2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Lykilorðið var frelsi

  Sagan endurtekur sig í sífellu og að ekkert sé nýtt undir sólinni er speki sem margir taka undir. Ef horft er á tískuna er ekki hægt annað en að segja að þeir hafi nokkuð til síns máls. Áttundi áratugur síðustu aldar var þekktur undir heitinu hippatímabilið. Þá voru hugsjónir allsráðandi og ungt fólk meðvitaðra um þjóðfélagsmál en nokkru sinni fyrr.

   

  Allar verslanir í bænum voru þá fullar af þjóðlegum eða þjóðbúningalegum blússum. Hálsmálið var vítt og rykkt saman með teygju eða dregið saman með bandi. Púffermar og pífur gegnumgangandi og blúndur helsta skrautið. Í byrjun áttunda áratugarins voru slíkar blússur og mussur hátískan. Stúlkur í víðum blússum og sígaunapilsum voru hvarvetna á sveimi. Klæðnaðurinn átti ekki að vera eggjandi heldur frjálslegur og ekki hindra hreyfingar á nokkurn hátt.

  Konur í víðum blússum og sígaunapilsum voru hvarvetna á sveimi.

  Kvenréttindahreyfingin var sterk og ekki langt síðan Germaine Greer og fylgikonur hennar brenndu brjóstahaldara sína í táknrænni athöfn sem átti að losa konur undan þrælahaldi hjónabandsins. Frelsið var lykilorðið, frelsi undan höftum, venjum og siðum samfélagsins. Þess vegna var sjálfsagt að frelsast líka frá útlitskröfum og kynlífshöftum. Ástin var eðlilegur hluti af mannlegri tilveru og fólk átti að renna saman þegar löngunin greip það og í sundur aftur án ásakana, sárinda eða eftirsjár. Það var því ónauðsynlegt að draga fram línur líkamans eða undirtrika stór brjóst, flatan maga og mjó læri. Það var persónan sem skipti máli, þinn innri maður geislaði af kynþokka og líkaminn aðeins hylki. Saklaus og dásamleg heimssýn sem byggði á því að kærleikurinn sigraði allt.

  AUGLÝSING


  Síðan þá hefur tískan oft tekið sveiflur. Sjöl með kögri, leðurbelti með hangandi reimum sem bundin eru um mjaðmirnar, litríkir tóbaksklútar um ennið, skartgripir með náttúrusteinum, skór með þykkum botnum og ótal margt fleira hefur gengið aftur oftar en einu sinni og á sér kannski helst stað nú í hárböndum og höttum sem verða allsráðandi í sumar. En líkt og venjulega þegar afturgöngur eru á ferð skekkjast myndir á veggjum og veruleikinn skrumskælist. Víðar og sniðlausar blússur hippatímans eru nú gagnsæjar og ísaumaðar og blúndur notaðar til að undirstrika barminn á eggjandi hátt.

  Jane Fonda endurspeiglaði uppreisn hippanna.

  Í „pushup“-brjóstahaldara og gegnsærri blússu

  Brjóstahaldararnir sem Germaine og fylgikonur hennar brenndu þykja nú þarfaþing og fást með púðum, pushup, blöðrum og silíkonfyllingum. Víðu, síðu mussur hippatímans voru opnar í hálsinn en ekki flegnar. Nú á dögum er helst að sjá á stórstjörnum að ekkert sé of flegið og helmingur brjóstanna þurfi helst að gægjast upp úr hálsmálinu með hjálp pushup-brjósthaldara. Í sumar eru sandalar og opnir skór aðaltískan til að rauðlakkaðar táneglur fái að njóta sín sem best. Meðvitaðar hippastúlkur í byrjun áttunda áratugarins hefðu dáið fremur en að rauðlakka neglurnar að hætti mæðra sinna.

  Gallapils, gallajakkar og snjáðar gallabuxur eru einnig í tísku. Pils hippana voru oft saumuð úr gömlum buxum, stundum úr tvenns konar efnum og oft var saumað í þau blóm eða eitthvað annað skraut. Þá var verið að nýta gamlan fatnað og algengt að stúlkur saumuðu töskurnar sínar sjálfar. Klippt var burtu versta slitið úr fatnaðinum og bútarnir nýttir. Útsaumurinn var til að minna á boðskapinn um frið og kærleika á jörðu. Mjaðmabuxur voru líka aðalmálið í þá daga. Buxurnar hvíldu neðarlega á mjöðmunum og algengt að bómullarbolurinn sem klæðst var við næði ekki nema niður í mitti þannig að naflinn blasti við. Þess vegna þótti snjallt að gata og skreyta naflann. Núna kemur stærstur hluti fatnaðar á Vesturlöndum úr þrælaverksmiðjum á Indlandi, Taílandi og Taívan. Eyðsla og sóun var lengst af kjörorð tískunnar en nú eru farnar að heyrast raddir um að hamla beri gegn henni. H&M og fleiri stórir tískurisar boða endurnýtingu fatnaðar, endingarbetri efni og færri vörulínur yfir árið.

  Penar húsmæður máttu vera litaglaðar.

  Henna-málning í indverskum stíl var notuð til að skreyta líkamann og sumir kusu að húðflúra austurlensk tákn friðar, eilífðar eða andlegra krafta á fætur og hendur. Án efa var þetta undanfari þeirrar bylgju líkamsskreytinga sem er allsráðandi nú á dögum. Tattú hafa aldrei verið vinsælli.

  Ökklabrot og slök liðbönd

  Þykkbotna skór og sandalar voru hátíska hippatímans og þeir fyrrnefndu voru stórhættulegir. Því ber að fagna að nú á dögum eru íþróttaskór aðalmálið. Að vísu er hægt að fá þykkbotna íþróttaskó en almennt er skófatnaðurinn þó hentugri fyrir fætur en var á áttunda áratugnum. Ökklabrot voru algeng í þá daga og margar stúlkur enduðu með slök liðbönd vegna tíðra tognana, enda er vandi að stíga niður af gangstéttarbrún á skóm með tíu sentímetra þykkum botni án þess að misstíga sig.

  Hártíska kvenna á áttunda áratugnum gekk yfirleitt út á það að gera sem minnst fyrir hárið. Það var látið vaxa villt og um tíma var í tísku að greiða sér sem allra minnst. Hárlitur var aldrei notaður nema í grátt hár þeirra kvenna sem ekki voru tilbúnar að „eldast með reisn“ og leyfa náttúrunni að hafa sinn gang. Fegrunaraðgerðir voru einungis verkfæri hinna ríku og ákaflega óalgengar. Í dag vita sumar konur ekki hvernig hár þeirra er á litinn, svo oft og lengi hefur það verið endurskapað á hárgreiðslustofunni. Bótox, fylliefni og skurðhnífur lýtalæknisins eru allt verkfæri notuð jafnt af almenningi sem öðrum og að eldast með reisn hefur fengið allt aðra merkingu.

  Konur í karlmannlegum fötum urðu ekki tiltökumál.

  Eitt skilur þó örugglega á milli áttunda áratugar tuttugustu aldar og annars áratugar nýrrar aldar. Þá voru unglingar smátt og smátt að ná þeirri stöðu að verða sérstakur neytendahópur, nú eru þeir einn stærsti og öflugasti hópurinn og stór hluti fyrirtækja beinir markaðsetningu sinni fyrst og fremst að þeim. Sakleysi áttunda áratugarins fólst kannski aðallega í því að unglingar höfðu ekki þau fjárráð að þeir gætu keypt allt sem hugurinn girntist. Þess vegna voru krakkar á þeim árum kannski svona útsjónarsamir að nýta gömlu gallabuxurnar sínar. Þá tíðkaðist ekki að vinna með skóla eða að námsmenn ækju um á bíl.

  Fíkniefni og neysluhyggja

  Sumir telja einnig að neysla fíkniefna fylgi tískusveiflum og vissulega fylgdi það hippatímanum að víkka sjóndeildarhring sinn með neyslu alls konar fíkniefna. Hass var álitið hættulaust og jafnsjálfsagt og rauðvín í partíum hippanna. Það er enn á markaðanum en ofskynjunarlyfið LSD sem þótti flott þá er minna notað. Í staðinn er kókaín, amfetamín, E-pillur og ótal lyfjakokteilar aðrir auðfengnir á skemmtistöðum. Margir brenna sig á þessari tísku og fíknivandinn stækkar og stækkar.

  Bianca Jagger þótti afar smart á þessum tíma.

  Ungmenni nú á dögum eru sennilega sjálfsöruggari og ófeimnari en unglingarnir sem hófu blómabyltinguna. Hugsjónir og löngun til að breyta heiminum öllum til góðs er hins vegar markmið sem færri setja sér nú á tímum þótt að undanförnu hafi orðið vart afturhvarfs til betri gilda. Enn er krafan í samfélaginu samt að allir nái sem lengst, skapi sér frægð og frama á samfélagsmiðlum. Fegurð er metin ofar flestu öðru en ákaflega einsleit fegurð. Allar stúlkur eiga að vera með ljóshærðar, með stórar augabrúnir, þykkar varir, stór brjóst, kúlurass, grannar og í góðu formi. Ímynd sem mörgum reynist erfitt að sveigja sinn líkama í, jafnvel með hjálp brjóstapúða og fituflutninga.

  Ákveðin bylgja til andsvars við þessi plastlegu fegurðarmót hefur einnig risið upp. Konur berjast fyrir bættri líkamsímynd og meiri sátt við eigið útlit. Það er sannarlega afturhvarf til hugsjóna hippanna. En hvort okkur hafi tekist að komast nær því að höndla lífshamingjuna er álitamál en sennilega má búast við að umhyggja fyrir náttúrunni eigi eftir að aukast og aldrei að vita nema fleiri hugsjónir hippanna fái aukinn framgang.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum