Loðna barnið á heimilinu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Undanfarna áratugi hefur hlutverk gæludýra í lífi fólks breyst umtalsvert.

Dýrin hafa alltaf veitt manninum bæði ánægju og félagsskap en eftir því sem borgarlíf verður algengara og menn einangraðri verða dýrin mikilvægari tenging við náttúruna. En einmitt þess vegna eru gæludýr víða órjúfanlegur hluti af fjölskyldunni og mörgum reynist mjög erfitt að fara án þeirra í frí eða skiljast við þau.

Í öllum vestrænum ríkjum er fæðingatíðni á niðurleið, 2,1 barn á fjölskyldu er algengasta talan og það færist einnig í vöxt að fólk velji að eignast ekki börn. Fólk verður líka eldra þannig að þegar börnin vaxa úr grasi og fara að heiman eiga flest hjón fram undan langa og góða ævidaga. Sumum finnst þá vanta eitthvað að hugsa um og sinna. Hundar, kettir og hestar fylla iðulega upp í það tómarúm. Kjarnafjölskyldan, karl, kona og börn er einnig mjög breytt. Alls konar samsetningar þekkjast, þrjár kynslóðir undir sama þaki, foreldrar af sama kyni, barnlaus hjón, samsettar fjölskyldur, vinkonur eða vinir sem sameinast við að reka heimili og ala upp börn og fleira og fleira.

Þörfin fyrir eitthvað sem sameinar er rík í öllum fjölskyldum og gæludýr skapa kröftuga tengingu. Allir geta elskað dýrið og fengið ánægju út úr að annast það. Þetta gerir það að verkum að dýrið verður smátt og smátt ómissandi hluti fjölskyldunnar og mjög margir gæludýraeigendur fara að líta á sig eins og foreldra dýranna sinna. Þeir veita þeim umönnun og uppeldi rétt eins og börnunum þannig að tengingin er augljós og skýr. Ný bandarísk rannsókn er kannaði einmitt þetta samband leiddi í ljós nokkrar afgerandi og áhugaverðar niðurstöður. Um það bil 20% sjá sig alls ekki sem foreldra heldur sem gæludýrahaldara, 15% finnst þau vera foreldrar dýranna en aðeins upp að vissu marki. Í þessum hópi voru karlmenn í meirihluta en allir svarendur í þessum hópi voru hins vegar sammála um að dýrin væru hluti af fjölskyldunni.

Rangt að hlutgera dýrin

Tveir þriðju svarenda í þessum hópi áttu börn. Þegar þeir voru beðnir að lýsa stöðu sinni gagnvart dýrinu notuðu þeir mörg og margvísleg orð, meðal annars herbergisfélagi, vinur, umönnunaraðili, félagi og matráður. Þótt þeir notuðu einnig ýmis orð sem þeir kusu einnig að nota til að lýsa sambandi sínu við börnin sín kusu þeir samt að setja skýr mörk hvað þetta varðaði og sögðust aldrei nota orðin mamma eða pabbi þegar þeir væru að tala við eða um dýrin.

Mjög margir í þessum hópi voru virkir í ýmsum dýraverndunarsamtökum og tóku jafnvel virkan þátt í sjálfboðaliðastarfi til að bjarga dýrum sem voru vanrækt eða illa farið með. Þeim fannst öllum að það eitt að taka dýr til að tryggja eigin vellíðan og hamingju væri siðferðilega rangt. Það jafngilti því að hlutgera dýrin. Þeirra sjónarmið var að dýrin hefðu réttindi, hugsun og tilfinningar sem bæri að virða. Þeirra mat var að siðferði og heimspekileg hugmyndafræði bannaði manninum að telja sig æðri dýrum og menn hefðu ekki rétt til að telja sig eigendur dýra eða foreldra þeirra. Heilbrigðari hugsun væri sú að dýrið væri hluti af lífi þínu, þér bæri að annast það og sjá fyrir þörfum þess. Það á móti yrði hluti af lífi þínu og félagi þinn.

