2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hugsar sjaldan um hvað öðrum finnst

  Listakonan María Sif Daníelsdóttir, eða Mæja eins og hún er alltaf kölluð, segist óhrædd við að blanda saman litum og mynstrum og sjaldan hugsa um hvað öðrum finnst. Hún gangi mikið í samfestingum og þægilegum kjólum og velur strigaskó fram yfir hæla.

   

  Fullt nafn: María Sif Daníelsdóttir
  Aldur: 45
  Áhugamál: Náttúruvín, strigaskór, hönnun og eiginlega öll sköpun í hvernig formi sem hún kemur.
  Besta lykt í heimi? Af nýslegnu grasi, lyktin þegar maður byrjar að spreyja með nýjum brúsa og lykt af góðu náttúruvíni.
  Þægindi eða útlit? Bæði. Ég er alltaf í þægilegum fötum.
  Hver er skyldueignin í fataskápinn, að þínu mati? Leðurjakki og flott húfa
  Hvers konar flíkum fellur þú oftast fyrir? Samfestingum.
  Hvað finnst þér skemmtilegast að kaupa? Strigaskó.
  Hvaða flík er leiðinlegast að máta? Gallabuxur svona í seinni tíð. Er dálítið týnd í því núna.
  Starfsheiti: Listakona. Ég hef verið að mála í mörg ár, bæði málverk sem ég hef selt sjálf og í Gallerí List. Svo hef ég málað nokkra veggi í Reykjavík og í Hafnafirði. Þetta er algjörlega mín ástríða og ég hef ekkert val um að mála ekki. Ég verð bara að gera það. Svo er ég náttúruvínsnörd og þjónn á Skál! á Hlemmi Mathöll. Ég elska Hlemm og miðbæinn. Þar fæ ég útrás fyrir félagslegu hliðina og orkuna og að brasa í vínum og mat. Veitingabransinn og allt stússið í kringum hann er hin ástríðan mín. Listin og veitingabransinn er gott kombó fyrir mig, ég er innan um margt fólk á Skál og svo loka ég mig af og mála þess á milli og er þá í eigin heimi.

  „Listin og veitingabransinn er gott kombó fyrir mig…“

  Hvað einkennir þinn stíl?

  Ég er mikið í samfestingum og þægilegum kjólum og oft með stór og gyllt gleraugu sem eru retro-gleraugu frá Sjón. Þau eru gullfalleg og ég held að þau séu frá árinu 1981. Ég er óhrædd við að blanda saman litum og mynstrum og ég hugsa sjaldan um hvað öðrum finnst. Ég er alltaf í Nike-skóm en ég á mikið af þeim og eitt par af hælum. Ég held ég hafi farið á hæla einu sinni á þessu ári.

  Í hvernig fötum líður þér best?

  Samfestingum. Ég fer reglulega í Húrra Reykjavík og næ í nýjan samfesting. Það er svo auðvelt að dressa þá upp og niður og nota við alls konar tilefni. Svo finnst mér best að vinna í samfestingum, bæði þegar ég er að þjóna og mála.

  Hver finnst þér fallegasti fataliturinn?

  AUGLÝSING


  Ég er mjög litrík. Er mikið fyrir mynstur og alla liti en ég klæði mig aldrei í rautt eða brúnt.

  Er einhver flík eða fylgihlutur efst á óskalistanum þessa dagana?

  Nei, í rauninni ekki. Ég er alltaf að sjá eitthvað á þeim síðum sem ég fylgi en það er fljótt að breytast. Mig langar samt alltaf í strigaskó.

  Í hvaða búðum verslar þú helst föt og fylgihluti?

  Mér finnst ekki mjög gaman að þræða búðir. Ég kaupi eiginlega öll mín föt í Húrra; það er svo gott að vera búin að finna sína búð og þurfa ekki að fara út um allt. Mér leiðist mjög að fara í verslunarmiðstöðvar og mér finnst geggjað að Húrra sé í miðbænum. Ég þekki merkin og stærðirnar þar og veit að hverju ég geng. Ég fer inn og finn alltaf eitthvað og fer út rosa glöð. Fylgihlutir koma héðan og þaðan; ég spái ekki mikið í þá, ef ég á að vera hreinskilin. Ég hef ekki gert mikið af því að versla í netverslunum. Nema þá kannski Nike-skó.

  Nýjasta í fataskápnum? Þessi græni og guli jakki frá Mads Nørgaard sem ég keypti í Húrra fyrir nokkru síðan.

  Uppáhaldsfylgihluturinn? Ég hef verið með sama hauskúpuhálsmenið síðan 2010 sem ég keypti í ferð sem ég fór í til London með mömmu og systrum mínum. Ég er búin að týna því tvisvar en það fannst í bæði skiptin.

  Uppáhaldsflíkin? Glimmerpallíettujakki sem ég fann í second hand-búð í Amsterdam.

  Flíkin með mesta tilfinningalega gildið? Þessi gamli leðurjakki sem ég er búin að eiga í mörg ár. Svo fékk ég á hann merki frá uppáhaldsveitingastaðnum mínum í Ósló, Brutus, sem vinir mínir eiga.  Núna er hann meira rokkaður sem er enn þá betra.

  Furðulegustu kaupin? Þessi jakki úr H&M í Stokkhólmi sem er eins og lúðrasveitarjakki. Ég varð að kaupa hann en hef svo aldrei skilið hann síðan. Mér þykir samt vænt um hann.

  Myndir / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum