Með auga fyrir hinu smáa

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þegar eftirlaunaaldurinn nálgast fara margir að hugsa til þess að hægja á lífsstílnum og setjast í helgan stein, eins og það er kallað. Ásta Steingerður Geirsdóttir gerði eiginlega alveg öfugt. Hún sagði upp leiguíbúð sem hún bjó í og flutti utan, til Danmerkur þar sem hún bjó í tvö ár, festist um tíma á Spáni í miðjum COVID-faraldri og er nú í leit að heppilegum stað að búa á. Ásta er auk þess göngugarpur og ljósmyndari með einstakt auga fyrir hinu smáa og forgengilega í náttúrunni.

Ásta Steingerður er nýkomin heim til Íslands og ætlar ekki að stoppa lengi í höfuðborginni. Hún er alin upp á Borgarfirði eystra og er á leið í skálavörslu í Breiðuvík en gaf sér tíma til að koma í viðtal. Hvert sem hún fer er myndavél alltaf með í för, svo það liggur beint við að spyrja fyrst hvenær sá áhugi hafi kviknað. „Ég held ég geti sagt nákvæmlega hvenær það var,“ segir hún. „Ætli ég hafi ekki verið tólf ára. Þá byrjaði ég að taka myndir á gamla kassamyndavél sem mamma átti. Hún var með tréspólum og filmur varð maður að panta sunnan úr Reykjavík. Vélin var orðin svo léleg að ekki var hægt að snúa spólunni með handafli og þurfti því að nota til þess töng. Það var hægt að taka bæði portrait- og landscape-myndir með því að snúa vélinni. Hún lenti á minjasafninu á Egilsstöðum. Ég kom henni þangað svo hún myndi ekki tapast. Þar byrjaði þetta og seinna fékk ég Kodak Instamatic með innbyggðri filmu og flasskubbi ofan á. Í dag á ég tvær góðar vélar, Sony og Canon.“

Ekki með fasta búsetu neins staðar
Hún hefur haldið sýningu á myndum sínum á nokkrum stöðum á landinu og kallaði hana í gríni Flökkusýningu. Annars var yfirskrift sýningarinnar „Sandkorn í fjöru“.

„Ég hafði gengið með þetta í maganum alveg gríðarlega lengi. Svo einhvern tíma hugsaði ég með mér: Ef þú gerir þetta ekki núna, gerir þú þetta aldrei og átt alltaf eftir að sjá eftir því að hafa ekki látið vaða. Ég átti smásjóð og eyddi honum nánast öllum í þetta verkefni. Þetta voru myndir, 40×60, prentaðar á striga, foam og nokkrar á textíl. Ég hef talsvert myndað þetta smáa í fjörunni og átti mér leynifjöru. Myndirnar á sýningunni voru allar teknar þar. Það skapast sérstæðar aðstæður þegar bergvatnið seytlar í gegnum hraunið, út í sandinn og býr þar til skemmtilegar myndir. Svo eru þær þvegnar burtu á næsta flóði. Ég hef áráttu fyrir því smáa í náttúrunni, þessu sem svo margir líta fram hjá. Ég sýndi á kaffihúsi við Hlemm, á Súfistanum í Hafnarfirði, í Firði, Bláu könnunni og Amtbókasafninu á Akureyri, einnig á Egilsstöðum og lengi héngu uppi nokkrar myndir í Álfakaffi á Borgarfirði eystra.“

Undanfarið hefur þú verið á miklu flakki, meðal annars búið í Danmörku og á Spáni. Hvar býrðu núna? „Ég á eiginlega hvergi heima, sem stendur,“ segir Ásta Steingerður og brosir. „Ég bjó í Hafnarfirði í 15 ár og íbúðin þar var of stór fyrir mig eina. Ég hugsaði með mér: Nú ert þú komin á þennan aldur og hvað ætlarðu að gera? Ætlar þú bara að sitja hér?“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Kaupa blað í vefverslun >

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Lilja Ósk nýr formaður SÍK

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Pegasus var á fimmtudag kjörin formaður stjórnar Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda,...