Magnaðar konur á forsíðum Vikunnar

Deila

- Auglýsing -

Á þessu ári skreyttu forsíðu Vikunnar ótal konur sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa merka sögu að segja.

Vikan leggur metnað sinn í að sýna hve margbreytilg og stórkostleg uppsprettulind hæfileika íslenskar konur eru. Á forsíðu blaðsins hafa birst sterkar konur sem deilt hafa með okkur sigrum og sorgum, veitt innsýn í líf sitt, verið innblástur og opnað nýja sýn. Við minnum á tíu þessara einstöku kvenna og hlökkum til að halda áfram að fjölga hópnum á nýju ári.

Olga Steinunn Weywadt Stefánsdóttir

„Vil að börnin mín muni allt hið góða“

Olga Steinunn Weywadt Stefánsdóttir er með ólæknandi krabbamein og veit ekki hve langan tíma hún fær hér á jörð. Hún kýs að einbeita sér að því að lifa og hefur fundið margar leiðir til að auka lífsgæði sín þrátt fyrir að oft eigi hún erfitt með að komast fram úr rúminu á morgnana. Þessi kraftmikla kona stundar sund og lét tattúera fallegt mynstur yfir örið eftir brjóstnámið. Myndin hjálpar henni að einbeita sér að því að njóta litlu hlutanna og hvers dags sem henni er gefinn.

_________________________________________________________

Þóreyju Sigþórsdóttur og Heru Hilmarsdóttur

„Á sviði í iðnó og stórmynd í Hollywood”

Vikan heimsótti mæðgurnar Þóreyju Sigþórsdóttur og Heru Hilmarsdóttur að heimili Þóreyjar í ársbyrjun þar sem þær voru í óða önn að setja á svið uppfærsluna Andaðu sem sýnt var í Iðnó og fékk glimrandi viðtökur. Óhætt er að segja Heru standa á þröskuldi heimsfrægðar því þegar viðtalið fór fram var von á frumsýningu tveggja stórmynda þar sem Hera fór með burðarhlutverk. The Ottoman Lieutenant og An Ordinary Man hafa nú báðar verið frumsýndar en innan skamms má vænta þess að sjá Heru í aðalhlutverki kvikmyndarinnar Mortal Engines eftir Peter Jackson. Það verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með þessari sístækkandi stjörnu í framtíðinni.

_________________________________________________________

Sigrún Jóna Sigurpálsdóttir

„Eins og að losna úr fangelsi“

Sigrún Jóna Sigurpálsdóttir hefur vakið mikla athygli á samskiptamiðlinum Snapchat þar sem hún deilir þrifaráðum og daglegu lífi fjögurra barna húsmóður á Egilsstöðum. Hún kemur til dyranna eins og hún er klædd en þannig hefur líf hennar ekki alltaf verið. Lengi átti hún leyndarmál sem hún reyndi að fela fyrir flestum. Hún þróaði með sér átröskunarsjúkdóm í kjölfar erfiðleika en svo undarlega brá við að fitness-íþróttin hjálpaði henni að átta sig á að hægt væri að borða án samviskubits og njóta matarins. Við hittum Sigrúnu í byrjun árs þegar hún var ófrísk af fjórða barninu og opnaði sig um sjúkdóminn sem flestir fela í lengstu lög.

_________________________________________________________

Kristborg Bóel Steindórsdóttir

„Þetta er bara djöflinum og andskotanum erfðara“

Kristborg Bóel Steindórsdóttir er einn af umsjónarmönnum mannlífsþáttarins Að austan á sjónvarpsstöðinni N4. Hún er skelegg, hreinskiptin og jákvæð og fæddist síður en svo með silfurskeið í munni. Í opinskáu viðtali sagði hún okkur meðal annars frá uppeldi í skugga alkóhólisma, þegar hún kom að föður sínum látnum og skilnuðunum tveimur sem hún hefur farið í gegnum. Eftir seinni skilnaðinn tók hún líf sitt til gagngerrar endurskoðunnar og stefnir á útgáfu bókar um reynslu sína.

_________________________________________________________

Margrét Jónsdóttir

„Krísa þýðir tækifæri á kínversku“

Margir líkja breytingaskeiði kvenna við seinna gelgjuskeiðið. Þá eiga sér stað mikar félagslegar breytingar í lífi þeirra – sumar hætta í vinnu sem þær eru í, aðrar skilja og enn aðrar stokka spilin alveg upp á nýtt. Segja má að allt þetta eigi við um Margréti Jónsdóttur Njarðvík. Hún söðlaði um og skipti um starfsferil, stofnaði sitt eigið fyrirtæki auk þess sem hún skildi eftir þrjátíu ára samband.

_________________________________________________________

Telma Matthíasdóttir

„Þekki vel hversu erfitt er að moka sig upp úr sykursvartnættinu“

Telma Matthíasdóttir hefur verið vinsæll einkaþjálfari um árabil en hefur ekki alltaf verið í jafngóðu formi og hún er í í dag. Telma hefur bæði glímt við aukakíló og alvarleg veikindi sem rændu hana heilsunni um tíma. Hún er hér í persónulegu og einlægu viðtali. Auk þess gefur hún lesendum nokkrar góðar æfingar sem hægt er að gera hvar sem er og ljúffenga uppskrift að hollu sælgæti.

_________________________________________________________

Anna Lísa Ríkharðsdóttir

„Í mörg ár kenndi ég mér um”

Anna Lísa Ríkharðsdóttir ólst upp hjá einstæðri, andlega veikri móður. Hún þurfti snemma að taka mikla ábyrgð og þegar móðir hennar svipti sig lífi á sjálfsvígsvakt á geðdeild breyttist líf systkinanna varanlega. Anna Lísa getur nú horft til baka af skilningi og yfirvegun fullorðinnar konu. Veikindi móðurinnar byrjuðu líklega sem fæðingarþunglyndi en sjálf eignaðist Anna Lísa þríbura fyrir tæpu ári en því hefur einungis fylgt gleði og ánægja.

_________________________________________________________

Jenný Valberg

„Gekk nánast eignalaus frá borði en skorti í raun ekki neitt“

Fyrir tveimur árum yfirgaf Jenný Valberg eiginmann sinn til þrettán ára, buguð á sál og líkama. Henni fannst fjarstæðukennt þegar samferðafólk benti henni á að leita til Kvennaathvarfsins þar sem hún hafði aldrei lent í alvarlegu líkamlegu ofbeldi. Það kom henni því verulega á óvart þegar ráðgjafinn sem tók á móti henni þar sagðist hafa heyrt hennar sögu margoft. Jenný segist ekki geta lofsamað starfið í Kvennaathvarfinu nógsamlega og ákvað eftir umhugsun að segja sögu sína til að vekja athygli á starfinu og ljá konum og börnum í sömu aðstæðum rödd. Á síðasta ári rann allt söfnunarfé verkefnisins Á allra vörum til Kvennaathvarfsins og Jenný var ein af þeim hugrökku konum sem sögðu sögu sína af því tilefni.

_________________________________________________________

Valgerður Á. Rúnarsdóttir

„Það hefur verið gott að lifa allsgáðu lífi öll þessi ár“

Valgerður Á. Rúnarsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra lækninga hjá SÁÁ og forstjóra sjúkrahússins Vogs af Þórarni Tyrfingssyni í lok maí síðastliðnum. Hún er sérmenntuð í fíknlækningum og hefur unnið við stofnunina í 17 ár. Sjálf er hún í bata frá fíknisjúkdómi og þekkir því málefnið frá öllum hliðum. Í viðtalinu ræðir hún um nýjar áherslur í meðferðarmálum, afleiðingar fíknar og skilningsleysi samfélagsins. Starf hennar er stundum erfitt en gefandi þegar hún verður vitni að því að fólk finni sjálft sig aftur og nái bata. Valgerður er í fjarsambandi við mann sem hún kynntist fyrst sextán ára en leiðir skildi. Þegar þau hittust aftur gerðist eitthvað og ástin hefur nú náð að blómstra í ellefu ár.

_________________________________________________________

Alda Karen Hjaltalín

„Bakvið hverja sterka konu stendur önnur sterk kona”

Alda Karen Hjaltalín tók við starfi sölu- og markaðsstjóra hjá Saga Film aðeins nítján ára gömul. Nú fimm árum síðar er hún búsett í New York og gegnir sams konar starfi fyrir Ghostlamp. Alda Karen hefur einstætt viðhorf til lífsins sem án efa á stóran þátt í skjótum frama hennar. Hún talar um ástin, gleðina, vinnuna og viðhorfin í Vikunni.

- Advertisement -

Athugasemdir