2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Vorhreingerning er góð fyrir sálina

  Nú er daginn tekið að lengja og birtan opnar augu okkur fyrir nauðsyn þess að taka til hendinni á heimilinu. Vorhreingerningarnar vekja þó mismikinn áhuga fólks og finnst sumum þær hreint kvalræði. Til eru ýmiss konar ráð til þess að gera vorverkin fljótlegri og skemmtilegri.

   

  Er heimili þitt svo yfirfullt af alls konar hlutum og dóti að það er vonlaust mál að halda því snyrtilegu? Það er ekkert mál að laga það. Það eina sem þú þarft að gera er að taka þér 15 mínútur á dag til þess að endurraða og skipuleggja. Það er allt og sumt. Allir geta tekið sér 15 mínútna pásu frá öðrum verkum, jafnvel þó að þeir þurfi að skipta þeim niður í 5 mínútna búta.

  Lærðu að henda

  Mjög margir eiga erfitt með að sleppa takinu á því sem einu sinni er komið inn á heimilið. Taktu stóran ruslapoka þér í hönd og gakktu hring um heimilið og veldu ákveðinn fjölda hluta til að henda. Ekki hætta fyrr en hlutirnir eru orðnir jafnmargir og þú hafðir einsett þér. Sumir ákveða að taka tíu hluti meðan aðrir stefna að þrjátíu. Lokaðu svo pokanum og komdu honum strax í tunnuna.

  AUGLÝSING


  Næst skaltu finna til pakkakassa, ganga annan hring og finna jafnmarga hluti til þess að gefa eða koma í endurvinnslu hjá Rauða krossinum. Þetta breytir orkunni á heimilinu og ýtir undir jákvætt andrúmsloft. Þér líður betur og heimilið verður snyrtilegra. Um leið og þessir hlutir eru fundnir skaltu fara með kassann út í bíl. Þá er minni hætta á að þér snúist hugur.

  Þumalputtaregla: Ef þú átt tvennt af einhverju skaltu losa þig við annað.

  Komdu einnig við í geymslunni ef þar er kassi sem ekki hefur verið opnaður í ár er kominn tími til að henda honum.

  Breyttu draslhorninu í afslöppunarvin

  Sum svæði á heimilinu virðast soga að sér drasl. Ef ekkert er að gert stækkar þetta svæði og draslið breiðir úr sér eins og arfi. Mundu að drasl laðar að sér meira drasl. Kannastu við þetta? Er einhver staður þar sem fjölskyldumeðlimir leggja frá sér hluti þegar þeir vita ekki alveg hvert þeir eiga að fara? Finndu leið til að endurskapa þetta svæði og finna öllu stað þannig að heimilisfólk viti nákvæmlega hvar eigi að ganga frá hverjum hlut. Skór, lyklar, töskur, yfirhafnir, dagblöð, snyrtivörur og áhöld allt þetta þarf og á að eiga sinn stað á heimilinu. Einu sinni í viku skaltu ráðast á það svæði sem mest drasl er á og ganga snyrtilega frá öllu. Það hjálpar einnig að ítreka daglega að nú sé kominn fín skóhilla eða pláss hafi verið losað í skápnum undir yfirhafnir.

  Dagleg tiltekt

  Eyddu 5 mínútum á dag í að ráðast á versta staðinn á heimilinu. Staðinn sem þú myndir aldrei leyfa neinum utanaðkomandi að sjá hvort sem það er draslskúffan í eldhúsinu, geymslan eða bílskúrinn. Ef þú tekur þér aðeins fimm mínútur á dag í 27 daga til að laga þarna til þá áttu eftir að enda með skínandi hreina og snyrtilega skúffu eða geymslu sem þú myndir stolt/ur bjóða gestum að skoða.

  Dagleg tiltekt gerir kraftaverk,

  Hugsaðu svæðaskipt

  Í hverri viku skaltu velja þér svæði til þess að takast á við. Eina vikuna getur svæðið verið eldhúsinnréttingin, þá næstu fataskáparnir og svo koll af kolli. Eftir mánuð verður þú búin að vinna þig í gegnum allt heimilið. Eftir að þú ert búin/n að taka til á heimilinu geturðu farið í að þrífa allt hátt og lágt. Það mun ekki virðast svo mikið mál að þrífa svæðin sem nú eru laus við allt óþarfa dót og drasl.

  Margt smátt gerir eitt stórt

  Ef þú treystir þér ekki strax í stórhreingerningar er um að gera að byrja smærra. Horfðu í kringum þig á heimilinu. Hversu langt er síðan þú hreinsaðir brauðristina? Eða þvoðir sturtuhengið? Taktu þér 15 mínútur til þess að hreinsa þessa smærri hluti og þér mun strax líða betur. Fáðu börnin í lið með þér. Þið getið keppst um hver er fljótastur að tæma ruslafötuna í sínu herbergi eða að búa um rúmið sitt.

  Svo er alltaf skothellt að skella góðri tónlist á fóninn áður en hafist er handa við að þrífa.

  Taktu þinn tíma og njóttu

  Róm var ekki byggð á einum degi og þú þarft ekki að taka heimilið alveg í gegn á einum degi heldur. Það er mikilvægt að ætla sér ekki um of og að gera hlutina á sínum tíma. Taktu þér reglulega 15 mínútna pásur þegar þú stendur í stórhreingerningum. Það er betra að gera hlutina hægt og bítandi en að fara of hratt af stað og gefast upp á miðri leið. Sjáðu fyrir þér hversu aðlaðandi heimilið verður eftir á en mundu einnig að það að taka það í gegn er eins og að borða fíl. Þú verður að gera það með því að taka einn bita í einu.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is