2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Sörur og kokteilar árlegur viðburður með vinkonum fyrir jól

  Óhætt er að segja að Berglindi Guðmundsdóttur sé margt til lista lagt. Hún er vinsæll matarbloggari og eigandi vefsíðunnar GulurRauðurGrænn&salt, grgs.is, og gaf nýverið út sína þriðju matreiðslubók. Hér gefur hún lesendum Vikunnar uppskrift að ljúffengum Snickers-ís og Jóla Rocky Road-bitum.

   

  „Mér finnst mjög gaman að fá pakka,“ segir Berglind aðspurð um hvað henni finnist skemmtilegast við jólin.

  „Ég veit að eftir því sem maður fullorðnast á maður að segja að það sé að gefa gjafir og jú, það er gaman, en nei, mér finnst enn þá mjög gaman að fá pakka. Sérstaklega pakka sem hitta í mark. Til að vera alveg viss um að ég fái að minnsta kosti einn þannig kaupi ég pakka fyrir sjálfa mig sem ég veit að slær í gegn. Annars er ég svo sem ekkert rosalega flókin þar, góðar bækur hitta alltaf í mark.“

  Mynd / Hallur Karlsson

  AUGLÝSING


  Berglind segist hafa byrjað að baka í kringum tíu ára aldurinn. „Ég man einmitt eftir því þegar ég bauð vinkonu minni heim í rúnstykki sem ég hafði bakað. Þau voru grjóthörð; harðari en steinn. En einhvers staðar verður maður víst að byrja.“

  Berglind stofnaði vefsíðuna grgs.is árið 2012 og segir margar uppskriftir standa upp úr eftir þau sjö ár sem síðan hefur verið í loftinu. Nú hefur hún dregið vinsælustu uppskriftirnar saman og sett þær í bók. „Í byrjun nóvember gaf ég út þriðju matreiðslubókina mína, Allra vinsælustu uppskriftir Gulur, rauður, grænn & salt frá upphafi. Í henni eru, eins og nafnið gefur til kynna, þær uppskriftir sem standa upp úr, hafa verið prófaðar af lesendum og slegið í gegn. Nú er hægt að finna þær allar í einni fallegri og eigulegri bók.“

  Mynd / Hallur Karlsson

  Líklega verður því nóg að gera hjá Berglindi í kynningarstarfi fyrir bókina fyrir jólin. En skyldi hún eiga sér einhverjar sérstakar jólahefðir? „Aðdragandi jólanna er minn uppáhaldstími,“ segir Berglind.

  „Ég baka mikið með börnunum og við hlustum á jólalög. Við erum farin að kaupa jólatréð snemma í desember og skreytum það þá. Annars elska ég að rölta Laugaveginn á þessum árstíma og fá mér smárétti og jólaglögg. Svo býð ég á hverju ári stórum hópi vinkvenna heim til mín undir yfirskriftinni „Sörur og kokteilar“ þar sem við bökum geggjaðar sörur, drekkum kokteila, hlustum á jólalög og skemmtum okkur vel. Þessi stund er í miklu uppáhaldi.“

  Snickers-ís

  Mynd / Hallur Karlsson

  500 ml rjómi
  6 gerilsneyddar eggjarauður
  125 g sykur
  80 g dökkt súkkulaði
  80 g salthnetur, saxaðar
  4 Snickers, skorin í litla bita

  Þeytið rjómann þar til hann er næstum því fullþeyttur (ekki alveg). Hrærið eggjarauður og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði. Kælið lítillega.

  Bætið þeytta rjómanum og súkkulaðinu saman við eggjarauðurnar og hrærið. Bætið salthnetum og Snickers-súkkulaði varlega saman við með sleif. Látið plastfilmu í form og hellið ísnum þar í. Frystið í 8 klst.

  Jóla Rocky Road-bitar
  50 stk

  Mynd / Hallur Karlsson

  200 g rjómasúkkulaði
  200 g suðusúkkulaði
  25 g smjör
  1 dós af sætri mjólk (condensed milk)
  200 g Dumle-karamellur
  3 dl sykurpúðar
  1 dl pistasíuhnetur, saxaðar
  1,5 dl salthnetur

  Bræðið súkkulaðið og smjörið yfir vatnsbaði. Bætið sætu mjólkinni við og hrærið. Kælið lítillega. Skerið Dumle-karamellurnar og sykurpúðana í bita. Bætið hnetum, sykurpúðum og karamellu saman við súkkulaðið. Hrærið í stutta stund. Dreifið úr blöndunni svo hún sé um 2 cm að þykkt og hafið smjörpappír undir. Látið í ísskáp í nokkrar klukkustundir. Skerið í bita og njótið.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum