2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Skór eru dýrðarinnar djásn

  Skór eru ekki aðeins eitthvað sem við notum til að forðast að ganga berfætt í hvernig sem viðrar, þótt svo sé enn í örfáum löndum, heldur segja þeir meira um persónuleikann en margan grunar. Á miðöldum fór skóiðnaðurinn að þróast og haldast í hendur við ákveðin tískutímabil.

   

  Skór skilgreina persónuleika þinn. Hvort heldur þú ert unglingur, þrítugur, sextugur eða um áttrætt. Þeir skilgreina einmitt einnig aldursbil og tískustrauma á hverjum tíma. Skór snúast nefnilega ekki bara um að verja fæturna fyrir veðri og vindum, þeir eru ómissandi fylgihlutur hvers kvenmanns, og jafnvel líka karlmanns, því nú eru þeir síðastnefndu farnir að hafa nef fyrir skótískunni aftur.

  Frá miðöldum gengu karlmenn í hælaháum skóm, jafnvel skreyttum hvers kyns flúri sem tilheyrði reyndar mest aðlinum eins og tískan gerði lengi vel en áhrifin til vesturs hafa sennilega komið frá austri, frá ríkjum eins og Persíu og Ottómanveldinu og jafnvel Póllandi. Í gegnum alla 16. öldina urðu Evrópubúar æ hrifnari af þessum tískuskóm og með aukinni verslun, viðskiptum og ferðalögum landa á milli voru þeir fluttir til Evrópu þar sem íbúar tóku vel á móti þeim þótt mishár væri á þeim hælinn. Og því oddhvassari tá, því betra. Þetta átti einnig við konur og börn af aðalsættum.

  Miðaldaskór.

  AUGLÝSING


  Á 17. öld fór hællinn að hækka hjá efri stéttum svo hællinn gat vitnað um stöðu viðkomandi í samfélaginu. Hællinn á skóm karla og kvenna var þó ólíkur, karlmannsskór höfðu kubbslegan brag á meðan kvenhællinn var meira ávalur og hönnunin fallegri, að margra mati. En hér táknaði hællinn valdið sem hver og einn hafði í samfélaginu, þeir æðri gátu ekki notað sama skótau og almúgurinn og varð að skera sig frá honum. Skór aðalsins voru yfirleitt listasmíði.

   Óskynsamar á hælum?

  En snúum okkur betur að konunum. Hælaháir skór urðu ómissandi eign hverrar aðalskonu á 16. öld en þegar fram liðu stundir tilheyrðu háir hælaskór kvenkyninu og karlmaðurinn lækkaði sína og sýna heimildir að svo hafi verið síðan án tillits til stéttar eða stöðu. Konur voru kleppfastar í hælaháum skóm langt fram eftir 20. öldinni og hver hefði trúað því um 1920 að í byrjun 21. aldar væru konur komnar úr öllum skreyttum skóm og spígsporuðu um í strigaskóm?

  Já, og það jafnvel talið kynþokkafullt, rétt eins og háu hælarnir. Á sínum tíma þóttu hælarnir nefnilega gera konur kynþokkafyllri en um leið voru þær taldar óskynsamar, viðkvæmar, fullar af þrá og hafa engin markmið, allt þetta mátti lesa af skóvali þeirra einu saman, hvernig svo sem hægt er að fá botn í það því samfélagið sjálft gaf þeim ekki mikið svigrúm. Ef til vill er það rannsóknarverkefni fyrir einhvern femínistann að vita hvort þetta viðhorf hafi breyst í dag.

   Fótstærð og kynþokki

  Annað sem mætti minnast á er fótstærð kvenna en því minni sem hún var því fegurri þóttu fæturnir en sennilega hefur engin þjóð gengið lengra en Kínverjar þegar þeir reyrðu fætur kvenna í því skyni að reyna að minnka þá eins kostur var með tilheyrandi þjáningum og jafnvel má líkja þessu við pyntingar því hjá mörgum orsakaði þetta fötlun. Þetta viðhorf kristallast mjög vel í ævintýrinu um Öskubusku, hún var með minnsta fótinn og vildi prinsinn hana.

  Fræðimenn líkt og Mary Wollstonecraft sem var virtur rithöfundur og heimspekingur, sem barðist fyrir menntun kvenna, skrifaði í lok 18. aldar að í raun réðu karlmenn tísku og kynþokka kvenna meira en þær sjálfar og þær urðu fyrir áhrifum af þeim og þeir höfðu því valdið. Er eitthvað til í því? En á móti bendir Wollstonecraft á að konur hafi reynt að nota kynþokka sinn, fatnað og skó til að ná athygli karlmanna.

  Mary Wollstonecraft var uppi í lok 18. aldar og taldi að karlmenn réðu meira um tísku kvenna en þær. Hið sama hefur verið uppi á teningnum á 21. öld.

   Tákn fyrir kynþokka og erótík

  En förum fljótt yfir sögu og nú til 19. aldar þegar krínólínukjólarnir voru alls ráðandi og háu hælarnir og samfélagið lét sem aðalskonur gætu haft einhverja vitsmuni til að bera (sennilega með því að láta þrengja að sér í korselettum og undirkjólum svo þær gætu ekki annað en haldið niðri í sér andanum og verið sammála síðasta ræðu(karl)manni. Seint á 19. öld voru strigaskór reyndar komnir til sögunnar en ekki var talið við hæfi að konur stunduðu íþróttir nema heldrimannasport, eins og tennis en strigaskórnir voru þá með litlum hæl.

  Eftir heimsstyrjaldirnar urðu hælaháir skór  aðgengilegir meðal almennings og slógu í gegn hjá konum en karlmenn voru enn íhaldssamir og héldu sig við slétta skó. Konur sem gengu í störf karlmanna í seinna stríði kusu flestar þægilegri skó og lægri hæla en eftir styrjöldina breyttist skótískan og úrvalið varð mikið auk ýmissa tækniframfara er orðið höfðu í skógerð í gegnum aldirnar en það gerði það að verkum að skór voru þægilegri að ganga á.

   Hælarnir eigna sér kynþokkann

  Á 20. öldinni varð hælahái skórinn tákn kynþokka og erótíkur sem aldrei fyrr, sérstaklega í upphafi þeirrar 21. líkt og rauði hællinn hins fræga hönnuðar Christian Louboutins og skóhönnun Manolo Blahnik en þeir komu fram með pinnahælinn, svo ótrúlega háa marga hverja, að konur hljóta að vera valtar á fótunum gangandi á þeim og það er ekki til að auka vald þeirra eða virðuleik en minnumst samt orða Wollencraft um að ganga í augun á karlpeningnum.

  Nútimaskóhönnuðir hafa hækkað hæla á kvenskóm upp úr öllu valdi. Sú sveigja er kemur á kvenlíkamann á hælum þykir sexí.

  Háir hælar hafa aldrei hætt að gera konur kynþokkafullar og sumir eru það fram úr hófi, tælandi og töfrandi. Þess vegna munu allar konur eiga að minnsta kosti eitt par af slíkum skóm við viðeigandi tækifæri en vert er að hafa það í huga að þær ættu að krulla út úr sér spakmælunum svo ekki sé efast um vitsmuni þeirra.

  En á seinni hluta 20. aldarinnar og á þeirri 21. hefur úrvalið aukist gífurlega og raunar allt leyfilegt, jafnvel skór með þykkum sóla fyrir karlmenn og kvenfólk.

  Á seinni hluta 20. aldarinnar og á þeirri 21. hefur skóúrvalið aukist gífurlega .

  Nú erum við öll orðin okkar eigin tískulöggur og túlkun persónuleikans birtist m.a. í skóvali okkar. Við eigum síðasta orðið og látum engan segja okkur annað. Ég veit að ég vel strigaskó fram yfir hælaháa skó, einfaldlega vegna þess að þeir eru svo miklu þægilegri en auðvitað laumast ég í þess háu þegar ég vil laða fram kynþokkann. Það verður að viðurkennast að mér finnst þessi valti skóbúnaður ekki þægilegur en stundum í neyð verður kona að leggja strigaskónum.

  Texti / Unnur H. Jóhannsdóttir

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum