2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Nokkrir stærstu áhrifavaldar tískusögunnar

  Við getum þakkað nokkrum framúrstefnulegum fyrirmyndum síns tíma þá staðreynd að við konur höfum frelsi til að klæðast því sem við viljum. Allt frá mínipilsum yfir í karlmannlegar dragtir og allt þar á milli. Hér má finna nokkra stærstu áhrifavalda tískusögunnar sem höfðu áhrif á það hvernig við höfum klæðst allar götur síðan.

  Óheflaður kynþokki

  Diane von Furstenberg var alltaf staðráðin í að gera meira en að njóta lífsins lystisemda í boði eiginmannsins og hefur löngum sagt að það sé henni einna mikilvægast í lífinu að skapa sínar eigin tekjur en fyrrum eiginmaður hennar var þýskur prins. Og það gerði hún heldur betur. Bundni kjóllinn hennar varð óendanlega vinsæll og hún er einn af áhrifamestu hönnuðum samtímans.

  Árið 1975 framleiddi hún 15.000 kjóla á viku og hönnuninni klæddust hinar ólíkustu konur á borð við Betty Ford og Gloriu Steinem. Og ástæðan fyrir vinsældunum var óneitanlega vegna þess að í honum leið konum eins og þær langaði að líða í miðri kynlífsbyltingu: kynþokkafullum og óheftum og kjóllinn varð táknmynd fyrir frelsi kvenna á þessum tíma. Bundni kjóllinn hennar Diane hentaði vel sem vinnuklæðnaður þar sem hann var bundinn þétt upp við líkamann en böndin voru leyst eftir vinnu til að mæta á diskótekið og ef tilefni gafst til var auðvelt að leysa hann með einu handtaki seinna um kvöldið. Kjóllinn varð flíkin sem gerði allt fyrir konuna sem reyndi að gera allt, svipað og konan sem stóð á bak við hönnun hans.

   Áhrifavaldurinn

  AUGLÝSING


  Claire McCardell er ekki nafn sem margir þekkja en það er henni að þakka að við konur fórum að klæðast ódýrari bómullarkjólum á sumrin og lágbotna ballerínuskóm. Hönnun hennar var gríðarvinsæl í gegnum seinni heimsstyrjöldina og kreppuna miklu og endurspeglaði breytta tíma og hlutverk kvenna í samfélaginu. Hún bauð upp á fatnað fyrir sterkar konur sem var lýsandi fyrir karakter þeirra og ekki skemmdi fyrir að fjárfesting í hönnun hennar kostaði ekki hvíturnar úr augunum. Tískuhönnun varð því loksins viðráðanleg fyrir hinn almenna borgara, þökk sé Claire.

  Claire McCardell.

  Ögrandi fyrirmynd

  Leikkonan Marlene Dietrich er ein af mestu áhrifavöldum mannkynssögunnar þegar kemur að tískunni. Hún tileinkaði sér reglulega mismunandi trend og var ein af allra fyrstu konunum mynduð í kjólfötum á fjórða áratug síðustu aldar. Hún klæddist gjarnan bindum og stórum blazerum, íburðamiklum loðfeldum og kvenlegum pilsum og karlmannlegum drögtum í bland. Hún var óhrædd við að ögra staðalímyndum um hvað þótti kvenlegt og smart.

  Marlene Dietrich.

  Fyrir hina útivinnandi

  Á níunda áratugnum, þegar konur kepptu við karla upp metorðastigann í viðskiptalífinu varð vöntun á fatnaði sem undirstrikaði metnaðinn og stöðu þeirra á vinnumarkaði. Árið 1984 kom á markað frá Donnu Karan fatalína sem bar nafnið Seven Easy Pieces, fatnaður sem konur gátu klæðst og verið í senn bæði kvenlegar og fagmannlegar á vinnustaðnum.

  Donna Karan kvartaði undan því að það eina sem hefði verið í boði áður en hún kom til sögunnar var að klæðast karlmannlegum drögtum eða allt of fínlegum kjólum sem hentuðu ekki þeim sem voru úti á vinnumarkaðnum. Konur klæddust nokkurn veginn eins og karlmenn og það vantaði allan kvenlegan þokka. Í fyrsta sinn í sögunni var hægt að fá fatnað fyrir konur sem gerði þær ekki karlmannlegar og gerði heldur ekki lítið úr þeim með sykursætri hönnun. Hún fyllti upp í plássið sem vantaði á milli teindóttu jakkafatanna og pífupilsa.

  Fatalínan hennar sendi öflug skilaboð og undirstrikaði konuna sem klæddist þeim en reyndi ekki að líkja eftir klæðnaði mannsins á skrifstofunni sem hún þurfti að standa uppi í hárinu á.

  Donna Karan.

  Pólitík og pönk

  Það varð mikil breyting á landslagi tískunnar á áttunda áratugnum, þegar glimmer og glamúrrokk sixtís-tímans rann sitt skeið þar sem David Bowie og Bítlarnir voru helstu tískufyrirmyndirnar. Í miðjum sviptingunum var breski fatahönnuðurinn Vivienne Westwood að byrja sinn feril.

  Hún byrjaði hann með því að reka verslunina SEX með kærasta sínum en þau hönnuðu rennilása, pinna, nælur og armbönd með pólitískum skilaboðum. Vivienne var rétt kona á réttum stað og gaf anarkistunum rödd innan hátískunnar. Hún blandaði köflóttu skotamynstri saman við gaddaðar hundaólar, skreytti allskyns fatnað með öryggisnælum og gerði hátískuvöru úr kynlífsklæðnaði.

  Vivienne Westwood.

  Táknmynd frelsis

  Fatahönnuðurinn Mary Quant mætti á sjónarsviðið á sjöunda áratug síðustu aldar og hristi heldur betur upp í þjóðfélaginu og heiminum öllum í leiðinni. Hún kynnti meðal annars til sögunnar mínipilsið sem hafði mikil áhrif á það hvernig konur klæddust til frambúðar. Á þessum árum varð önnur bylgja feminískra hreyfinga til og konur upplifðu kynferðislegt frelsi með komu getnaðarvarnarpillunnar á markað.

  Það var engu líkara en þær vantaði áþreifanlega táknmynd í stíl við vaxandi frelsið. Mary Quant hjálpaði til við að frelsa konur á sjöunda áratugnum undan úreltum hefðum og gömlum gildum. Lifi mínipilsið og frelsið til að klæðast eins og okkur dettur í hug.

  Mary Quant.

  Dýra- og umhverfisvinurinn

  Stella McCartney er ein helsta talskona þess að nota ekki leður eða aðrar dýraafurðir í hönnun sinni. Hún hefur einnig lagt mikið upp úr sjálfbærni og mottó tískuhúss hennar er að vera ábyrgðafullt, heiðarlegt og nútímavænt fyrirtæki.

  Stella vakti í byrjun ferils síns athygli tískuáhugafólks sem listrænn stjórnandi Chloé en eftir að hún stofnaði eigið tískuhús hefur nafn hennar verið skrifað í sögubækurnar sem eitt mikilvægasta hönnuðanafn samtímans. Við þökkum Stellu fyrir að vera brautryðjandi í tískuheiminum þegar kemur að því að stunda ekki dýraníð og hugsa vel um umhverfið.

  Stella McCartney.

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum