2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Málaði bandarískt mannlíf

  Edward Hopper var raunsæislistamaður með næmt auga.

  Edward Hopper, sjálfsmynd.

  Aðspurður um list sína og sköpun var Edward Hopper vanur að svara: „Það er allt þarna á striganum.“ Hann þótti stóískur og jarðbundinn í viðhorfum sínum til lífsins og jafnframt hlédrægur, hreinskiptinn og skemmtilegur húmoristi. Þessi einstaki málari endurspeglaði daglegt líf bandarísku þjóðarinnar í byrjun 20. aldar og óvenjuleg næmni skín úr myndum hans.

  Hann var meistari í að nota birtu til að undirstrika og koma á framfæri stemningu. Málverk hans endurspegla sýn hans á amerískt líf bæði til sveita og í borgum. Edward Hopper var fremur íhaldssamur í skoðunum og sætti sig við hlutina eins og þeir voru.

  Raunsæi er áberandi í verkum hans án þess að hann sé beinlínis að reyna að hafa áhrif eða breyta. Þetta hefur verið túlkað sem skortur á hugsjónum en í yfirlýsingu sem hann skrifaði um list sína segir hann að stórkostleg list hljóti alltaf að vera tjáning á innra lífi listamannsins og hans persónulegu sýn á veröldina. Hann talar um kraft ímyndunaraflsins sem ómissandi hreyfiafls í verkum listamanna sem engin tækniþekking geti í raun komið í staðinn fyrir. Hann telur einnig að ekki eigi að reyna að beisla ímyndunaraflið með vitrænum vangaveltum. Innra líf mannsins sé víðfeðmt ríki sem nái ekki eingöngu til þess að örva samsetningu lita, forma og skipulags.

  „Hann telur einnig að ekki eigi að reyna að beisla ímyndunaraflið með vitrænum vangaveltum. Innra líf mannsins sé víðfeðmt ríki sem nái ekki eingöngu til þess að örva samsetningu lita, forma og skipulags.“

  AUGLÝSING


  Undirmeðvitundin smitast á strigann

  Í þessari hugmyndafræði felst ákveðin hugsjón og vitað er að Edward var mjög áhugasamur um kenningar Freuds um undirmeðvitundina, enda hafa margir þóst skynja í verkum hans boðskap og einkum og sér lagi geta lesið úr ótal smáatriðum sem slæðst hafi inn í verkin þótt málarinn hafi ekki endilega ætlað sér að skila með þeim táknrænni merkingu.

  Edward Hopper er best þekktur fyrir olíu- og vatnslitamyndir sínar en hann vann þónokkuð oft með ætingar. Í skissubókum hans er sömuleiðis að finna margar einkar fallegar og fínlegar blýantsteikningar sem hafa vakið athygli listfræðinga þó að listamaðurinn sjálfur hafi aldrei ætlað að sýna þær opinberlega. Hann vann sérstaklega með fleti og skipulagði málverkið út frá ákveðinni flatarmálsfræði. Manneskjum var síðan raðað inn í flötinn á þann hátt að þær röskuðu ekki jafnvæginu. Hann var ákaflega nákvæmur í öllum vinnubrögðum og hann sagði að það tæki sig langan tíma að fá hugmyndir og hann þyrfti síðan að hugsa lengi um þær áður en hann gæti farið að vinna. „Ég byrja ekki að mála fyrr en ég hef sett allt vandlega niður fyrir mér í huganum. Það er allt í lagi með mig þegar ég kem að trönunum.“

  Edward fæddist þann 22. júlí 1882 í Nyack í New York. Smábæ þar sem allt snerist um snekkjusmíðar. Faðir hans hét Garret Henry Hopper en móðir hans Elizabeth Griffiths Smith. Pabbi hans var fatakaupmaður og móðir hans erfði talsvert fé og hjónin voru því nokkuð vel stæð. Þau tilheyrðu baptistakirkjunni og voru ákaflega trúuð. Konurnar í Hopper-fjölskyldunni voru sterkir persónuleikar og móðir hans, amma og systir voru ráðandi á heimilinu.

  Night Hawks eða Nátthrafnar, dásamlegt verk frá árinu 1942.

  Mjósleginn og feiminn húmoristi

  Í fyrstu sjálfsmyndum sínum sýndi Hopper sjálfan sig sem mjósleginn, slánalegan og frekar óaðlaðandi ungling en þótt hann hafi verið hávaxinn og feiminn heilluðust flestir af næmu skopskyni hans sem kemur vel fram í málverkunum. Hann ætlaði sér að verða skipaarkitekt en hætti við og ákvað að læra myndlist. Foreldrar hans heimtuðu að hann legði fyrir sig hagnýtt listnám svo hann hefði einhver ráð með að sjá fyrir sér ef í harðbakkann slægi. Hann hóf listnámið í bréfaskóla en fór síðan í fullt nám í New York Institute of Art and Design.

  Á mótunarárunum heillaðist Edward mjög af Ralph Waldo Emerson og las bækur hans spjaldanna á milli. Þónokkur áhrif frá frönsku meisturunum Édouard Manet og Edgar Degas má greina í fyrstu myndum hans en síðar fór að kveða við sérstæðan og persónulegan tón. Einn kennara hans, Robert Henri, hvatti nemendur sína til að fara út í veröldina og hræra svolítið upp í henni. Hann minnti þá einnig reglulega á að það væri ekki viðfangsefni myndarinnar sem skipti máli heldur hvernig þeim liði gagnvart því og þriðja lexía hans var: „Gleymið listinni og málið myndir af því sem vekur áhuga ykkar í lífinu.“ Robert kenndi námskeið þar sem teiknað var og málað með lifandi fyrirsætur í salnum en það reyndist hinum fastheldna Edward erfitt í fyrstu einkum ef módelin voru nakin. Allt vandist þetta þó og boðskapur Roberts Henri síaðist inn.

  „Það var svo loks árið 1923 að Eward náði að slá í gegn. Hann kynntist konu sinni, Josephine Nivison, þetta ár en hún var alger andstæða hans að því leyti að hún var opin, félagslynd og átti auðvelt með að kynnast fólki.“

  Að námi loknu fékk Edward vinnu á auglýsingastofu og gerði þar forsíður á fagtímarit, myndskreytingar og fleira. Hann fyrirleit hins vegar starf sitt en neyddist til að gegna því til að hafa í sig og á. Á þessum árum tókst honum þrisvar að ferðast til Evrópu til að soga í sig listina þar og kynntist m.a. verkum Picassos í París. Hann sá einnig Næturverðina eftir Rembrandt á slíku ferðalagi og heillaðist gersamlega. Enduróm af þeim áhrifum er að finna í hans eigin verki Night Hawks eða Næturhaukar/Nátthrafnar.

  Raunsæismálari fyrst og fremst

  Ólíkt flestum samtímamönnum sínum reyndi Edward sig lítið við abstraktlist. Hann sat löngum stundum á kaffihúsum, í leikhúsum og annars staðar þar sem fólk kom saman og málaði síðan raunsæjar myndir af því sem fyrir augu bar. Hann leigði sér stúdíó í New York árið 1912 en varð áfram að vinna við myndskreytingar í lausamennsku til að eiga salt í grautinn. Næstu árin voru honum erfið. Honum tókst að selja mynd sína Siglingu á hinni þekktu Armory-sýningu árið 1913 en langt var þar til nokkur fór að veita myndlist hans athygli.

  Faðir hans lést sama ár og það gerði Edward kleift að flytja í íbúð í Greenwich Village sem var helsti suðupunktur listalífs í Bandaríkjunum á þessum árum. Hann bjó þar það sem eftir var

  Hopper málaði mikið hús og byggingar en þessi mynd, Húsið við járnbrautarteinana, var máluð árið 1925.

  ævinnar en um þetta leyti hóf hann að gera ætingar meðfram málverkunum. Hann fékk einnig vinnu við að gera auglýsingaplaköt fyrir kvikmyndaver og þótt hann væri almennt ekki hrifinn af slíkum störfum var hann einlægur aðdáandi kvikmynda og það gerði honum vinnuna bærilegri.

  Það var svo loks árið 1923 að Eward náði að slá í gegn. Hann kynntist konu sinni, Josephine Nivison, þetta ár en hún var alger andstæða hans að því leyti að hún var opin, félagslynd og átti auðvelt með að kynnast fólki. Hún var einnig listamaður en gaf eigin feril upp á bátinn til að einbeita sér að því að koma verkum manns síns á framfæri. Hún kom sex af vatnslitamyndum hans inn á sýningu í Brooklyn Art Museum og safnið keypti eina þeirra. Eftir þetta tók boltinn að rúlla og Hopper-hjónin nutu fjárhagslegrar velgengni og stöðugleika allt fram að andláti Edwards 15. maí árið 1967. Ekki var langt milli þeirra hjóna því Josephine dó tíu mánuðum síðar. Þau arfleiddu Whitney Museum of America að málverkasafni sínu sem samanstóð af yfir 3000 verkum.

  Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is