2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Árstíðirnar tengja sögurnar saman“

  Karítas Hrund Pálsdóttir fékk þá hugmynd að setja saman bók með safni stuttra, skáldaðra frásagna fyrir þá sem leggja stund á íslensku sem annað mál þegar hún var í skiptinámi í háskóla í Japan. Fjórum árum og tveimur háskólagráðum síðar er bókin orðin að veruleika en hún kom í verslanir nú skömmu eftir áramót. Karítas segir það heiður að Eliza Reid forsetafrú hafi skrifað formála bókarinnar en auk þess hefur bókin að geyma uppskrift móður Guðna Th. Jóhannessonar forseta að uppáhaldsplokkfiskréttinum hans.

   

  Karítas er höfundur bókarinnar Árstíðir – sögur á einföldu máli. Hún útskrifaðist með meistarapróf í ritlist frá Háskóla Íslands í fyrrasumar en áður hafði hún lokið BA-gráðu í íslensku með japönsku sem aukagrein árið 2017. Hún segist hafa öðlast töluverða reynslu af tungumálanámi í gegnum árin þar sem hún bjó í Danmörku sem barn, í Bandaríkjunum sem unglingur og útskrifaðist síðan af málabraut í menntaskóla. „Ég hafði fundið mikilvægi þess að til séu áhugaverðar sögur á réttu getustigi fyrir þá sem vilja tileinka sér ný tungumál. Ég taldi þörf á að til væru fleiri slíkar sögur á íslensku og ákvað að skrifa safn stuttra, skáldaðra frásagna fyrir þá sem leggja stund á íslensku sem annað mál.“

  „Í bókinni leynist til dæmis uppskrift að uppáhaldsplokkfiski Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og góð ráð um hvernig megi komast í gegnum skammdegið í janúar.“

  Hugmyndin kviknaði í Japan

  AUGLÝSING


  Hugmyndin að bókinni Árstíðir – sögur á einföldu máli segir Karítas að hafi kviknað
  þegar hún nam japönsku í eitt ár við Waseda-háskóla í Tókýó þegar hún var í BA-náminu við Háskóla Íslands. „Það eru akkúrat tvö ár núna síðan ég hófst handa við að skrifa sögur í bókina. Þetta er mín fyrsta bók en áður hafa sögur eftir mig meðal annars birst í smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað, sem Una útgáfuhús gaf út vorið 2019.“

  Karítas segir sögurnar allar flokkast undir örsögur. „Það er reyndar engin skýr skilgreining á því hvað örsaga er. Þær eru allt frá því að vera ein málsgrein en ein þumalputtaregla miðar við að saga sé orðin smásaga þegar hún er orðin 1.500 orð að lengd. Sögurnar mínar eru mislangar en þó allar á bilinu 35 til 500 orð.“

  Fjölbreyttar sögur

  Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna er sögunum skipt upp í fjóra hluta eftir árstíðum: SUMAR, HAUST, VETUR og VOR. „Það eru því árstíðirnar sem tengja sögurnar saman,“ segir Karítas.

  „Ljós og myrkur afmarka árstíðirnar á Íslandi og kemur birtan og birtuleysið því svolítið við sögu. Annars eru sögurnar fjölbreyttar að innihaldi. Í bókinni leynist til dæmis uppskrift að uppáhaldsplokkfiski Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og góð ráð um hvernig megi komast í gegnum skammdegið í janúar. Í einni sögunni er sagt frá sauðfjárréttum og í annarri verður óvænt uppákoma í berjamó. Í þriðju sögunni styðjast stelpur í strákaleit bæði við Tinder og Íslendingabók og í þeirri fjórðu er talað um sjóræningja sem því miður eru ekki bara til í ævintýrunum. Svo eru þarna sögur sem snúast um orðaleiki, eins og til dæmis tvíræðni orðanna gella, greiðsla og tunga.“

  Karítas segist hafa skrifað sögurnar í bókinni sérstaklega með fullorðna lesendur sem eru með íslensku sem annað mál í huga og reynt að hafa þær fjölbreyttar svo þær gætu höfðað til sem flestra, enda sé hópur þeirra sem sé að læra íslensku mjög fjölbreyttur. Sögurnar gætu jafnvel hentað lesendum strax á unglingastigi.

  Þá segir hún bókina nýtast jafnt við kennslu og til yndislestrar. „Til stendur að nota nokkrar sögur úr bókinni við kennslu í hagnýtu námi í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands nú á vormisseri og vonandi verður lestur þessara útvöldu sagna til þess að nemendur langi til að lesa fleiri sögur úr bókinni í frítíma sínum. Ég held líka að sögurnar gætu ef til vill nýst nemendum á starfs- og sérnámsbrautum framhaldsskólanna og bara öllum þeim sem vilja lesa sögur á einföldu máli,“ segir Karítas og brosir.

  Heiður að Eliza Reed hafi skrifað formála að bókinni

  Aðspurð hvað geri sögurnar að sögum á einföldu máli svarar Karítas að þær séu stuttar og skýrar. Hún hafi reynt að gæta þess að textinn væri hnitmiðaður, það er að hann hefði skýrt umfjöllunarefni.

  Karítas er höfundur bókarinnar Árstíðir .

  „Auk þess valdi ég auðskiljanleg orð fram yfir flókin orð og reyndi að hafa setningar stuttar og einfaldar. Hvað þetta varðar samræmist getustig sagnanna að einhverju leyti viðmiðum um auðlesið efni, samanber kennslurit á vef Þroskahjálpar. Ég las fræðigreinar og kennslubækur til að fá góða tilfinningu fyrir getustiginu áður en ég byrjaði að skrifa sögurnar og naut leiðsagnar frá Maríu Önnu Garðarsdóttur og Sigríði D. Þorvaldsdóttur sem eru sérfræðingar í annarsmálsfræðum og kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands.“

  Karítas segir það mikinn heiður að Eliza Reid hafi skrifað formála að bókinni. „Eliza hefur meðal meðal annars látið að sér kveða í bókmenntalífinu á Íslandi með ritlistarráðstefnunni Iceland Writers Retreat. Hún er afar flott fyrirmynd,“ segir Karítas. „Í formálanum slær Eliza á létta strengi enda létt og skemmtileg manneskja. Hún segir að glappaskot hennar væru efni í bók og að hún hafi oft óvart vakið misskilning með sínu íslenskutali en hvetur þá sem eru að læra íslensku sem annað mál að sýna þrautseigju því færni í tungumáli þurfi ætíð að halda við.“

  Karítas segist vona að lesendur muni hafa gaman af lestri bókarinnar. Þess óskar Eliza líka og segir: „Ég vona að þið njótið allra þessara sagna eins vel og ég.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum