Miðvikudagur 6. desember, 2023
0.8 C
Reykjavik

Með aðstoð lögreglu …

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni. 

Þegar ég var ítrekað stoppuð af lögreglunni fyrir engar sakir skildi ég ekkert hvað var í gangi. Svo fór mig að gruna að þetta tengdist nágrannaerjum og þótt ég gæti ekki sannað það fékk ég þó aðstoð úr óvæntri átt til að stöðva þessar ofsóknir.

Á þessum tíma var ég nýskilin við manninn minn til margra ára og hafði skilnaðarferlið verið erfitt. Ég bjó í frekar litlu fjölbýlishúsi þar sem allir höfðu sérinngang, var gjaldkeri húsfélagsins sem var nokkuð ónæðissamt starf á þessum tíma og nágrannarnir komu á öllum tímum til að borga reikningana sína.

Þriggja ára sonur minn veiktist mjög alvarlega og þar sem ég þurfti að vera hjá honum nánast allan sólarhringinn á sjúkrahúsinu kom ég eldra barninu fyrir hjá ættingjum. Enginn af nágrönnunum var til í að taka að sér gjaldkerastarfið, ég fór íbúð úr íbúð, sagði þeim að barnið mitt væri mjög veikt í lyfjameðferð og ég treysti mér ekki lengur til að sjá um hússjóðinn. Mikið var ég sár og ekki síður undrandi. Sjálf hefði ég ekki hikað við að taka þessa aukabyrði af manneskju í svona erfiðleikum.

Þetta var skelfilegt tímabil, stundum hélt ég að barnið mitt dæi, svo veikt var það. Ekki hafði ég nokkurn stuðning af fyrrum eiginmanni eða fólkinu hans. Skilnaðurinn var vissulega erfiður og hatrammur en að láta það bitna á þennan hátt á barninu var ofar mínum skilningi. Samband hans við börnin var ekki sérlega náið en hann var þó pabbi þeirra. Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn en tautaði alltaf að hann þyldi ekki sjúkrahús og svo var hann farinn eftir smástund. Hann bauð ekki fram neina hjálp, eins og að leysa mig af við sjúkrabeðinn. Það var starfsfólkið sem sá til þess að ég kæmist annað slagið heim. Stundirnar heima notaði ég til að gráta því á sjúkrahúsinu varð ég að vera sterk fyrir barnið mitt.

Ekki fékk ég mikinn frið til að gráta, heldur var stöðugt hamast á hurðinni hjá mér, nágrannar á ferð til að borga rafmagn og hita og þess háttar, höfðu séð bílinn minn í innkeyrslunni og komu þá strax.

Eftir að ég skildi og stóð uppi ein með börnin fann ég fyrir auknu virðingarleysi frá nágrönnunum í minn garð, aðallega hjónunum á hæðinni fyrir ofan mig, og það var eins og engu skipti að ég væri með fárveikt barn.

- Auglýsing -

Ekki í vinsældakeppni
Lífið varð sífellt erfiðara, reikningarnir hrúguðust upp og á tímabili voru fjölmargir lögfræðingar á hælunum á mér. Ef ég hefði búið á litlum stað úti á landi hefði eflaust verið haldin söfnun fyrir mig en ég hvarf í fjöldann í Reykjavík.

Ég hafði hvorki tíma né geð í mér til að vera í vinsældakeppni í húsinu á þessum erfiðu tímum og þegar hjón í húsinu vildu frá sérhita í íbúð sína var ég sú eina sem samþykkti það ekki. Þessi hjón bjuggu næst hitainntakinu og vildu spara sér fé en á kostnað okkar hinna sem enginn hugsaði út í. Mér datt ekki í hug að gera þessu fólki neinn greiða, hjónin sýndu mér algjört tómlæti þegar ég sagði frá veikindum sonar míns og bað þau um að sjá um gjaldkerastöðuna fyrir mig. Átti ég nú að fara að borga hærri hita fyrir þau?

Karlinn á hæðinni fyrir ofan mig vann hjá Reykjavíkurborg og einn daginn mætti hann með reikning til mín fyrir málningu sem hann hafði reddað húsfélaginu í gegnum afsláttarkjör hjá borginni. Mér fannst þetta óheyrilega dýrt og eitt símtal upp í Málningu sýndi mér að við hefðum getað fengið nákvæmlega sömu málningu á húsveggi, glugga og þak á helmingi lægra verði þar.

„Alltaf sýndi ég lögreglunni fyllstu kurteisi þótt ég yrði sífellt pirraðri. Ég var stundum látin blása í áfengismæli þótt hábjartur dagur væri og börnin í aftursætinu.“

- Auglýsing -

„Og hver ákvað að þakið ætti að vera rautt?“ spurði ég pirruð, ég þoli ekki rauð þök. Hann benti á næsta hús þar sem var rautt þak og sagði fordæmi fyrir þessu vali en ég benti á húsin í kring og mislit þökin á þeim.

Hinir nágrannarnir samþykktu alltaf allt sem karlinn lagði til, eða þorðu ekki að mótmæla, það var bara ég, gjaldkeri húsfélagsins, sem mótmælti yfirgangi hans. Auðvitað hefði átt að halda húsfund og ákveða þetta í sameiningu en karlinn var svo frekur.

Einn daginn þegar ég var heima í kærkominni grátpásu tók ég mig til og opnaði gluggaumslögin sem biðu í hrúgum. Eitt þeirra var frá tryggingarfélaginu mínu sem tilkynnti að búið væri að kaupa húseigandatryggingu fyrir mig. Ég hringdi undrandi í tryggingarfélagið og sá sem ég talaði við sagði að ódýrara væri að hafa allt húsið með í pakkanum. Ég bað hann um að fletta upp kennitölunni minni, þá sæi hann að ég væri skuldug hjá þeim, hvort ekki væri sniðugra ef ég borgaði eldri skuldir áður en ég stofnaði til nýrra.

Stríð vegna garðvinnu
Lítill garður fylgdi öllum íbúðunum, granninn á efri hæðinni hafði svalir, ég var með smáverönd en svo var hluti garðsins sameiginlegur með íbúðum. Ég og freki granninn vorum í endaíbúðum og þar voru bara tvær hæðir svo ekki voru fleiri um garðskikann okkar. Hann og kona hans gerðu aldrei neitt þar svo það kom í minn hlut að slá, reyta arfa og girða, en eitt árið voru settir upp skjólveggir sem gerðu garðana meira kósí og sér. Ég reyndi reglulega að virkja fólkið uppi í garðvinnu en tókst ekki.

Syni mínum batnaði hægt og rólega og ég fékk stundum að taka hann heim en þá varð hann að vera í einangrun. Ég lét nágranna mína vita af því og sagði þeim að hann mætti ekki leika við börn þeirra vegna smithættu. Ekki var hlustað á það, börnin af efri hæðinni komu iðulega út í garð þegar þau sáu son minn þar að leik svo ég þurfti að taka hann inn. Svo hringdu börnin dyrabjöllunni hjá mér ef þeim var mál. Ef ég sagði þeim að fara heim til sín og pissa þar sögðu þau kannski að mamma þeirra væri að leggja sig og yrði svo reið …
Loks eftir langa hríð gafst ég upp, fór upp til nágranna minna og hreinlega bannaði þeim að nota garðinn þar sem þeir sæju sér aldrei fært að gera neitt þar. Þessir nágrannar mínir eru útlenskir og töluðu fínustu íslensku en báru þó alltaf fyrir tungumálaörðugleikum ef ég þurfti að ræða eitthvað við þá. Þetta fólk var rammkaþólsk og sagðist ekki mega gera neitt á sunnudögum, hvíldardaginn hélt það að sjálfsögðu hátíðlegan. Hina sex daga vikunnar var það of upptekið við annað.

Eftir þetta skall á fullur fjandskapur. Ég komst fljótlega að því að þessi hjón hefðu gengið á milli hinna í húsinu og nítt mig niður því ég fór að finna fyrir óvæntri andúð frá nokkrum öðrum. Ekki hafði ég nokkra orku til að reyna að leiðrétta lygarnar.

Gamlar vinkonur mínar þekkja eina nágrannakonuna sem var gift lögreglumanni, og er kannski enn, og heyrðu svo krassandi sögur af mér hjá henni að þær birtust óvænt hjá mér. Ég bauð þeim inn og upp á kaffi og svo spurðu þær hreinskilnislega hvort það væri rétt að ég væri orðin fyllibytta, þessi kona hefði sagt þeim það. Hún hefði talað um að ég ætti svo mikið af vínglösum … ég leit á skápinn minn með fínu vínglösunum sem ég hafði safnað í 15 ár og sagði brosandi: „Ef ég væri fyllibytta myndi ég líklega drekka úr sultukrukkum!“

Þær skellihlógu, svolítið skömmustulegar yfir því að hafa trúað þessu. Áður fyrr komu vissulega einhverjir nágrannar í kaffi til mín og sáu þá eflaust glasasafnið, en allar heimsóknir lögðust af eftir að sonur minn veiktist og þurfti að vera í einangrun heima, og um leið tækifæri mín til að halda góðu sambandi við nágrannana.

Leynifundur í næstu íbúð
Eitt kvöldið fór ég út á veröndina mína til að anda að mér fersku lofti. Ég heyrði strax að fjöldi fólks var í íbúðinni á neðri hæðinni við hliðina á mér en sá ekkert fyrir skjólveggnum háa. Gluggi var opinn í íbúðinni svo ég heyrði orðaskil. Þegar nafn mitt bar á góma brá mér og ég færði mig nær veggnum og settist niður á stéttina til að heyra betur. Ég veit að maður á ekki að liggja á hleri en ég gat ekki stillt mig og er fegin því vegna þess sem síðar gerðist. Þarna voru meðal annars grannarnir af efri hæðinni og töluðu á góðri íslensku um vandræðamanneskjuna mig og nauðsyn þess að losna við mig úr húsinu.
„Er hann örugglega til í þetta?“ heyrði ég svo að einn karlinn sagði og hann fékk jákvætt svar við því. Ég dreif mig fljótlega inn, fannst þetta of óþægilegt.
Mjög fljótlega eftir þetta fór lögreglan að ónáða mig í tíma og ótíma þegar ég var á bílnum. Mér fannst það afar óþægilegt og þegar þetta hætti ekki fór mér að finnast þetta undarlegt. Ég mátti varla aka Ártúnsbrekkuna án þess að sjá blikkandi ljós í baksýnisspeglinum. Alltaf sýndi ég lögreglunni fyllstu kurteisi þótt ég yrði sífellt pirraðri. Ég var stundum látin blása í áfengismæli þótt hábjartur dagur væri og börnin í aftursætinu.

„Ég fékk aldrei að vita hvað kom út úr rannsókn varðstjórans eða hvort eftirmál hefðu orðið vegna hennar en þessar ofsóknir hættu strax.“

Einu sinni á leið minni á Landspítalann skipti ég yfir á vinstri akrein til að liðka fyrir umferð frá aðrein, til að þeir bílstjórar kæmust strax inn á hægri akrein á aðalbraut. Þetta er svo sjálfsagt að ég skil ekki þegar fólk gerir þetta ekki. Í kjölfarið var ég stoppuð af lögreglu og fékk áminningu … fyrir að flakka á milli akreina. Ég þurfti að mæta niður á stöð vegna þessa máls og sagði meðal annars í skýrslutökunni að svona akstursmáti væri skylda um alla Evrópu. „Við erum ekki í Evrópu,“ var svarið. „Nú, hvar erum við þá?“ spurði ég kurteislega á móti en fékk ekkert svar. Mér var sagt í lokin að ég fengi að heyra frá lögfræðideildinni en síðan eru um 20 ár og enn hefur ekkert heyrst.

Varðstjórinn hennar mömmu
Ég sagði mömmu frá þessu og að það væri eitthvað gruggugt í gangi, mig væri farið að gruna að nágrannar mínir stæðu á bak við þetta. Mamma veit að ég ímynda mér ekki hlutina og hún ákvað að hjálpa mér við að komast til botns í þessu. Hún þekkti varðstjóra sem hún hafði kynnst á sólarströnd sumarið áður og lánað honum peninga eftir að hann týndi vísakortinu sínu eða eitthvað slíkt.

Við mamma fórum saman niður á lögreglustöð þar sem varðstjórinn hennar tók vel á móti okkur. Þegar hann hafði heyrt málavöxtu lofaði hann að kanna málið. Hann vissi ekki hvort um upplognar ásakanir á hendur mér væri að ræða eða hvort eitthvað annað hefði orðið þess valdandi að ég væri undir smásjá.
Ég fékk aldrei að vita hvað kom út úr rannsókn varðstjórans eða hvort eftirmál hefðu orðið vegna hennar en þessar ofsóknir hættu strax.

Það er mjög alvarlegt ef einhver hefur misnotað búning sinn og vald til að níðast á manneskju vegna upploginnar sögu um að hún væri fyllibytta, þá gæti hver sem er sem þekkir lögreglumann komið óvinum sínum í klípu.
Þrátt fyrir þennan góða varðstjóra, vin mömmu, þá tók mig langan tíma að taka lögregluna í sátt aftur.

Þegar ég flutti loks úr þessu húsi fannst mér þungu fargi af mér létt og síðan hef ég aðeins átt góða granna. Það þarf greinilega ekki nema einhvern einn til að eyðileggja allt.
Það tók mig mörg ár að greiða allar skuldir mínar og jafna mig fjárhagslega eftir veikindi barnsins en mér tókst það fyrir rest þótt seint geti ég kallast rík kona. Ekki gerði það baráttuna léttbærari að þurfa að kljást við þessa erfiðu nágranna.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -