2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Lyfjaskápur náttúrunnar opnaður

  Guðríður Gyða Halldórsdóttir hefur aflað sér mikillar þekkingar á virkni ilmkjarnaolía og sendi nýlega frá sér bókina, Ilmkjarnaolíur, Lyfjaskápur náttúrunnar.

  Lyktarskynið er líklega vanmetnast allra skilningavita mannsins. Margar nýjar rannsóknir benda eindregið til að það leiki mun stærra hlutverk í lífi fólks en hingað til hefur verið talið. Ilmkjarnaolíur höfða til lyktarskynsins og geta bæði líknað og læknað. Notkun jurta og ilmkjarnaolía til lækninga hefur fylgt mannkyninu ansi lengi og Gyða drepur á sögu þeirra í bókini. Hún bendir meðal annars á að á hellamálverkum í Lascaux í Frakklandi sé að finna teikningar er benda til að jurtir hafi þá þegar verið notaðar í viðleitni manna til að sigra sjúkdóma. Kínverjar, Indverjar og gyðingar til forna notuðu ilmkjarnaolíur á markvissan hátt og lýsingar á þeim er að finna í Bíblíunni. Nútímavísindi afskrifuðu hins vegar um tíma þessi fornu fræði sem bábiljur. Hefur það eitthvað breyst? „Hugarfar fólks í sambandi við ilmkjarnaolíur hefur tekið miklum breytingum. Æ fleiri nýta sér heilunarmátt olíanna og fer notkun þeirra vaxandi ár frá ári,“ segir Gyða.

  Bók Guðríðar Gyðu Halldórsdóttur.

  Undanfarið hefur einnig safnast upp mikil þekking innan vísindasamfélagsins á virkni ilmkjarnaolía. Niðurstöðurnar sýna að þær nýtast vel í meðferð á margvíslegum sjúkdómum í öndunarfærum, vinna á verkjum og draga úr streitu. Hægt er að anda þeim að sér, bera þær á húðina og nudda þeim inn í hana eða taka þær inn í belgjaformi. En hver var kveikjan að því að Gyða skrifaði um þær bók? „Þær bækur sem hafa verið til hér á landi um olíurnar, eru farnar að úreldast og flestar auk þess á öðrum tungumálum en íslensku, nema kennsluefnið sem hefur verið notað í Nuddskóla Íslands. Ég var í þeim skóla og lærði þar að vinna með olíur og útskrifaðist 2002 sem heilsunuddari. Kennarinn minn, Margrét Alice Birgisdóttir, kveikti fyrst áhuga minn á olíunum.

  „Þær bækur sem hafa verið til hér á landi um olíurnar, eru farnar að úreldast og flestar auk þess á öðrum tungumálum en íslensku.“

  Ég fór síðan í framhaldsnám í Lífsskólanum, þar sem Prófessor í læknisfræði, Dr. Erwin Haringer, við Munchenar háskóla kenndi litlum hópi nuddara, ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga í fjögur ár. Hann, ásamt starfsbræðrum í þremur öðrum háskólum í Evrópu, Bretlandi, Ítalíu og Frakklandi, hafa verið að rannsaka ilmkjarnaolíur, vítamín og jurtir til lækninga. Þeir hafa síðan birt niðurstöður sínar í læknatímaritum, eins og tímaritinu Lancet. Árangur rannsókna þeirra hefur leitt hann til Íslands til að kenna þessum hóp nútímailmkjarnafræði. Á meðan náminu stóð, unnum við að stórri ritgerð sem bókin mín, Ilmkjarnaolíur, Lyfjaskápur náttúrunnar, er byggð á.“

  AUGLÝSING


  Allir þekkja hversu sterkur hvati ilmur getur verið. Hann kveikir minningar, er stór þáttur í því að laða okkur að öðrum manneskjum og sumir ganga jafnvel svo langt að segja að konur velji sér menn eftir líkamslykt þeirra. Ilmkjarnaolíur eru uppistaða í mörgum baðvörum sem fólk notar til að slaka á eftir erfiðan dag eða hressa sig við þegar orku er þörf. Á sérfræðingurinn sér einhverja uppáhaldsolíu eða er erfitt að gera upp á milli? „Ég á fullt af uppáhaldsolíum,“ svarar hún. „Þær eru allar dásamlegar, hver með sína virkni. Ef ég ætti að velja eina, þá mundi ég hiklaust velja lavender.“

  Ef þú ættir að velja fimm ilmkjarnaolíur inn á hvert heimili á landinu hverjar myndir þú benda á?

  „Cajeput, lavender, peppermint, frankinsence og cinnamon bark. Ef þú átt allar þessar olíur, þá áttu heilt apótek.“

  Áhugi Gyðu á náttúrunni er ekki eingöngu bundin við olíurnar. Hún sækir sér gjarnan næringu og hollustu í íslenska móa. Þú tínir jurtir, sveppi, ber og fleira og vinnur úr alls kyns mat. Hvað kveikti áhuga þinn á nýtingu íslenskrar náttúru á þennan hátt? „Jú, ég tíni jurtir í heilsute, þurrka sveppi, því þeir eru bragðbestir á Íslandi, bý til jólalíkjör úr aðalbláberjum með kanil og negul og svo alls kyns sultur úr íslansku hráefni. Það sem kveikti áhuga minn á jurtunum, var besta vinkonan mín, hún Olga Sverrisdóttir, sem er hafsjór af fróðleik um nýtingu jurta til lækninga. Við förum nokkrum sinnum á sumri í jurtatínslu en förum síðan vestur á land til að tína ber.“

  Er einhver íslensk tejurt í uppáhaldi? „Jú, mjaðurtin er alltaf í uppáhaldi því hún er svo góð fyrir magann,“ segir Gyða að lokum en ítarlegra viðtal við hana er að finnast í nýjastu Vikunni.

  Myndir / Hákon Davíð Björnsson

   

   

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is