2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Á lista yfir valdamestu konur heims

  Rithöfundurinn J.K. Rowling er á lista Forbes yfir valdamestu konur í fjöl­miðlum og skemmt­ana­brans­an­um.

  J.K. Rowl­ing er tvímælalaust einn áhrifamesti rithöfundur samtímas, en bækur hennar um galdrastrákinn Harry Potter hafa selst í milljónum eintaka um allan heim. Í ár eru 20 ár liðin frá útgáfu fyrstu bók­ar­innar í ser­í­unni frægu og í tilefni af því hefur sérstök bóka­safns­sýn­ing um Harry Potter, „A History of Magic“, verið opnuð í Brit­ish Libr­ary. Forbes setti hana nýverið á lista yfir valdamestu konur í fjölmiðlum og skemmtanabransanum og fyrir skemmstu komu á markað tvær bækur eftir hana sem tengjast sögunni um Harry Potter,„Harry Potter: A History of Magic“ og svo „Harry Potter – A Jour­ney Through A History of Magic“. Þær hafa sömuleiðis notið mikilla vinsælda.

  J.K. les upp úr Harry Potter-bók.

  Saga J.K. Rowl­ing sjálfrar, eða Joanna Katrine Rowling eins og hún heitir fullu nafni, er líka ákaflega áhugaverð. Hún flúði úr erfiðu hjónabandi með dóttur sína og var í raun heimilislaus, atvinnulaus og peningalaus um tíma. Hugmyndinni að Harry Potter laust ofan í huga hennar þegar hún sat í lest og reyndi að láta tímann líða.

  Hún hafði oft áður ferðast þessa leið en aldrei leiðst önnur eins ósköp og þarna. Skyndilega datt henni í hug að gaman væri ef við hlið okkar heims og innan hans þrifist ævintýraheimur þar sem allt önnur lögmál ríktu. Á hana leitaði einnig ímynd lítils, grannvaxins drengs með kringlótt gleraugu og ör á enninu sem leit út eins og elding. Henni fannst að pilturinn sá ætti sér fáa málsvara og áður en hana varði var beinagrindin að Harry Potter-bókunum orðin til fyrir hugskotssjónum hennar.

  AUGLÝSING


  „Hugmyndinni að Harry Potter laust bara ofan í kollinn á mér,“ sagði J.K. Rowling í viðtali löngu síðar þegar seldar voru milljónir eintaka af bókum hennar um strákinn sem kann að galdra og er tryggur vinur vina sinna. „Grunnhugmyndin var sú að ungur drengur væri töframaður án þess að vita af því og ég sá fyrir mér galdraskólann sem hann myndi ganga í.“

  „Á hana leitaði einnig ímynd lítils, grannvaxins drengs með kringlótt gleraugu og ör á enninu sem leit út eins og elding. Henni fannst að pilturinn sá ætti sér fáa málsvara og áður en hana varði var beinagrindin að Harry Potter-bókunum orðin til fyrir hugskotssjónum hennar.“

  Joanna Rowling fór þessa örlagaríku lestarferð árið 1990 og fimm árum síðar kom fyrsta bókin um Harry Potter út. Harry Potter og viskusteinninn varð umsvifalaust metsölubók og hún var þýdd á ótal tungumál fljótar en nokkur önnur bók í sögunni ef undanskilin er Biblían. Algert æði greip heimsbyggðina og hinar bækurnar hurfu úr hillum bókabúða nánast áður en þeim hafði verið komið fyrir í þeim.

  Byrjaði að skrifa fimm eða sex ára

  J.K. Rowling byrjaði að skrifa fimm eða sex ára gömul. Fyrsta sagan hennar fjallaði um kanínu sem bar nafnið Kanína. „Ég hef ekki hætt að pára á blað síðan,“ segir Rowling. Hún gengur alltaf með minnisblokk á sér og hripar hjá sér áhugaverð nöfn og lýsingar jafnóðum og hún heyrir eða sér eitthvað sem kveikir hugmynd. Eftirnafn Harrys, Potter, var til að mynda eftirnafn fjölskyldu sem bjó í næsta nágrenni við hana þegar hún var barn.

  Rowling stundaði nám í Exeter-háskóla og var meðal þeirra sem fengu allra hæstu einkunn í skólanum þegar hún útskrifaðist úr frönsku. Rowling hafði sjálf lítinn áhuga á tungumálinu en gerði það fyrir foreldra sína að læra það því þau vildu að hún gerðist einkaritari. Rowling byrjaði starfsferilinn einmitt í slíku starfi og vann víða sem einkaritari næstu árin.

  Joanna með Emmy Watson sem lék Hermione Granger.

  Starfið heillaði hana ekki og í leit að tilbreytingu flutti hún til Portúgals og hóf að kenna ensku. Þar kynntist hún portúgölskum blaðamanni og giftist honum. Þau áttu saman eina dóttur sem heitir Jessica en skildu árið 1993. Rowling flutti þá til Edinborgar, aðallega vegna þess að yngri systir hennar bjó þar og hún vildi vera í nágrenni við hana. Þar hélt hún áfram að vinna að Harry Potter-bókunum og lagði þar lokahönd á fyrstu bókina.

  Hún vissi frá byrjun að bækurnar um Harry yrðu sjö, ein fyrir hvert ár sem hann yrði í Hogwarth-skóla, þessari einstöku menntastofnun þar sem uglur fljúga um með skilaboð milli manna, draugar sveima um ganga og eru ekki feimnir við að tala við mannfólkið og hvíslandi hattur velur börnunum heimavist.

  Joanna giftist Neill Murray árið 2001 og þau eiga tvö börn saman. Seinna hjónaband hennar virðist farsælt en hún er ekki mikið fyrir sviðsljósið og heldur einkalífi sínu fjarri fjölmiðlum. Rowling er góður skipuleggjandi og mjög mikið fyrir að leggja á ráðin um framtíðina.

  Hún er þegar farin að leggja drög að næstu bókum sínum sem hún segir bæði fjölbreyttar og áhugaverðar. Hún styður einnig fjölmörg góðgerðarsamtök og hefur reynt eftir fremsta megni að láta auð sinn nýtast vel.

  Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is