• Orðrómur

Með höfnun er alheimurinn að bjarga okkur frá meðalmennsku

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Höfnun er vond. Það er vísindalega sannað að hún hefur áhrif á tilfinningar okkar, hugsun og hegðun. Rannsókn sem var framkvæmd við Háskólann í Michigan leiddi í ljós að höfnun hefði sömu á hrif á hluta heilans og líkamlegur sársauki. Hún veldur manni þjáningu.

Höfnun er líka furðulegt fyrirbæri því jafnvel þótt maður viti að eitthvað sem verður á vegi manns, hvort sem það er ástarsamband eða faglegs eðlis, eigi alls ekki við mann er það samt sárt þegar höfnunin kemur. Maður vill verða fyrri til að hafna og spara sér þannig vonbrigðin við að vera hafnað.

Tökum nýlegt dæmi af konu sem ég þekki. Maður sendir henni skilaboð á Facebook. Hún svarar og þau byrja aðeins að spjalla. Hann sendir henni skilaboð á hverjum degi. Eitt leiðir af öðru og eftir að hafa spjallað saman á Messenger í marga daga samþykkir hún að hitta manninn.Hann er alls ekki hennar týpa: Töluvert eldri en hún, „sköllóttur, með hvítt alskegg, vinnualki, horfir ekki á fréttir en hlustar daglega á Útvarp Sögu,“ eins og hún sagði sjálf. Henni finnst hann samt mjög indæll og skemmtilegur svo hún er tilbúin að gefa þessu séns því hana langar alveg að halda áfram að spjalla við þennan mann og eignast kannski í honum vin. Ekki meira en það samt.

- Auglýsing -

Þau hittast þrisvar. Þess á milli sendir hann henni ennþá skilaboð. Eftir þriðja hitting, sem að hennar mati gekk bara vel, gerist svo ekki neitt og hún heyrir ekkert frá honum. Hún sendir honum skilaboð, en fær ekkert svar. Rúmri viku síðar gengur hún á hann og spyr hverju þetta eigi að sæta. Hún vill bara fá að vita hvort hún eigi eftir að heyra frá honum einhvern tíma aftur. „Þú ert yndisleg en ég held að við séum ekki að ná saman,“ svarar hann. Þrátt fyrir að hafa í raun aldrei haft áhuga á neinu meira frá þessum manni en vinskap tekur hún þetta nærri sér. Finnst hún ómöguleg og hafa gert eitthvað rangt, án þess að hafa neina ástæðu í raun til að halda það. Hún er alveg sama frábæra manneskjan og hún var áður. Það er erfitt að hugsa rökrétt eftir að manni hefur verið hafnað, hvað þá að ímynda sér að eitthvað betra geti beðið handan við hornið.

„Maður vill verða fyrri til að hafna og spara sér þannig vonbrigðin við að vera hafnað“

Þetta er eins og þegar maður fer í atvinnuviðtal fyrir starf sem maður er ekki spenntur fyrir, en fer af því að það er svo sem ágætis æfing í að fara í slíkt viðtal. Svo kemur höfnunin: „Við þökkum þér sýndan áhuga en …“ Það getur tekið mann langan tíma að jafna sig á því að þetta fólk hafi ekki séð hvaða frábæru kosti maður hefði haft fram að færa í starfið – sem maður hefði reyndar hafnað þar sem þetta var ekki það sem mann langaði í. Síðan rekur draumastarfið á fjörur manns, sem maður hefði aldrei fengið nema af því að maður fékk ekki hitt. Eða hjónabandið sem þig langaði að slíta fyrir löngu en hafðir þig ekki í það. Þegar maki þinn svo tekur ákvörðun um skilnað efast þú um að þú sjáir nokkru sinni til sólar á ný í þeim hvirfilbyl. En svo kemur eitthvað ennþá betra og undur fallegt út úr því öllu saman með tímanum.

Höfnun er sár. En eins og Mark Groves sagði: „Höfnun verður velkomin þegar við áttum okkur á því að með henni er alheimurinn að bjarga okkur frá meðalmennsku.“

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -