Mataræði mjólkandi mæðra

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hvað eiga konur með börn á brjósti að borða?

Undirstaða góðs mataræðis er fjölbreytni og hæfilegir skammtar.

Margar konur velta fyrir sér hvað sé best að borða meðan þær eru með börn á brjósti. Alls konar kenningar eru uppi um hvað megi borða og hvað eigi að forðast. Almennt gildir að borða venjulegan hollan mat eldaðan heima úr góðum hráefnum. Þó eru nokkur atriði sem hafa ætti í huga. Hér er brot af þeim.

Borðaðu fjölbreyttan mat
Móðurmjólkin sér um að barnið fái öll þau næringarefni sem það þarfnast. Líkami kvenna er svo dásamlega hannaður að frekar gengur hann á sjálfan sig en að láta barnið líða skort. Þetta þýðir þó ekki að móðirin megi vera sinnulaus um eigin þarfir. Ef hún borðar ekki nóg eða einhæfan mat kemur að því að bæði hana og barnið fer að skorta næringu. Foreldrar með ung börn þurfa auk þess á öllum sínum styrk að halda og þess vegna mjög gott að vera meðvitaður um að mataræðið sé til þess fallið að viðhalda honum. Margar konur segjast hafa meiri matarlyst þegar þær eru með barn á brjósti og það er eðlilegt. Líkaminn brennir miklu við að framleiða brjóstamjólkina og þarf þess vegna á orku að halda. Það er gott að bregðast við þessu með prótínríku snakki tvisvar til þrisvar á dag. Hnetur, prótínstykki, harðfiskur, egg og skyr falla undir það.

Veldu alls konar hollustu
Undirstaða góðs mataræðis er fjölbreytni og hæfilegir skammtar. Kolvetni, fita og prótín eru allt nauðsynleg næringarefni. Fituríkt fæði gefur seddutilfinningu sem varir lengi og ef líkaminn fær nóg prótín hverfur þörfin fyrir að vera sífellt að narta. Allir þekkja orðið muninn á einföldum og samsettum kolvetnum. Samsett kolvetni eru í heilkorni, ferskum ávöxtum og grænmeti meðan einföld fást úr sælgæti, gosdrykkjum og annarri vöru með viðbættum sykri. Sterkja, eins og finnst í kartöflum og fleiri matartegundum, veldur sömu viðbrögðum í líkamanum og einföld kolvetni, eða snöggri hækkun á blóðsykri og hrapi í kjölfarið sem kallar á aukna neyslu á sömu vöru.

Vertu meðvituð um eiturefni
Í ýmsum matvælum leynast eiturefni. Kvikasilfursmengun í fiski er til að mynda mjög mikil víða um heim þótt hér á landi mælist hún ævinlega undir viðmiðunarmörkum. Skordýraeitur hefur mælst á berki ávaxta og í berjum og því er gott að skola ávallt allt slíkt áður þess er neytt. Meðan verið er með barn á brjósti ættu konur að vera enn meðvitaðri um þetta. Það er einnig góður kostur að velja lífrænt ræktað grænmeti og ávexti meðan á brjóstagjöf stendur en engin eiturefni eru notuð við þá ræktun. Engar rannsóknir eru til á langtímaáhrifum notkunar skordýraeiturs við matvælaframleiðslu á menn en vitað að þegar menn verða fyrir slíkri mengun oft eru auknar líkur á að þeir fái krabbamein af ýmsum toga.

Texti / Steingerður Steinardóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Bassafanturinn genginn út

Þröstur Jónsson, fyrrum bassaleikari pönkrokksveitarinnar Mínus, og Martina Klara, eru nýtt par.Parið skráði sig í samband í...