2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Þrjár helstu ástæður þess að fólk skilur

  Niðurstöður nýrra rannsókna vísindamanna við háskólann í Utah sýna að þrjár ástæður eru algengari orsök skilnaða en aðrar.

   

  Skilnuðum fjölgar og flestir eiga að baki fleiri en eitt langtímasamband þegar þeir ganga í hjónaband. Margir telja að helsta ástæðan sé sú að fólk telji ekki lengur mikilvægt að láta reyna á sambandið. Nútímafólk sé fljótt að gefast upp og kunni lítið að meta umhyggjusemi, tryggð, þolgæði og heiðarleika. Meiru skipti að fólk geti skemmt sér saman og haft það gott. Nýlega voru gefnar út í Bandaríkjunum niðurstöður rannsókna vísindamanna við háskólann í Utah er sýna að þrjár ástæður eru algengari orsök skilnaða en aðrar.

  Fjölskylduráðgjafar telja að óöryggi og óraunsæjar væntingar ráði miklu um hvernig fólk hegðar sér í sambandi. Í mörgum tilfellum hangir fólk áfram í sambandinu þótt það sé óhamingjusamt vegna þess að það þorir ekki að fara. Skilnaður á sér oft langan aðdraganda og í ferlinu særir fólk hvort annað oft illa áður en loks kemur að því að það ákveður að fara. Nýlega komust menn að því að í mörgum tilfellum er hægt að segja fyrir um hvort tiltekið samband endist eða ekki, byggt á samskiptamynstri parsins.

  Skilnaður á sér oft langan aðdraganda og í ferlinu særir fólk hvort annað oft illa áður en loks kemur að því að það ákveður að fara.

  AUGLÝSING


  Þetta vakti forvitni rannsóknarteymis við háskólann í Utah og útbúinn var spurningalisti með opnum spurningum sem sendur var út til ótal para sem höfðu verið í sambandi lengur en í sjö ár en nýlega skilið til að komast að hvað hefði ráðið mestu um að þeir hefðu ákveðið að slíta sambandinu og hvað hefði valdið því að þeir héldu út þó þetta lengi. Sum svörin staðfestu það sem áður var vitað en önnur komu á óvart.

  1. Persónuleiki makans

  Langflestir sögðu að ákveðnir eiginleikar í fari makans réðu mestu um að þeir ákváðu að skilja en á sama hátt hefðu kostir hans haldið þeim við efnið þetta lengi. Meðal þeirra persónueinkenna sem voru nefnd voru sjálfselska, einsýni, þrjóska og lítill vilji til að gera málamiðlanir. Margir kvörtuðu einnig undan að makinn hefði ekki lagt sig fram um að halda sambandinu gangandi og finna leið til að skapa sameiginlegan grundvöll til að njóta lífsins saman.

  1. Svik

  Framhjáhald og trúnaðarbrestur var næstalgengasta ástæða þess að fólk ákvað að skilja. Ekki var í öllum tilfellum um framhjáhald að ræða, stundum sagði fólk að makinn hefði logið að því eða ekki gefið því rétta mynd af tilteknum aðstæðum. Þetta gat tengst peningamálum, stöðu fjölskyldunnar eða samskiptum við aðila utan sambandsins.

  1. Fráhvarf eða hörfun

  Að hafa vaxið hvort frá öðru er þriðja algengasta ástæða þess að fólk ákveður að slíta hjónabandi eða sambúð. Oft leggur fólk upp með að makinn eigi sömu drauma og þrár og oft er það svo. Manneskjur breytast og forgangsröð þeirra um leið. Flestir eru sammála um að það að verða foreldri sé afgerandi þáttur hvað það varðar og ekkert verði eins eftir að barn komi í heiminn. Ef makinn fylgir ekki sama mynstri og þú hvað þetta varðar getur það orðið til þess að þið áttið ykkur á að þið stefnið í mjög ólíkar áttir. Hjón geta einnig tapað hvort af öðru einhvers staðar á lífsleiðinni. Makinn fær áhuga á einhverju sem höfðar ekki til þín og líf hans fer að snúast um það. Þetta getur valdið því að gjá myndast og ef ekkert er að gert fer annar aðilinn eða báðir að draga sig í hlé. Hann verður fráhverfur maka sínum og sambandið kólnar. Það er oft mjög erfitt að snúa til baka úr slíku kulnunarástandi og oft kýs fólk frekar að fara en halda áfram að reyna að finna sambandinu farveg.

  Það er hins vegar alltaf erfið ákvörðun að slíta sambandi. Oft er að baki mikil tilfinningaleg og fjárhagsleg skuldbinding og margir telja að með því að fara tapi þeir því sem þeir hafa lagt í sambandið. Það er erfitt að hafa lagt sig allan fram en þurfa samt að horfast í augu við að manni hafi mistekist. Helstu ástæður þess að fólk heldur saman eru hins vegar tilfinningaleg nánd, sameiginlegir draumar, góð vinátta og stuðningur.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is