Fimmtudagur 28. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Markmiðið að geta gengið fyrir þrítugt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dagurinn 13. júlí 2015 mun seint líða Tinnu Guðrúnu Barkardóttur úr minni. Hún var 29 ára gömul, í blóma lífsins. Þennan örlagaríka dag breyttist tilvera hennar varanlega þegar hún fékk heilablóðfall sem nærri kostaði hana lífið. Tinna hefur tekist á við erfiðleikana af æðruleysi og dugnaði, en hún gagnrýnir íslenska heilbrigðiskerfið harðlega, og segir óásættanlegt að almennileg þjónusta eftir álíka áföll snúist um peninga.

Það var mánudagsmorgunn og Tinna á leið í vinnu, en hún starfaði sem yfirflokkstjóri í Vinnuskólanum á þessum tíma. Helginni hafði hún varið með vinkonum sínum á Akureyri. Þegar komið var að því að gera sig til fyrir vinnuna fór hún inn á baðherbergi þar sem hún datt skyndilega beint fram fyrir sig og lenti á andlitinu á baðherbergisflísunum. Blóðtappi hafði skotist upp í heila. Seinna kom í ljós að Tinna var með op á milli hjartagátta, óhreinsað blóð komst þar í gegn og fór með slagæð upp í höfuðið.

Tinna missti ekki meðvitund við fallið og lá áfram á gólfinu og reyndi að átta sig á stöðunni. Hún gat sig hvergi hreyft en vissi að hún þyrfti að halda sér vakandi. Seinna sögðu læknar henni að flestir hefðu í þessari stöðu lokað augunum, en hefði hún gert það hefði hún dáið. Hundurinn hennar, Dimma, lá í dyragættinni en eina reglan sem gilti á heimilinu var að hún færi ekki inn á baðherbergi.

Tíminn leið og símarnir hennar, vinnusíminn og hennar eigin, byrjuðu að hringja til skiptis. „Ég man eftir að hafa hugsað „hvaða aumingjar eru þetta sem vinna hjá mér, eru bara allir að hringja sig inn veika í dag.“ Mér datt einhvern veginn ekki í hug að fólk væri að hringja til að athuga með mig,“ segir Tinna þegar hún rifjar upp þennan örlagaríka morgun. „Ég áttaði mig ekki á hvað hefði gerst, en var viss um að ég væri dáin. Þarna fékk ég gríðarlega langan tíma til að hugsa, og mjög skrítnar hugsanir sóttu á mig. Mig langaði til dæmis að komast í heimabankann minn til að millifæra yfir á foreldra mína svo þau þyrftu ekki að borga jarðarförina. Það sem hélt líka í mig var samningur sem ég hafði gert nokkru áður við góða vinkonu mína. Þá töluðum við um að við þyrftum að ákveða tölu og lit, og þegar önnur okkar dæi færi hin til miðils til að athuga hvort þetta stæðist.“

Í vinnunni var fólk farið að undrast um Tinnu. Það var mjög óvanalegt að hún væri ekki mætt til vinnu og ekkert hefði heyrst frá henni.

Upp úr hádegi hringdi vinkona hennar og samstarfsfélagi í móður hennar og sagðist halda að eitthvað hefði komið fyrir. Eitthvað væri ekki í lagi, hvort hún ætti að fara heim til hennar og athuga með hana eða hvort þau, foreldrar hennar, vildu fara. Ákveðið var að pabbi Tinnu og yngri systir, Fanney, færu til að athuga með hana. Þegar þau komu og börðu að dyrum kom enginn til dyra, en þau heyrðu í Tinnu fyrir innan þar sem hún reyndi af veikum mætti að kalla til þeirra. Eftir að hafa reynt að sparka upp hurðinni án árangurs, hljóp pabbi hennar út og náði á einhvern undraverðan hátt að stökkva upp á svalirnar, en íbúð Tinnu var á annarri hæð. „Það skilur ennþá enginn hvernig hann fór að þessu. Svalirnar eru lokaðar og ekkert til að grípa í. En maður hefur stundum heyrt sögur af ótrúlegum krafti sem kemur yfir foreldra þegar börnin þeirra eru í hættu, eins og þegar konur geti skyndilega lyft bílum til að bjarga barninu sínu undan þeim. Þetta var eitthvað svoleiðis, hann stökk þarna upp og stakk sér svo inn um 30 sentímetra glugga.“

Þegar pabbi hennar var kominn inn í íbúðina og búinn að opna fyrir Fanneyju, fundu þau Tinnu á baðherbergisgólfinu. Þar hafði hún legið í rúmar sex klukkustundir. Hún var blóðug eftir að hafa fallið á andlitið, og þeirra fyrsta hugsun var að hún væri dáin. Tinna man vel eftir þessum andartökum. „Það var mjög sérstök tilfinning að liggja þarna, ég hélt ennþá að ég væri dáin, en vissi af fólkinu mínu þarna og fann það stumra yfir mér og athuga hvort ég andaði. Þau hringdu svo á sjúkrabíl sem kom nokkrum mínútum síðar.“

- Auglýsing -

//

Svona hefst frásögn Tinnu Guðrúnar Barkardóttur af deginum sem breytti lífi hennar fyrirvaralaust. Hún hefur tekist á við veikindi sín af miklu æðruleysi, en er staðráðin í því að ná bata og hefur meðal annars leitað út fyrir landsteinana að lækningu. Hún gagnrýnir íslenska heilbrigðiskerfið harðlega og segir sorglegt að góð þjónusta eftir álíka áföll þurfi að snúast um peninga.
Lestu ítarlegt viðtal við Tinnu í nýjasta tölublaði Vikunnar. 

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Björg Alfreðsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -