2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Leðurjakkinn – Tákn uppreisnarseggsins

  Leðurjakkar eru nú á dögum til í margvíslegum litum, sniðum og með margskonar áferð. Lengi framan af voru þeir hins vegar tákn hins sterka einfara sem lét ekki gildi og norm samfélagsins þvælast fyrir sér ef þau stönguðust á við hans eigin sýn á réttlæti.

  Þessi ímynd er ekki hvað síst tilkomin vegna kvikmynda um slíka menn en upphaflega var leðurjakkinn hugsaður sem hlífðarflík.

  Hjartaknúsarinn James Dean var oft í leðurjakka.

  Fyrstu leðurjakkarnir voru sniðnir á flugmenn í fyrri heimsstyrjöldinni.

  AUGLÝSING


  Þeir voru þykkir og óþjálir, brúnir að lit og með vösum til að geyma kort, áttavita og annað sem menn gátu þurft að nota yrðu þeir skotnir niður.

  Jakkarnir urðu til vegna þess að leðrið var brunaþolið og gat hugsanlega varið flugmanninn eldslogum nógu lengi til að komast út úr vélinni eftir brotlendingu.

  Þessir jakkar kölluðust „Bomber Jackets“-sprengjuflugvélajakkar og eru safngripir í dag. Fyrsta konan til að klæðast slíkum jakka var Amelia Earhart og nokkrar hugrakkar flugkonur fylgdu dæmi hennar.

  „Leðurjakkinn hefur þó mildast til muna á síðari árum og ólíklegustu menn og konur farnar að klæðast leðri.“

  Þegar Amelía hvarf yfir Kyrrahafinu 2. júlí 1937, meðan á tilraun hennar til að fljúga fyrst kvenna ein hringinn í kringum hnöttinn, tóku framsæknar konur upp klæðaburð hennar, hetju sinni til heiðurs. Fljótlega varð þó ljóst að létta þyrfti flugmannajakkann þannig að hann hentaði til hversdagsnotkunar.

  Jimmy Stewart.

  Jimmy Stewart klæddist einum slíkum í kvikmyndinni Night Passage og Gary Cooper sömuleiðis í For Whom the Bell Tolls og leðurjakkaæði greip um sig. Næst komu jakkar með skinnkraga líkir þeim sem Indiana Jones klæddist og um svipað leyti uppgötvuðu mótorhjólamenn að leðrið er fyrirtaksvörn ef þeir hljóta byltu. Marlon Brando varð fulltrúi þessa hóps í hinni gífurlega vinsælu The Wild One og fast í kjölfarið fylgdi James Dean í Rebel Without a Cause.

  Rokkið og leðurjakkinn

  Amelia Earhart tók sig vel út í sínum leðurjakka.

  Rokkkynslóðin var fljót að grípa þessa tísku og The Fonz í sjónvarpsþáttunum Happy Days klæddist ekki öðru. Þeir þættir voru framleiddir í byrjun áttunda áratugarins en áttu að gerast á árabilinu 1950-1960. Jakki þessarar frægu persónu er nú geymdur í Smithsonian-safninu. Konur fundu fljótlega hörkuna og töffaraskapinn sem leðurjakkinn bókstaflega geislaði af og þær ákváðu að engin ástæða væri til að leyfa strákunum einum að njóta. Þær konur sem kallaðar voru hnakkaskraut og sátu aftan við ástmenn sína á mótorhjólinu riðu á vaðið en síðan jókst sjálfstæði kvenna og þær færðu sig í ökumannssæti mótorfákanna. Honor Blackman klæddist leðri í hlutverki Cathy Gale í The Avengers en þar sást fyrsti grjótharði kvennjósnarinn.

   „Konur fundu fljótlega hörkuna og töffaraskapinn sem leðurjakkinn bókstaflega geislaði af og þær ákváðu að engin ástæða væri til að leyfa strákunum einum að njóta.“

  Uppreisnarhópar voru fljótir að kveikja á perunni og leðurjakkar, -buxur og -kápur urðu á næstu árum nokkurs konar einkennisklæðnaður þeirra sem af fúsum og frjálsum vilja kusu að lifa á landamærum hins viðurkennda samfélags. Þungarokkarar, mótorhjólagengi og pönkarar völdu sína gerð af leðurjökkum og klæddust þeim. Harðjaxlar eins og Richard Roundtree í hlutverki Shaft, Steven Seagal í flestum sínum myndum, Laurence Fishburne og Keanu Reeves í Matrix-myndunum og Brad Pitt í Fight Club klæðast allir leðurjökkum og bera þá vel.

  Gera verður mun á leðurjökkum sem framleiddir eru sem tískuvara og þeirra sem ætlaðir eru til hlífðar, eins og mótorhjólafatnaður, þótt harðjaxlaímyndin loði óneitanlega við þá líka. Leðurjakkinn hefur þó mildast til muna á síðari árum og ólíklegustu menn og konur farin að klæðast leðri. Fjölbreytnin hefur líka aukist og sumir leðurjakkar eru svo íhaldssamir í útliti að James Dean myndi áreiðanlega snúa sér við í gröfinni. Hið sígilda jakkasnið nýtur sín vel í leðri en fallegir renndir mittisjakkar með kínakraga eru skemmtileg endurgerð á gömlu mótorhjólajökkunum. Það snið býður upp á fjölbreytileika og svipmiklar viðbætur hér og þar, eins og krækjur, sylgjur og fleira. Þetta snið klæðir bæði konur og karla og nýtur sín í hvaða lit sem er.

  Kate Moss er mikill aðdáandi leðurjakka.

  Flugmannajakkinn hefur sömuleiðis verið framleiddur í margvíslegum tilbrigðum og leðurgerðum. Hið grófa nautsleður upphaflegu jakkanna hefur vikið fyrir mýkra og þynnra skinni og loðfóður er enginn nauðsyn lengur. Sennilega eiga allir orðið að minnsta kosti einn leðurjakka í fataskápnum sínum. Stundum er honum bölvað fyrir að vera óslítanlegur þegar tískan er honum andsnúin en alltaf kemur hann aftur og gaman að draga hann reglulega fram úr skápnum.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum