2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hvíta skyrtan sem fer aldrei úr tísku

  Að festa kaup á flík sem hentar við öll tækifæri er sannarlega hægt að kalla góð kaup. Hin klassíska hvíta skyrta fellur fullkomlega undir það og er ein af þeim flíkum sem er algjörlega ómissandi í fataskápinn.

   

  Hvíta skyrtan er tákn sjálfstæðis, auðæfa og glæsileika. Það kemur því ekki á óvart að hún verði fyrir valinu hjá mörgum konum við hin ýmsu tækifæri, til dæmis á mikilvægum dögum starfsferilsins.

  Fyrirsætan Gigi Hadid töff í oversized skyrtu.

  Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar fest eru kaup á einni slíkri

  • Ef þú ert brjóstastór þarf að passa að kaupa skyrtu í stærðinni fyrir ofan þína venjulegu svo ekki gapi á milli talnanna þegar skyrtunni er hneppt.
  • Best er að kaupa skyrtu með tölum í hvítum eða öðrum ljósum, hlutlausum lit. Þannig eykur þú líkurnar á að geta notað skyrtuna í lengri tíma.
  • Ef keypt er hvít skyrta undir þrönga dragt þá mælir stílisti með að kaupa skyrtu sem er í raun samfella svo allt sé slétt og fellt undir buxunum.
  • Svo er skemmtileg hugmynd að ná sér í hvíta skyrtu úr herradeildinni því oftast nær er hún þá aðeins síðari og víðari. Það er smart og töffaralegt að klæðast þröngum gallabuxum eða leðurbuxum við og girða skyrtuna einungis að framan og hafa hana lausa að aftan.

  Hvít skyrta og leðurbuxur, getur varla klikkað.

  Ýmsir notkunarmöguleikar

  AUGLÝSING


  Við höfum sjálfsagt séð óteljandi útgáfur af því hvernig hvíta skyrtan er notuð. Margar tískufyrirmyndir hafa í gegnum árin notað hvítu skyrtuna sem „go to-flíkina“ þar sem það er svo auðvelt að klæðast henni á mismunandi vegu.

  Á Óskarsverðlaunahátíðinni 1998 klæddist leikkonan Sharon Stone hvítri  Gap-skyrtu úr fataskáp þáverandi eiginmanns síns. Skyrtuna girti hún svo ofan í lillað Veru Wang-pils. Þessi samsetning þykir á mörgum helstu tískumiðlunum ein af þeim eftirminnilegustu á Óskarsverðlaunahátíðinni.

  Díana prinsessa var líka mikill aðdáandi hvítu skyrtunnar. Hér má sjá hana klæðast einni slíkri sem hún girti ofan í mittisháar gallabuxur.

  Hönnuðurinn Caroline Herrera er þekkt fyrir að nota hvítu skyrtuna sem sinn einkennisklæðnað og skreytir hún sig svo með íburðarmiklum hálsfestum.

  Líkamsræktarfrömuðurinn og leikkonan Jane Fonda notar hvítu skyrtuna mikið. Hún setur kragann oft upp og hefur þrjár efstu tölurnar óhnepptar sem gefur kvenlegt en á sama tíma voldugt yfirbragð.

  Texti / Arna Atladóttir (Instagra:@stilisti_maelir_med)

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum