2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Margslungið mannlegt eðli

  Eldsnemma að morgni fyrir áttatíu árum stóð ung kona á grasflöt í Cornwall og virti fyrir sér fallegt hús. Hún var þarna í óleyfi eigenda en stóðst ekki mátið að ganga eftir heimreiðinni upp að húsinu. Sólin var að koma upp og í huga hennar kviknaði setning sem átti eftir að verða upphafið að einni alvinsælustu skáldsögu allra tíma. Rebecca var að verða til.

  Unga konan hét Daphne du Maurier og húsið Menabilly. Síðar átti hún eftir að taka það á leigu, gera það upp og búa þar um árabil. Þegar sagan um Rebeccu de Winter fór að taka á sig mynd gaf hún því annað nafn og nefndi það Manderley. „Last night I dreamt I went to Manderley again“ er án efa ein þekktasta og áleitnasta upphafslína nokkurrar bókar. Hún gefur til kynna að Manderley sé að eilífu horfið, að þar hafi verið eitthvað eftirsóknarvert að finna en jafnframt er þarna vottur af einhverju ískyggilegu. Lesandinn verður að lesa áfram, komast að því hvað gerðist og hvers vegna.

  Við fyrstu sýn fannst Daphne hún horfa á höllina úr ævintýrinu Þyrnirós þegar hún kom að Menabilly. Gluggarnir lokaðir með hlerum fyrir og gráir veggirnir huldir bergfléttu. Heimreiðin hlykkjast svo ekki sést í húsið fyrr en komið er alveg að því og lýsingin á leiðinni hreint út sagt snilldarlega skrifuð á fyrstu síðu sögunnar.

  Þetta er reyndar einkenni allra bóka höfundar en þær þekktustu, Jamacia Inn, My Cousin Rachel og The House on the Strand, bera sömu merki, fagrar lýsingar en einhver þungur undirtónn er gefur til kynna að ógn búi undir niðri, ekki sé allt sem sýnist.

  Eftir öllum þessum bókum Daphne hafa verið gerðar leikgerðir og kvikmyndir. Árið 2014 var  gerð þriggja þátta sería eftir Jamaica Inn og þremur árum síðar var hún sýnd á RÚV. Í fyrra kom svo kvikmynd eftir My Cousin Rachel með Rachel Weisz í aðalhlutverki en áður hafði verið gerð þáttaröð hjá BBC eftir bókinni með Geraldine Chaplin í hlutverkinu.

  AUGLÝSING


  Nú er í vinnslu ný mynd gerð eftir Rebeccu með Lily James og Armie Hammer í aðalhlutverkum. Hingað til er líklega mynd Hitchcocks með Laurence Olivier og Joan Fonataine sú eftirminnilegasta en hún var gerð árið 1940, aðeins tveimur árum eftir að bókin kom út.

  Fyrstu kynni hennar af húsinu í Cornwall kveiktu vissulega hugmyndina að bókinni en síðar viðurkenndi Daphne að hún hefði einnig verið á ákveðnum krossgötum sjálf. Eiginmaður hennar, Fredrick Browning, hafði verið trúlofaður áður, konu að nafni Jan Ricardo. Sú þótti óvenjulega glæsileg og fögur og Daphne fann fyrir ákveðinni afbrýðisemi og í minnisbók sína skrifaði hún að sagan af hinni seinni frú de Winter ætti að vera könnun á þeirri tilfinningu.

  Greinina um Daphne du Maurier má lesa í fullri lengd er að finna í nýjustu Vikunni.

  Vinsældir þessarar ótrúlega spennandi sögu hafa aldrei dvínað og hún virðist höfða jafnt til allra. Skemmtileg og kannski svolítið kaldhæðin staðreynd er að hún var notuð sem lykill að dulmáli þýskra njósnara í seinni heimstyrjöldinni. Lengri grein um Daphne du Maurier er í nýjustu Vikunni.

  Ekki missa af þessum

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is