Mannorðsmissir og fjárhagstjón

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Margir þekktir Íslendingar hafa þurft að beita ýmsum brögðum til að endurheimta samfélagsmiðla sína og láta eyða gerviprófílum í þeirra nafni.

Stuldur á persónuupplýsingum eða „identity theft“ kallast auðkennisþjófnaður á íslensku. Glæpir af þessu tagi eru í hröðum vexti í heiminum og þjófarnir notfæra sér upplýsingarnar á margvíslegan hátt. Nokkrar tegundir auðkennisþjófnaða eru til, allt frá stuldi af bankareikningum og kreditkortum upp í að stofna til skulda eða tilfinningalegra skuldbindinga í nafni annarrar manneskju. Oft er erfitt fyrir löggæsluyfirvöld að rekja slóðina og víða erlendis þekkist að mörg ár tekur að vinda ofan af þessu.
Þessi glæpur felst í því að einhver tekur nafn annars, stundum líka kennitölu og heimilisfang, traustataki og nýtir þessar upplýsingar til að draga sér fé eða stofna til kynna við aðrar manneskjur. Sá sem fyrir þessu verður er oft ómeðvitaður um hvað er í gangi en fyrr eða síðar springur blaðran.

Hvernig gerist þetta?

Hér er um fjölbreytta flóru glæpa að ræða. Til dæmis hefur margoft komið fyrir á Íslandi að fólk geti skráð lögheimili sitt í þjóðskrá á heimilisföng þar sem það hefur aldrei búið. Póstur berst þá þangað og til í dæminu að viðkomandi mæti til að sækja hann. Þess eru einnig dæmi að einstaklingar gefi upp nöfn og kennitölur kunningja sinna eða vina þegar þeir eru handteknir en til allrar lukku uppgötvast slíkt yfirleitt fljótt. Alvarlegra er, eins og gerst hefur erlendis, þegar menn nota nöfn og kennitölur annarra til að stofna reikninga í bönkum og fá jafnvel kreditkort í nafni sama einstaklings eftir einhvern tíma. Angi af þessum meiði er þegar kreditkortanúmerum eða kortinu sjálfu er stolið og stundum tekst að taka háar fjárhæðir út af reikningum fólks.

„Reikningurinn minn var hakkaður á mjög lúmskan máta. Það var eiginlega engin leið að átta sig á því að þetta væru hakkarar.“

Stundum snúast þessir glæpir ekki um peninga. Mjög margt þekkt fólk hefur orðið fyrir því að einhver þeim ókunnur steli myndum þess af samfélagsmiðlum og stofni nýjan reikning í þess nafni. Þessir einstaklingar safna síðan vinum og setja sig í samband við fólk í gegnum miðlana allt á fölskum forsendum. Það getur tekið tíma að vinda ofan af slíku og stundum bæta tilfinningalegan skaða sem einhver hefur orðið fyrir. Algengt er einnig að skipulögð svikastarfsemi í þriðjaheimsríkjum steli myndum, stofni gerviprófíla og noti þá til að hafa fé af einmana fólki út um allan heim.

Gagnastuldur

Gagnastuldur á sér stað þegar svikahrappur sendir tölvupóst eða setur sig á annan hátt í samband við manneskju og platar hana til að gefa upp upplýsingar um sjálfa sig eða senda sér reikningsnúmer sitt eða kreditkortanúmer. Stundum hakka menn sig einfaldlega inn á ákveðnar síður og stela gögnunum þaðan eða inn í tölvur manna með hjálp vírusforrita. Vegna þess hve víða fólk stundar orðið viðskipti á netinu og gefur upp ýmsar fjármálaupplýsingar er ógerningur að koma í veg fyrir þetta. Eina ráðið til að verjast er að fylgjast vel með öllum færslum á kortum sínum og reikningum og uppfæra reglulega notendanöfn og aðgangsorð að öllum netreikningum. Geri menn það er bæði minni líkur á að hægt sé að hakka sig inn á reikninga þeirra og að notfæra sér upplýsingar þeirra, verði þeim stolið, í langan tíma.

Ótryggar síður

Yfirleitt er auðvelt og þægilegt að leita, kaupa, skoða og tala saman á netinu en vefsíður er misöruggar. Menn ættu að gæta þess að versla aðeins við þekkta aðila og gæta þess að greiðslusíðurnar séu öruggar. Flestir vafrar bjóða upp á þann möguleika að kanna öryggi síðna sem farið er inn á og sumir senda út tilkynningu: This is not a secure site.

Markaðstorg djúpvefsins

Á djúpvefnum eða „the dark web“ eru margvísleg markaðstorg þar sem seld eru lyf, vopn, tæknibúnaður, þýfi og ótalmargt fleira sem ekki þolir dagsljósið. Fæstir heiðarlegir borgarar hætta sér þangað en þar er engin leið til að verja upplýsingar þínar eða skapa umhverfi þar sem gögn eru falin og varin. Þar eru einnig gjarnan seldar persónuupplýsingar sem hökkurum og öðrum svikahröppum hefur tekist að stela.

Illskeyttir vírusar

Vírusar eru illviðráðanleg forrit búin til af snjöllu tæknifólki í þeim tilgangi að brjótast inn tölvur annarra. Stundum er tilgangurinn að stríða og valda óþægindum en einnig að stela bæði peningum og upplýsingum. Sumir hakkarar eru farnir að búa til vírusa í þeim tilgangi að taka yfir tölvur einstaklinga og halda þeim í gíslingu. Sá sem fyrir því verður þarf að borga hakkaranum háar fjárhæðir fyrir að sleppa tökum á tölvunni.

Svindlpóstar

Þótt flestum finnist svindlpóstar hlægilegir og auðvelt að sjá í gegnum þá eru alltaf einhverjir sem falla í gryfjuna. Einkum er þar um að ræða fólk sem hefur ekki mikla tækniþekkingu og er hrekklaust. Hér á landi vill svo heppilega til að tungumálið ver okkur að upp að vissu marki. Þótt svindlarar noti „google translate“ eru skilaboðin oftast nær á svo slæmu máli að það gerir þau tortryggileg. Því miður er þetta þó í sífelldri þróun, bæði eru svikahrapparnir stöðugt að verða betri í því sem þeir gera og málfar á bréfum, skilaboðum og tölvupóstum frá fyrirtækjum sífellt að versna en það gerir það erfitt að greina á milli svindlpósta og þess sem er raunverulegt. Best er að hringja alltaf og fá staðfest að skilaboðin komi raunverulega frá banka, símafyrirtæki, netþjónustu eða öðru fyrirtæki sem heimilið á viðskipti við.

Hökkun WiFi-neta

Hakkarar eiga orðið mjög auðvelt með að brjótast inn á almenningsnet eða WiFi-net. Ef þú tengist oft slíkum almenningsnetum ættir þú að gæta þess vel að fara ekki inn á banka eða sækja viðkvæmar upplýsingar meðan tölvan þín tengist þeim.

Lífið í símanum
Snjallsímar geyma ótrúlega miklar upplýsingar um eigendur sína Þótt núorðið sséu flestir með símana læsta og ekki hægt að komast inn í þá nema með fingrafari eða aðgangsorði er alltaf möguleiki á að þjófar komist fram hjá slíkum vörnum. Gætið símanna ykkar þess vegna vel.

Engin leið að átta sig á svikunum

Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason sagði frá því í podcast-þætti sínum að hann hefði orðið fyrir árás af þessu tagi. Þá var Sölvi að vinna að því að ná til baka upplýsingum sínum, myndum og öðru sem nethrellirinn hafði komið höndum yfir af Facebook-reikningi hans. Okkur lék forvitni á að vita hvernig málin standa núna.

Hvað gerðist? „Reikningurinn minn var hakkaður á mjög lúmskan máta. Það var eiginlega engin leið að átta sig á því að þetta væru hakkarar,“ segir Sölvi.

Hvað gerðir þú til að bjarga málunum? „Ég setti mig í samband við tölvusérfræðinga sem gerðu sitt besta, náði Instagraminu mínu til baka og bjó til öflugri öryggisleiðir þar, talaði við lögregluna, en á reyndar enn eftir að heyra frá þeim.“

Var það flókið eða mikil fyrirhöfn? „Það er mjög flókið að ná svona til baka, þar sem Facebook er að verða bara róbótafyrirtæki og mjög erfitt að ná tali af manneskjum þar, lögreglan virðist einhverra hluta vegna lítið gera, þannig að það sem kemur fólki lengst eru tengsl við aðila sem kunna á svona.“

Hefur þú hugsað þér að kæra brotið? „Nei, þar sem mér sýnist lögreglan ekkert gera í þessu, því miður,“ segir hann að lokum.

Fleiri þekktir Íslendingar hafa orðið fyrir barðinu á auðkennisþjófum. Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens hefur frá árinu 2017 reynt að leita réttar síns vegna Instagram-reiknings sem stofnaður var í hans nafni og þjófurinn sendi konum og stúlkum kynferðisleg skilaboð. Bubbi áleit þetta blett á mannorði sínu og vildi ekki sitja undir því. Hann leitaði til lögreglu, tölvusérfræðings og lögfræðinga en engin leið virtist fær til að koma lögum yfir þann sem þetta gerði. Það vantaði einfaldlega lagaákvæði sem gerði auðkennisþjófnað refsiverðan í hegningarlöggjöf okkar.

Allir Íslendingar fylgdust stoltir með sigurgöngu Hildar Guðnadóttur tónskálds á síðasta og þar síðasta ári. En velgengnin hafði ekki eingöngu í för með sér gleði og tækifæri. Einhver óprúttinn aðili bjó til falskan prófíl á Twitter og þóttist vera Hildur. Þar lét þessi manneskja alls konar ummæli falla sem voru ekki í neinu samræmi við viðhorf Hildar sjálfrar. Þegar tónskáldið komst að þessu hvatti hún fólk til að fylgjast með raunverulegri Twitter-síðu sinni og kærði auðkennisþjófnaðinn. Reikningnum var lokað en hver sá sem stóð þar að baki þurfti ekki að svara til saka.

Sif Sigmarsdóttir, blaðamaður, pistlahöfundur og rithöfundur, varð einnig fyrir auðkennisþjófnaði. Hún skrifaði í bakþönkum um þessa reynslu sína: „Ég var fórnarlamb auðkennisþjófnaðar fyrir skömmu þar sem ég bý í London. Óprúttnum aðilum tókst að plata þjónustufulltrúa í bankanum mínum til að senda mér nýtt debetkort. Þeir vöktuðu póstkassann minn og stálu kortinu úr kassanum þegar það barst. Siðan fóru þeir í hraðbanka og tæmdu reikninginn minn“
Sif var svo heppin að hún fékk endurgreitt frá bankanum sínum það sem stolið var en seinna í pistlinum segir hún: „Ég kærði ekkert til lögreglu. Enginn var dæmdur. Enginn efaðist þó um að þrjú hundruð pundum hefði verið stolið af reikningnum mínum.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -