2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Maður gefst ekki upp, lífið er mikilvægara en það“

  Eva Dögg Sigurgeirsdóttir lærði af móður sinni að sjá ávallt það jákvæða í öllu. Það kom sér vel þegar hún missti aleiguna og þurfti að byrja alveg upp á nýtt. Nú stendur hún aftur á krossgötum en sér spennandi tækifæri framundan.

  Eva Dögg líklegast þekktust fyrir glæsilegan fatastíl og næma tilfinningu fyrir tísku og útliti. En það er bara yfirborðið, þessi kona stendur að baki mörgum af frumlegustu og skemmtilegustu leiðum til markaðssetningar er farnar hafa verið á Íslandi. Þótt jákvæðni hennar og brosmildi geri hana eftirminnilega hefur hún oft haft ástæðu til að bíta fast á jaxlinn þegar erfiðleikar hafa bankað upp á.

  Hún hefur reynslu af því að koma út á vinnumarkaðinn aftur eftir að hafa tekið sér hlé til að sinna yngstu drengjunum sínum. „Ég á fjögur börn og þrjú stjúpbörn, elsti sonur minn, Fannar, er að verða tuttugu og fimm ára, Sara, dóttir mín, er nítján og svo á ég Bjarna Gabríel, tíu ára og Viktor Áka sem er sex ára. Eftir að sá næstyngsti fæddist langaði mig til bæta við námi og skellti mér í MBA-nám við Háskólann í Reykjavík. En á þeim tíma vann ég sem markaðsstjóri Smáralindar. Þegar ég var að útskrifast úr MBA-náminu varð ég ófrísk af yngsta drengnum og þegar hann fæddist langaði mig að geta verið heima hjá honum lengur en sex mánuði og í raun hjá þeim báðum og sagði því upp starfi mínu hjá Smáralind og ákvað í kjölfarið að opna aftur vefinn tiska.is. Eftir nokkur ár í harki við að reyna að afla tekna í gegnum vefmiðil ákvað ég að fara aftur út á vinnumarkaðinn en þá fattaði ég að ég var eiginlega búin að missa af velgenginslestinni enda var ég þá orðin fjörutíu og fimm ára.“

  Eftir fertugt finnst mörgum konum þær hins vegar hafa náð hápunkti færni sinnar og getu. Börnin eru orðin sjálfstæðari og þær því frjálsari að því að sinna sínum hugðarefnum. „Ég er sammála því,“ segir Eva Dögg, „og þá líður konum einnig best með sjálfar sig. Flestar þekkja orðið vel styrkleika sína og veikleika á þessum aldri, auk þess sem konum hefur tekist ýmislegt og skilað mörgu vel af sér. Þær hafa náð sátt og eru þakklátar fyrir hvern dag.

  Fordómar gagnvart aldri leynast hins vegar á mörgum stöðum og Eva Dögg varð vör við það. „Ég mætti ákveðnum viðbrögðum víða þar sem ég sótti um. Eitt sinn tók á móti mér í atvinnuviðtali ungur strákur, svona sölumanns töffaratýpa sem vann fyrir starfsráðningarfyrirtæki hér í borg. Í lok viðtalsins sagði hann við mig: „Nei, þeir vilja  örugglega eitthvað nýtt og ferskt.“ Eftir á að hyggja efast ég stórlega um að umsóknin mín hafi borist atvinnurekandanum sem var að auglýsa þetta starf. Ég man að ég hugsaði með mér eftir viðtalið, já, er ég bara á síðasta söludegi? Ég datt í smávegis niðurrif en fann þetta að vísu líka þegar ég fór í viðtal þar sem kona sem tók viðtalið fór að spyrja mig spurninga sem komu viðtalinu ekkert við.“

  AUGLÝSING


  Í Evu Dögg býr mikið frumkvöðlaeðli en það sýndi sig ekki hvað síst þegar hún setti á stofn eina fyrstu netverslun á Íslandi með fatnað og fylgihluti. Hún sló í gegn og margir höfðu áhuga á að fjárfesta í fyrirtækinu. Ekki stóðu allir við sitt og Eva og fyrri maður hennar misstu aleiguna í kjölfarið. „Það er ákveðið sjokk en frumkvöðlar lenda í slíku. Þessi vitleysa að gangast sjálfur í ábyrgð eða fá til þess ættingja eða vini á náttúrlega ekki að eiga sér stað. Til allrar lukku var það ekki þannig hjá okkur. Það voru bara við tvö. Við vorum með gott tekjuhlið þegar við byrjuðum með fyrirtækið, vorum búin að ljúka námi og höfðum bæði gengt góðum störfum. En við vorum skrifuð fyrir þessu og eðli málsins samkvæmt tókum við ein ábyrgð á því.“

  Þetta var auðvitað áfall en Eva gafst ekki upp. „Eftir að Internet-loftbólan sprakk leið mér þannig að ég gæti ekki byrjað aftur en svo bara leysir lífið sig sjálft ef maður trúir og er jákvæður og þakklátur. Það eru alltaf tækifæri maður þarf bara að elta þau og ná í þau.“

  Meira um þessa mögnuðu kona má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Mynd: Aldís Pálsdóttir

  Förðun: Silja Dröfn Jónsdóttir

  Hár: Þuríður Hildur Halldórsdóttir á Onix

  Fatnaður: Í einkaeigu, nema skyrta og buxur úr Boutique Bella.

   

  Ekki missa af þessum

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is