„Þetta fólk talaði einnig um að þeirra hlutverki í lífi dýranna væri aldrei lokið, að það þyfti að þjálfa þau og viðhalda alla ævi. Sumir í þessum hópi áttu börn en aðrir sögðust vilja eignast börn í framtíðinni.“

Þeir svarendur sem á hinn bóginn litu svo á að þeir væru foreldrar dýranna sinna sáu hlutverk sitt allt öðruvísi. Þeir töluðu um viðleitni sína til að kenna dýrunum, ala þau upp. Þeir fundu fyrir skammartilfinningu ef dýrið sýndi af sér óæskilega hegðun en fundu fyrir hreykni og gleði ef það stóð sig vel. Þeir sögðust einnig undirbúa sig undir ferðalög eða útivist með dýrinu á sama hátt og foreldri myndi búa sig undir að vera á ferð með barn. Uppáhaldsleikföngunum var pakkað, tekið með snakk eða nammi til að draga athyglina frá óæskilegum athöfnum. Þetta fólk talaði einnig um að þeirra hlutverki í lífi dýranna væri aldrei lokið, að það þyfti að þjálfa þau og viðhalda alla ævi. Sumir í þessum hópi áttu börn en aðrir sögðust vilja eignast börn í framtíðinni. Það fólk sagði að samband þess við gæludýrið væri góður undirbúningur fyrir foreldrahlutverkið þegar það eignaðist mannabörn.

Margt líkt með barnauppeldi og dýrahaldi

Í huga þessa fólks var of margt líkt með gæludýrahaldi og barnauppeldi til að hægt væri að aðskilja þetta tvennt. Fæða þyrfti dýrið, klæða það, sinna þörfum þess fyrir hreyfingu og afþreyingu, fara með það til læknis og þrífa það. Þetta væri skuldbinding allan sólarhringinn og meðan dýrið lifði. Að auki krefðist dýrauppeldið skilyrðislausrar ástar og fórnfúsrar umhyggju.

Þeir sem þegar áttu börn, sérstaklega þeir sem eignuðust börn eftir að þeir tóku að sér dýr, töluðu um að umönnun barnsins og þarfir þess drægu vissulega úr þeim tíma sem þeir hefðu fyrir dýrið. Margir upplifðu sektarkennd vegna þess og fannst erfitt að láta dýrið sitja á hakanum. Þeir viðurkenndu að viðhorf þeirra til dýranna og alúð við þau hefði breyst eftir að barn kom inn á heimilið en engu að síður teldu þeir dýrin meðal barna sinna. Þeir nefndu þetta sveigjanlegt foreldrahlutverk og viðurkenndu að treysta á sjálfstæði dýranna og seiglu til að laga sig að breyttum aðstæðum.

„Í huga þessa fólks var of margt líkt með gæludýrahaldi og barnauppeldi til að hægt væri að aðskilja þetta tvennt. Fæða þyrfti dýrið, klæða það, sinna þörfum þess fyrir hreyfingu og afþreyingu, fara með það til læknis og þrífa það.“

Foreldrar með eldri börn sögðu að mikil líkindi væru milli samskipta þeirra við börn sín og dýrin. Þeir sögðu að umönnun dýranna gæfi þeim mikla gleði og vellíðan. Dýrin drægju úr streitu, sýndu ást á móti og kenndu þeim margar verðmætar lexíur. Hið sama sögðu þeir að ætti við um börnin. Það hefði gefið þeim mikið að ná árangri í uppeldi dýrsins og þeir voru þess fullvissir að börnin lærðu mikið af dýrunum og hefðu fengið þar ómetanlegan lærdóm. Þessi merkilega rannsókn gefur góða innsýn í samskipti manna og dýra og sýnir vel hvers vegna dýrahald eykst jafnt og þétt í dreifbýli. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að dýrin bæta heilsu eigenda sinna bæði andlega og líkamlega. Í ljósi þessa væri áhugavert að taka til skoðunar hvort ekki þurfi að búa betur að gæludýraeigendum í dreifbýlinu og skapa þeim aðstöðu til að búa eins vel að þeim og hægt er.

 

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Askja er fundin

Eigendur Öskju, svartrar labradortíkur, sem hljóp frá eigendum sínum í Mosfellsdalnum leita nú hennar logandi ljósi eftir...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -