2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Mennt er máttur

  Nú á dögum er viðurkennt að hæfni mannsins til að læra minnkar lítið með árunum. Allir geta bætt við sig nýrri þekkingu og notið þess að takast á við ný viðfangsefni óháð aldri. Rannsóknir sýna jafnframt að þeir sem stíga út fyrir þægindaramman reglulega og reyna sig við eitthvað alveg nýtt eru líklegri en hinir til að halda andlegum kröftum langt fram á efri ár.

  Námskeið eru að því leyti frábrugðin hefðbundnu námi að oftast sækir fólk þau af einskærum áhuga. Flestir ætla sér fyrst og fremst að hafa bæði gagn og gaman af. En til þess að það megi verða er nokkuð sniðugt að hafa eftirfarandi atriði í huga áður en menn skrá sig í eitthvert nám:

  Kynntu þér námsefnið fyrirfram og athugaðu hvort það stenst væntingar þínar og hvort það sé byggt á viðurkenndum og góðum gögnum.

  Kynntu þér fyrirfram hvað námskeiðið kostar og einnig þær reglur sem gilda um endurgreiðslu.

  AUGLÝSING


  Reyndu að hafa uppi á einhverjum sem sótt hefur þetta tiltekna námskeið og spurðu hann spjörunum úr.

  Aflaðu þér upplýsinga um kennarann. Athugaðu að þótt viðkomandi sé mjög fróður í því fagi sem hann kennir er ekki öruggt að honum láti vel að miðla þekkingu sinni.

  Ef þú ætlar að afla þér viðbótarþekkingar á einhverju sviði er mjög mikilvægt að þú gerir þér grein fyrir því hvort þetta ákveðna námskeið henti til þess. Margir hafa lent í því að námskeiðinu er ætlað að kenna undirstöðuatriði sem þeir kunna fyrir og bæta því engu við þekkingu sína.

  Þann er gott að fræða sem sjálfur vill læra

  Þótt áhuginn og þekkingarþorstinn reki menn af stað á námskeið er ekki þar með sagt að þeir hafi lag á að nýta sér þá fræðslu sem þar fer fram. Of margir telja að til að ná tökum á námsefni nægi að sitja í tímum en það er yfirleitt ekki svo. Námskeið enda sjaldnast með prófum og kennarar gera ekki kröfu um að heimaverkefnum sé skilað. Það er nemandanum því í sjálfsvald sett hversu mikið hann leggur á sig og af hve mikilli natni hann vinnur. Flestir sem fara á námskeið eru í fullri vinnu og starfsorkan er oft lítil að loknum löngum og ströngum vinnudegi. Til að námskeiðið nýtist sem best er gott að hafa í huga að skipulag og ákveðinn agi geta fleytt manni langt. Eftirfarandi er því mikilvægt:

  Að gefa sér að minnsta kosti eina klukkustund til að undirbúa sig fyrir hvern tíma.

  Ef þú ert að læra einhvers konar handverk er ekkert mikilvægara til að ná tökum á nýrri tækni en þjálfun. Það margborgar sig að æfa réttu handtökin heima.

  Að lesa sér til um efnið víðar en í þeim bókum sem notaðar eru í kennslunni.

  Að skrifa hjá sér allar gagnlegar upplýsingar í tímum og fara yfir glósurnar þegar heim kemur.

  Að líta á þetta sem vinnu og taka á því í samræmi við það.

  Það er aldrei of seint að læra.

  Deildu þekkingunni

  Eitt af því sem er skemmtilegast við að læra er að menn geta miðlað þekkingu sinni áfram og beitt henni á öllum sviðum lífsins. Mörg rök hníga að því að ný hæfni og geta muni ávallt skila sér og þótt manneskja vinni við tölvur en kjósi að læra að hekla munu þeir hugsanaferlar og handahreyfingar sem hekl krefst nýtast henni í starfi. Ný þekking þjálfar heilann, opnar nýja sýn og hjálpar manneskjunni að finna betri leiðir til að vinna starf sitt.

  Deildu þess vegna með öðrum því sem þú hefur lært og gerstu jafnvel kennari eða lærifaðir annarra. Það er einstaklega skemmtileg leið til að kynnast faginu betur og skynja það frá nýju sjónarhorni. Allir ættu því að einsetja sér að læra eitthvað nýtt alla ævi hvort sem þeir kjósa að tileinka sér árlega nýja þekkingu, daglega eða vikulega.

  Æfingin skapar meistarann

  Alla nýja þekkingu þarf að æfa og eftir að námi lýkur er gott að halda þekkingu sinni við og bæta við hana með því nota hana. Við búum auk þess í samfélagi þar sem upplýsingar eru mjög aðgengilegar og á Netinu má nálgast myndbönd sem sýna ótrúlegustu hluti. Þekkingarþorsti og löngun til að fræðast fleytir fólk ákaflega langt og þau undirstöðuatriði sem það lærði á námskeiðum geta nýst til að ná fullkomnum tökum á hvaða viðfangsefni sem er. Hér eru nokkrar leiðir til að viðhalda þekkingu og auka hana einn og sjálfur:

  Lestu í minnsta kosti hálftíma á dag eitthvað um efnið.

  Hlustaðu á hljóðbækur.

  Fylgstu með bloggsíðum sem fjalla um áhugamál þín.

  Notfærðu þér Netið til að finna upplýsingar, myndbönd og fleira sem gagnast.

  Prófaðu að gera hlutina sjálfur, t.d. má finna kennslumyndbönd á Netinu í útsaumi, hekli, viðgerð á bílum, rafmagnstækjum og hvernig á að gera hlutina í tölvunni.

  Horfðu á TED-fyrirlestra. Þeir eru ókeypis, um fjölbreytileg málefni og það eru sérfræðingar sem tala.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is