• Orðrómur

Lokaverkefni Emilíu Óskar færir fólki Von: „Málefnið snertir fjölskyldu mína náið“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég vil vekja athygli á starfsemi Píeta og stuðningsins sem þau veita einstaklingum sem eru í sjálfsvígshugleiðingum og fólki sem hefur misst ástvin til sjálfsvígs vegna þess að það er alltaf hjálp og það er alltaf von,“ segir Emilía Ósk Friðjónsdóttir 18 ára, sem hannaði hálsmenið Von.

Allur ágóði af sölu hálsmensins rennur til Píeta samtakanna. Hálsmenið var þó upphaflega ekki hannað með samtökin í huga, heldur sem lokaverkefni Emilíu Óskar í vöruhönnun í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Emilía Ósk með hálsmenið Von
Mynd / Aðsend

- Auglýsing -

Það er hjálp að fá

Í faginu áttu nemendur að hanna vöru frá byrjun til enda og gera eina prótótýpu til að sýna.

„Ég fékk hugmyndina þegar ég fór að hugsa um ástandið í samfélaginu á tímum COVID og hvernig margir upplifa félagslega einangrun og einmanaleika í dag. Ég fór þá að hugsa hvað ég gæti gert til þess að hjálpa einhverjum í þessari stöðu, þó það væri bara að vekja athygli á að það sé hjálp að fá. Ég vildi gera hálsmen því það er að mínu mati vinsælasti skartgripurinn.“

- Auglýsing -

Emilía Ósk gerði markaðskönnun varðandi útlit og fleiri þætti varðandi menið sem hún segir hafa hjálpað heilmikið. „Ég vissi frá upphafi að ég vildi hafa hönnunina mínimalíska og klæðilega, eitthvað sem hægt er að nota hversdagslega eða við fínni tækifæri.“

Hálsmenið Von
Mynd / Aðsend

Emilía Ósk vann allt ferlið sjálf, en segist hafa fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum, og sérstaklega frá kennurum sínum, Tinnu Ösp Arnardóttur og Írisi Bjarnadóttur.

- Auglýsing -

„.Þær eru alveg frábærar og ég fæ ennþá hjálp og ráðgjöf frá þeim í dag, þrátt fyrir að vera búin með áfangann. Ferlið var mjög langt, ótrúlega skemmtilegt en líka mjög erfitt. Ég hef lært ótrúlega mikið á þessu, sem ég tel að muni hjálpa mér gríðarlega í framtíðinni. Að vera í samskiptum við erlenda birgja er mögulega flóknasti hlutinn og mjög lærdómsríkt að fá að upplifa hvernig viðskiptaheimurinn virkar. Ég vildi líka hafa vöruna umhverfisvænni kost og framleidda á siðferðislegan hátt. Öll hráefni koma frá Skandinavíu og umbúðirnar eru með FSC viðurkenningu um ábyrga skógrækt,“ segir Emilía Ósk.

Emilía Ósk sá sjálf um allt ferlið
Mynd / Aðsend

„Ég hef mikið áhuga á hönnun og markaðsfræði og öllu því tengdu, enda er ég á hönnunar- og markaðsfræðibraut. Ég stefni á frekara nám í markaðsfræði og vöruhönnun í framtíðinni og er aðeins að velta fyrir mér valmöguleikum í námi, þangað til verð ég í Brussel að vinna sem au-pair fyrir íslenska fjölskyldu,“ segir Emilía Ósk, sem útskrifast í febrúar á næsta ári.

 

Hálsmenið er selt til styrkar Píeta-samtökunum
Mynd / Aðsend

Starf Píeta ómissandi

Emilía Ósk segist aðspurð ekki hafa unnið sjálfboðastörf áður, „en eftir þetta ferli sé ég mig 100% halda því áfram með einum eða öðrum hætti,“ segir hún og segir að hún hafi ekki ætlað að gera neitt meira með hálsmenið eftir að áfanganum lauk, en hún hafi svo á endanum ákveðið að senda tölvupóst til Píeta-samtakanna. En af hverju til þeirra?

„Ég valdi Píeta-samtökin vegna þess að mér finnst þeirra störf alveg ómissandi í samfélaginu. Hækkun á tíðni sjálfsvíga er mikið áhyggjuefni og mér finnst ótrúlega mikilvægt að fólk í vanda geti haft greiðan aðgang að ókeypis hjálparþjónustu,“ segir Emilía Ósk.

„Ég er svo glöð að hafa sent þeim tölvupóstinn, Píeta tók ótrúlega vel í hugmyndina og leist mjög vel á þetta allt og þaðan fór boltinn að rúlla.“

Málefnið snertir Emilíu Ósk einnig persónulega.

„Málefnið snertir fjölskyldu mína náið, og miklu nær en ég hélt. Maður heldur oft að svona hlutir komi sér ekkert við en þetta snertir okkur flest ef ekki öll á einhvern hátt. Þegar pabbi minn var á mínum aldri missti hann föður sinn til sjálfsvígs, á þeim tíma voru engin úrræði eins og Píeta og málefnið var mjög mikið tabú.“

Hvað hefur þetta verkefni og ferli kennt þér?

„Þetta verkefni hefur kennt mér ótal margt, til dæmis lærði ég helling um Píeta-samtökin, ég lærði mikið um fagleg samskipti við birgja en ég lærði helst hvað ég á ótrúlega gott net af fólki sem er tilbúið að hjálpa mér við hvað sem ég geri.“

Hægt er að versla hálsmenið Von hér.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Hálsmenið er selt til styrkar Píeta-samtökunum
Mynd / Aðsend

Emilía Ósk gerði allt frá a til ö
Mynd / Aðsend

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -