2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Allar að stíga sín fyrstu skref í atvinnuleikhúsi

  Söngleikurinn Matthildur er sýndur um þessar mundir í Borgarleikhúsinu og uppselt er á nær allar sýningar langt fram á vor. Þrjár stúlkur skipta með sér titilhlutverkinu, þær Salka Ýr Ómarsdóttir, Erna Tómasdóttir og Ísabel Dís Sheehan.

  1200 börn sóttu um hlutverk í söngleiknum eftirsótta. Nítján börn hrepptu hlutverkin en þau skiptast í tvo hópa sem sýna til skiptis. Ungu leikkonurnar þrjár sem skipta með sér aðalhlutverkinu eru allar á tíunda ári en þetta er frumraun þeirra innan atvinnuleikhúss.

  Systir mín setti mig í þessi spor

  Salka Ýr Ómarsdóttir situr fyrst fyrir svörum en hún hefur æft leiklist hjá Sönglist í Borgarleikhúsinu og leikfélaginu Draumum ásamt því að stunda ballett hjá Ballettskóla Eddu Scheving og fimleika hjá Stjörnunni frá tveggja ára aldri. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég leik á svona stóru sviði og meira að segja í fyrsta sinn sem ég mæti í prufu, en það er allt systur minni, henni Kötlu Maríu, að þakka. Ég er nefnilega mjög óþolinmóð og þegar ég sá hvað röðin var löng í prufurnar ætlaði ég að guggna á að mæta. Krakkarnir hlykkjuðust í röð niður allt bílastæðið fyrir utan og ég ætlaði ekki að nenna að bíða svona lengi. Katla María var hins vegar alveg hörð á því að við skyldum bíða og gera þetta svo það er henni að þakka að ég fékk hlutverkið því hún hvatti mig svo lengi og vel. Þrátt fyrir að fá ekkert hlutverk sjálf var hún ákaflega glöð fyrir mína hönd og í dag er hún rosalega stolt af mér. Hún setti mig í þessi spor sem ég er í núna og verður eflaust mjög glöð að ég minnist á hana í þessu viðtali.

  Í prufunum vorum við látin syngja og dansa og fara með texta, svona eins og maður gerir í leikhúsinu. En ég hafði bæði séð myndina og lesið bókina svo ég var talsvert með á nótunum um hver Matthildur væri. Í fyrstu var ég alls ekki viss um að ég fengi hlutverk í leikritinu en eftir því sem leið á prufurnar fór ég að vona meira og meira. Ég var samt lengi vel tvístígandi hvort aðalhlutverkið gæti yfirhöfuð orðið mitt þar sem ég er með ljóst hár en þegar niðurstöðurnar lágu svo fyrir varð ég mjög glöð.“

  AUGLÝSING


  „Ég var samt lengi vel tvístígandi hvort aðalhlutverkið gæti yfirhöfuð orðið mitt þar sem ég er með ljóst hár en þegar niðurstöðurnar lágu svo fyrir var ég mjög glöð.“ Mynd/Aldís Pálsdóttir

  Líður alltaf vel á sviðinu
  Spurð hvernig hún samsami sig söguhetjunni segist Salka finna til talsverðra líkinda milli hennar og persónu Matthildar. „Ég er reyndar ekki alveg jafnklár og hún en ég elska að lesa og svo er ég líka prakkari – ég bara verð að viðurkenna það. Ég tengi við margt í minni Matthildi og hinar stelpurnar sem leika hana tengja við sína Matthildi. Hún á frekar sorglega ævi en þá reyni ég bara að hugsa um eitthvað sorglegt og kalla fram tárin í gegnum það. Annars líður mér alltaf vel á sviðinu og þetta er sko löng sýning þar sem ég er mjög stóran þátt á sviðinu. Uppáhaldsatriðið mitt er þegar Matthildur segir sögur loftfimleikafólksins en svo finnst mér líka skemmtilegt þegar Matthildur er í húsinu hennar Fríðu Hugljúfu. Gréta og Hans er hins vegar uppáhaldslagið mitt.“

  Þegar talið berst að textanum, sem er talsvert mikill fyrir svo unga leikkonu segist Salka hafa notið góðs af kennaramenntaðri mömmu sinni. „Mér gekk mjög vel að læra textann en mamma var líka rosalega ströng. Þetta er svakalega langur texti og stundum var ég þreytt að læra en hún ýtti alltaf á mig og passaði að ég kynni allt rétt.“

  Eftir tíu vikna langt æfingaferli er ekki úr vegi að spyrja hvernig skólamálin standi en stelpurnar eru allar í fimmta bekk. „Mér fannst leiðinlegt að hitta ekki vini mína í skólanum en sem betur fer er mamma mín kennari. Hún tók strax allt námsefnið mitt föstum tökum og gerði langan lista sem ég fór eftir. Ég er meira að segja komin á undan krökkunum í sumu en er að vinna annað upp núna þegar æfingatímabilið er búið. Krakkarnir í bekknum mínum mættu svo öll á forsýninguna mína og þeim fannst öllum þetta vera alveg frábær sýning.“

  Sprakk úr gleði

  Erna Tómasdóttir er næst í stólinn en hún hefur spilað á selló frá þriggja ára aldri og stundar enn nám við Suzukiskólann undir leiðsögn Örnólfs Kristjánssonar. Hún stundar nám við Barnaskólann í Reykjavík sem rekinn er af Hjallastefnunni en þar syngur hún, skapar tónlist og fær að kynnast ýmsum hljóðfærum. Erna hefur jafnframt verið í Götuleikhúsinu og Stúlknakór Reykjavíkur, æft körfubolta með KR ásamt því að æfa ballett.

  „Þetta er í fyrsta sinn sem ég stíg á leiksvið en mér fundust prufurnar mjög skemmtilegar. Ég þurfti að læra nýtt lag og syngja það fyrir dómnefnd ásamt því að fara með texta sem við áttum að læra utan að en svo dönsuðum við líka. Ég er ekkert svo góð í að dansa en það vill svo vel til að Matthildur dansar eiginlega ekkert í sýningunni.“

  Spurð hvort hún líkist Matthildi segist Erna í það minnsta ekki eiga vonda foreldra. „Ég á eitt systkini, alveg eins og Matthildur, en mitt er að vísu yngra, svo finnst mér líka gaman að lesa en annars held ég að við séum frekar ólíkar. Ég var alls ekki viss um að ég fengi hlutverkið en ég var rosalega glöð þegar ég heyrði að það yrði mitt, ég hreinlega sprakk úr gleði heima hjá ömmu minni þegar ég fékk að vita það. Það reyndist síðan alveg erfitt að læra allan textann. Í framtíðinni langar mig að verða fjöllistakona, þar á meðal í leiklist. Uppáhaldslagið mitt í sýningunni held ég að sé Óþekk en mér finnst aldrei skrítið að sjá svona marga í salnum og ég verð aldrei neitt kvíðin að stíga á svið enda er miklu erfiðara að segja eitthvað sjálfur en það sem handritið segir manni að segja.“

  „Ég verð aldrei neitt kvíðin að stíga á svið enda er miklu erfiðara að segja eitthvað sjálfur en það sem handritið segir manni að segja.“ Mynd/Aldís Pálsdóttir

  Skemmtilegt að fá frí í skólanum

  Ísabel Dís Sheehan er síðust í sætið en hún byrjaði snemma að setja upp leiksýningar í stofunni heima hjá sér. Síðan þá hefur hún komið fram í Stundinni okkar ásamt því að sækja fjölda námskeiða hjá Sönglist, Leynileikhúsinu, stunda fimleika, ballett og jazzballett. „Það var bæði stressandi og skemmtilegt að mæta í prufurnar en þar sem krakkarnir voru svo margir sem sóttu um hvarflaði ekki að mér að hlutverkið yrði mitt. Vinkona mín stakk því þó að mér að ég gæti alveg eins orðið fyrir valinu eins og allir hinir en engu að síður komu úrslitin mér á óvart. Mér fannst aldrei neitt mál að læra textann, eiginlega bara svolítið létt en uppáhaldsatriðin mín í sýningunni eru fyrsti skóladagurinn, faðmlagið mikla, ropið og svo lagið Er ég verð stór. Æ, það eru örugglega fleiri uppáhaldsatriði, þau eru það eiginlega bara öll en Óþekk er samt uppáhaldslagið mitt. Krakkarnir sem koma að sýningunni eru allir ofsalega skemmtilegir og við erum rosalega góðir vinir. Mér finnst við Matthildur eiga það sameiginlegt að vera á móti öllu óréttlæti og þannig.“

  Og Ísabel segist aldrei vera kvíðin áður en hún stígur á svið. „Sýningarnar líða mishratt, sumar þjóta hjá meðan aðrar eru lengur að líða en mér finnst alltaf gaman. Sérstaklega skemmtilegt líka að fá frí í skólanum svona lengi og fá að prófa eitthvað nýtt en krakkarnir í bekknum mínum voru líka mjög glöð að fá að hitta mig aftur.“

  „Sýningarnar líða mishratt, sumar þjóta hjá meðan aðrar eru lengur að líða en mér finnst alltaf gaman.“ Mynd/Aldís Pálsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum