan að ekkert virðist honum ómögulegt farðu þá til hans strax í dag og fáðu hjálp við að koma þér af stað. Mundu einnig að þótt þú farir eftir öllum þessum ráðleggingum, vinnur vinnuna þá er ekki þar með sagt að þér finnist strax að allt hafi opnast og sé nú morgunljóst. Það kann vel að vera að þér finnist þú svolítið týnd/ur eftir sem áður. Sú tilfinning hverfur hins vegar smátt og smátt ef þú heldur þig við efnið og áfangastaðnum verður náð fyrr eða síðar.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is